21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4312 í B-deild Alþingistíðinda. (4055)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á þskj. 1001 flytjum við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson brtt. víð frv. þetta. 4. gr. orðist svo:

„Stjórn Útflutningsráðs Íslands skipa átta menn. Ráðherra skipar stjórnina eftir tilnefningu helstu útflutningssamtaka á Íslandi. Skal ráðherra gæta þess við samsetningu stjórnarinnar að þar eigi einnig sæti fulltrúar samtaka þess launafólks sem einkum starfar að útflutningsframleiðslu, svo sem fiskverkunarfólks, iðnverkafólks og bænda. Varastjórn skal skipuð með sama hætti.“

Ég vil nú rökstyðja þessa till. nokkuð nánar. Í 4. gr. frv. eins og það birtist okkur er gert ráð fyrir því að stjórnin verði átta manna og að það verði ákveðin fyrirtæki og samtök þeirra sem tilnefni menn í stjórnina, þ.e. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga, Flugleiðir hf., Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og Félag ísl. iðnrekenda, auk þess sem tveir ráðherrar, ráðherra viðskiptamála og ráðherra utanríkismála, eiga að tilnefna sinn manninn hvor í stjórn útflutningsráðsins.

Hér er engin tillaga um að verkafólk, sem er óneitanlega mikilvægur hlekkur í framleiðslu útflutningsafurða eins og kunnugt er, fái nokkurs staðar að koma nærri. Auk þess er hér gert ráð fyrir því að sleppa mjög stórum aðilum í útflutningi hér á landi eins og fram kemur á þskj. 997, en þar birtum við yfirlit yfir útflutning einstakra útflytjenda 1984 og 1985. Þar kemur það fram að fob-verðmæti Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Sölusambands ísl. samvinnufélaga, Síldarútvegsnefndar og Sölustofnunar lagmetis sé árið 1985 af stærðargráðunni 17,3 milljarðar kr. Síðan eru fjöldamargir útflutningsaðilar, sem ekki eiga að eiga fulltrúa í stjórn útflutningsráðsins, sem flytja út á árinu 1985 fyrir samtals 4 milljarða kr.

Hér er auðvitað um að ræða býsna stóran hóp manna og fyrirtækja sem mér er tjáð að séu núna að koma sér saman í einhvers konar útflytjendasamtök, þau séu tæplega orðin til en þau séu í þann veginn að verða það þessa dagana. Og þá kem ég að vandamálinu sem hæstv. viðskrh. stendur frammi fyrir, sem sé það að með því að tilgreina ákveðin fyrirtæki og ákveðin samtök í lögunum sjálfum er hann auðvitað alltaf í hnút með þessi mál. Því það eru alltaf einhverjir aðrir sem flytja út líka. Þeir koma til ráðherrans og segja: Af hverju fæ ég ekki að vera með, en af hverju fær þessi að vera með? Ég flyt alveg eins mikið út og hann og af hverju fæ ég þá ekki að vera þarna líka? Þetta nudd mun standa lengi þangað til ráðherrann gefst upp, sem verður nú örugglega einhvern tímann, og breytir þessu.

Ég held að það sé miklu skynsamlegra að horfast í augu við þennan veruleika strax og löggjafinn segi einfaldlega sem svo: Ráðherrann skipar nefndina eða stjórnina átta mönnum á grundvelli ákveðinna sjónarmiða og gætir þess að þar eigi sæti fulltrúar útflutningssamtaka og þess launafólks sem einkum starfar að útflutningsframleiðslu, en það sé ekki verið að telja upp þessi samtök eða fyrirtækjabandalög eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. (GJG: Þetta er nú löggilt.) Það er nú kominn tími til að breyta því. Ég held að það sé ástæða til að breyta þessu, herra forseti, vegna þess að þetta er mesta vitleysa, þessi fyrirtækjaupptalning í 1. málsgr. 4. gr. Þess vegna leggjum við til, ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að þessu verði breytt.

Þá gerum við ráð fyrir því að til samræmis við annað frv. sem hér liggur fyrir verði a-liður 6. gr. felldur niður. „Tekjur útflutningsráðs eru“, stendur hér, „tekjur af útflutningsgjaldi skv. lögum nr. 52/1983.“ En fyrir þinginu og deildinni liggur frv. um að afnema þessi lög og setja í staðinn ný lög um greiðslumiðlun í sjávarútvegi. Og þó að mönnum liggi mikið á hér í þinginu þessa dagana er ekkert á móti því að menn athugi í hverju dagskrármáli hvaða mál þeir voru að ræða síðast eða næstsíðast þó maður geri ekki meiri kröfur. Ég veit að hæstv. viðskrh. er mætavel ljóst hvaða mál ég á við. Hann ræddi það nokkuð í dag og hefði sjálfsagt þurft að gera það lengur, þ.e. frv. til l. um greiðslumiðlun í sjávarútvegi. Þar er lagt til að þessi tekjustofn, sem hann flytur till. um að verði notaður, verði felldur niður. Þess vegna hefði maður haldið að það væri einfaldur prófarkalestur fyrir meiri hluta nefndarinnar að strika þetta út og gera tillögu um að fella þetta niður og taka tekjur af uppsöfnuðum tekjuskatti inn í staðinn. Nei, nei, það má ekki. Það má ekki hlusta á minni hlutann. Það er ekki til siðs hér. Þess vegna hangir meiri hlutinn á því að þetta atriði sé inni áfram þó að það standi ekki til að framkvæma það. Það stendur ekki til að framkvæma það og vita allir að á morgun og hinn verða felld úr gildi þau lög sem vitnað er hér til, lög nr. 52/1983. Við leggjum ósköp einfaldlega til að þingið framkvæmi vissan prófarkalestur miðað við hinn almenna vilja sem virðist vera í þinginu í þessu efni.

Þetta var það sem ég vildi segja varðandi þetta mál, en að öðru leyti leggjum við til, sem stöndum að brtt., að frv. verði samþykkt. Við teljum að hér sé um að ræða mikilvægt mál og ég bendi á að ég hef flutt í þinginu ásamt tveimur öðrum þm. Alþb. frv. til l. um rannsóknastofnun útflutnings- og markaðsmála þar sem tekið er á þessum málum að ég tel með talsvert myndarlegri hætti en hér er gert, en þetta er þó skref í áttina. Ég fagna því og þess vegna munum við styðja þetta frv. þó að við flytjum þær brtt. sem ég hef hér gert grein fyrir, en fyrir þeim liggja augljós rök vænti ég eftir að ég hef nú gert grein fyrir okkar sjónarmiðum.