21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4310 í B-deild Alþingistíðinda. (4051)

260. mál, samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þetta frv. er að vísu vel unnið. En á hinn bóginn finnst mér það á skorta að nógu vel hafi verið unnið að athugun þess hér í þinginu. Lögmannafélag Íslands hefur á sínum vegum nefnd sérfræðinga, sérstaka laganefnd, sem fjallar sérstaklega um frv. og annað sem snertir réttarfar í landinu, mál eins og fjármunarétt og annað því líkt sem er tæknilegs eðlis. Ég tel eðlilegt að frv. sem eru jafnfagleg og þetta, flókin að efni til þó þau sýnist einföld, eigi að vinna vel og rétt sé að þau fái athugun hjá þeim mönnum sem gerst mega til þekkja og eiga að vinna eftir þessum nýju lögum.

Eins og fram kom í máli frsm. fór Lögmannafélagið fram á að fá að athuga þetta mál betur, taldi að það hefði ekki fengið nægilega skoðun og bað þess að frv. biði haustsins. Lögum af þessu tagi, sem skapa eiga nýja réttarvenju, er ætlað að standa lengi, svo áratugum skiptir, og þess vegna tel ég rétt að þingið hafi almennt þau vinnubrögð að slík mál séu vel unnin, öll þau mál sem ætlað er að skapa nýja réttarvenju í landinu.

Einn höfunda frv., Þorgeir Örlygsson, kom á fund nefndarinnar. Hann gaf ítarlegar upplýsingar, en á hinn bóginn hafði hann litlar upplýsingar að færa varðandi það hvaða reynsla hefði fengist af sambærilegum lögum á öðrum Norðurlöndum. Hann þekkti ekki hvort ný lagasetning þar hefði breytt niðurstöðum dómstóla eða ekki. Það hefði auðvitað verið fróðlegt að fá slíkar upplýsingar og aðrar af því tagi.

Ég taldi rétt að þetta mál biði haustþings og fengi betri skoðun hjá öðrum en þeim sem um það hafa fjallað fram að þessu. Í því er fyrirvari minn fólginn.