21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4316 í B-deild Alþingistíðinda. (4062)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Frsm. í þessu máli spurði mig að því áðan hvað ég mundi verða lengi hér í ræðustól. Ég svaraði honum því til að ég mundi verða hér á meðan ég hefði þrek til. Hins vegar er ég orðinn aldursforseti deildarinnar, að sagt er, og mér dettur ekki í hug að reyna að slá met hæstv. menntmrh. sem ég varð vitni að fyrir nokkrum árum, en eftir því sem mig minnir var hann eitthvað á sjötta tíma hér í þessum ræðustól.

Þetta frv., sem hér er verið að ræða, er með dálítið einkennilegum hætti. Það er verið að reyna að beita rökum fyrir því að nauðsynlegt sé að samþykkja heimild fyrir hæstv. fjmrh. til að heimila einstaklingum hér á landi að framleiða vín. Það er sagt að það sé eina leiðin fyrir Íslendinga, sem láta gera þetta úti í Bretlandi, að fara þessa leið.

Fram að þessum tíma hefur Áfengisverslun ríkisins haft einkaleyfi á þessu. Nú á ári bindindisins er verið að brjóta í blað að þessu leyti og það er það sem málið snýst um en hitt ekki. Auðvitað geta þessir aðilar falið Áfengisversluninni að gera þetta fyrir hæfilegt gjald. Það er ekkert sem mælir á móti því. En ég mundi ekki öfunda hæstv. fjmrh. eða einhvern annan ráðherra að hafa þessa heimild í höndum sér.

Það er alveg út í hött, sem stendur í grg., að verið sé að bjarga því að þarna muni skapast gjaldeyrir fyrir 300 millj. Auðvitað mundi hann alveg skapast eins þó að Áfengisverslunin tæki þetta verkefni að sér. Sem sagt, allt sem er utan um þetta frv. stenst ekki. Málið snýst um það eitt: Eigum við að snúa við? Eigum við að láta einn ráðherra hafa heimild til að gefa út eins mörg leyfi og honum þóknast og Alþingi Íslendinga þurfi ekki að fjalla um það? Þetta er málið. Það snýst ekki um annað.

Það er algerlega þarflaust og raunar út í hött að ætla að knýja þetta mál í gegnum þingið á þessum síðustu dögum þinghaldsins. Ég get vel tekið undir rökstuðning hv. þm. Svavars Gestssonar að það sé eðlilegt a.m.k. að bíða eftir því að sú nefnd, sem er að athuga um opinbera stefnumörkun í áfengismálum, skili áliti áður en nokkuð er samþykkt í þessum málum.

Það kom fram hér að Íslendingur væri með nokkurs konar brugghús í Hollandi. Ætli hann muni þá ekki sækja til hæstv. fjmrh. um leyfi til að flytja þetta inn? Það getur verið að kartöfluframleiðendur í Þykkvabæ alveg eins og þeir á Selfossi muni eiga að fá þetta leyfi eftir þeim upplýsingum. Það getur vel verið að þeir komi líka því að mér er tjáð, þó að ég sé ekki neinn sérfræðingur í þessum málum, að það sé gott að nota smælkið og kannske moldina eitthvað með í slíkar veigar. Það getur vel verið að hann geti fundið einhverja fleiri í sínu kjördæmi til þess að láta fá leyfi. Það kann að vera.

Hitt er augljóst mál að grg. er blátt áfram blekking og ekkert annað. Ég er alveg undrandi á þeim mönnum sem skrifa undir þetta meirihlutaálit. Það er engin rós í hnappagat þeirra sem það gera, það er alveg áreiðanlegt.

Það getur vel verið að hæstv. fjmrh. ætli að reyna að leysa atvinnumál okkar þjóðar með því að útbýta leyfum til beggja handa til að brugga vín. En eins og ég sagði í upphafi er ég mest hissa á því að hæstv. fjmrh. skuli vilja hafa slíkt vald, slíkt leyfi, slíka heimild. Mig undrar það.

Það hefur verið mikið rætt um áfengisstefnu og það ástand sem í þessum málum ríkir, bæði hjá okkur og öðrum þjóðum. Læknar og aðrir, sem fylgjast best með því sem er að gerast, telja t.d. að aukning á neyslu fíkniefna sé yfirleitt í sambandi við bjór og áfengi. Byrjunin er áfengi, síðan kemur neysla fíkniefna í kjölfarið. Það eru a.m.k. ljótar sögur sem maður heyrir frá læknum og lögreglu um það hvernig ástandið er í þessari borg og raunar víða úti um land. Það er fróðlegt fyrir hv. alþm. að fara hér um götur á aðfararnótt laugardags og sunnudags og sjá hvernig ástandið er, a.m.k. fyrir þá sem eru með bæði augun opin.

Ég sagði áðan að það væri verið að helga árið 1986 auknu bindindi. Það er köld kveðja frá hæstv. ríkisstj. og fjmrh. að ætla sér að keyra svona mál í gegnum þingið á síðustu dögum þess. Frsm. nefndarinnar var inni áðan þegar ég hóf mína ræðu og ég sagði frá því að hann hefði skotið því að mér hvort ég ætlaði að standa hér lengi og hverju ég hefði svarað. En ég lét það fylgja með að ég mundi ekki reyna að taka metið af hæstv. menntmrh., enda er ég aldursforseti þingsins. En hitt er annað mál að ég get kannske dvalið hér nokkra stund þrátt fyrir það.

Ef maður vill er hægt að ræða margt um þessi mál og ég skal ekkert segja hvernig til tekst með þetta ef þetta verður samþykkt eins og má ætla þegar maður horfir á nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. En það hljóta að koma ýmsar spurningar fram í hugann í sambandi við þessi mál. Við skulum segja að það væru komin 20-30 brugghús sem byggju til áfenga drykki. Hvernig ætla menn að haga eftirliti með slíkum bruggstöðvum? Verður þá ekki auðveldara a.m.k. fyrir hina sem fá ekki leyfi en hafa gert þetta til fleiri ára og sumir eru orðnir sérfræðingar í því, geta þeir ekki hert sig og stundað þetta í skjóli hinna brugghúsanna? Það er enginn annar vandi fyrir þá en að kaupa flöskur utan af áfengi frá Áfengisversluninni. A.m.k. yrði örðugt að fylgjast með því til hlítar. Það væri gaman að heyra hvernig hæstv. fjmrh. ætlar sér að hafa eftirlit með slíkum leyfum.

Þó að ég segði það sem ég sagði áðan ætla ég að láta þetta nægja a.m.k. við þessa umræðu og sjá hvernig dagskrártillögu hv. þm. Svavars Gestssonar reiðir af. En það er eftir 3. umr.

Ég vil aðeins að síðustu endurtaka að hér er verið að brjóta í blað í áfengismálum. Það er verið að taka úr höndum Áfengisverslunar ríkisins einkaleyfi hennar til að framleiða áfenga drykki. Það hlýtur að reynast stórt skref hjá okkar þjóð ef það verður stigið, eins og hér er ætlað. Ég mun láta þetta duga nú en mun ræða málið ítarlegar við 3. umr.