21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4318 í B-deild Alþingistíðinda. (4063)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér urðu það vonbrigði að hv. 2. þm. Reykv. taldi ekki nauðsyn á að svara þeim fsp. sem ég beindi til hans. Vissulega er það ekki gott þegar frsm. mála telja að þeir þurfi ekki að gera grein fyrir málunum ef óskað er eftir nánari upplýsingum af hálfu einhverra þm. í ákveðnu máli.

Nú er það svo að ég hygg að að öllum blöðum ólöstuðum, sem útgefin eru á Íslandi, muni hv. 2. þm. Reykv. taka mest mark á Morgunblaðinu. Vissulega hef ég aftur á móti rekist á það einstaka sinnum að þegar það góða blað fjallar um áfengismál er eins og það bregði fyrir vissri vantrú, vissri efasemd. Það er eins og þá verði hik. Trúin brestur. Það merkilega við þetta er að það er eiginlega alveg sama hvort greinarhöfundur slíkra greina er virtur læknir eða jafnvel einn af ritstjórum Morgunblaðsins. Ég hygg að fróðlegt sé að kanna það hvort viðkomandi hv. þm. telur t.d. að ef leiðari Morgunblaðsins skyldi grípa á svona málum, þar sem vikið er að áfengismálum, sé þess virði að hugsa málið, kannske fram á haustið því að allir vita að hægt er að hefja umræður á nýjan leik á næsta þingi um þetta mál.

Ég hygg að það sé eitt af því sem mönnum sé hollt að gera sér grein fyrir, að sá sem tekur ákvarðanir um að breyta stefnunni í jafnveigamiklum málum og þessu getur ekki borið því við seinna að hann hafi ekki haft tíma vegna anna á vordögum til að hugleiða þetta mál. Það var ekkert sem knúði hann til að taka þá ákvörðun strax.

Með leyfi forseta óska ég eftir að fá að lesa hérna leiðara úr Morgunblaðinu frá 12. apríl 1986 og er þó raunverulega annarra hlutverk meira en mitt að koma því á framfæri við hv. sjálfstæðismenn hér í deildinni hvað það blað segir í sínum leiðurum. „Vandi og vinnubrögð“ heitir leiðarinn. Þá hef ég lesturinn, með leyfi forseta:

„Grein Tómasar Helgasonar prófessors í Morgunblaðinu s.l. miðvikudag var athyglisverð og ástæða til að fagna slíkum skrifum. Þau miða að því að benda á hættu af notkun fíkniefna. Það hljóta allir að hafa samúð með málflutningi þeirra sem horfa upp á áfengis og fíkniefnaböl dag hvern, ekki síst lækna sem þurfa að glíma við sjúkdóma sem eru afleiðing af ofneyslu áfengis og fíkniefnaneyslu almennt.

Þau orð prófessorsins vekja ekki síst athygli hér að á Íslandi er langlægsta skráða meðalneysla af áfengi á mann í Evrópu, og svo þær upplýsingar að 88% Íslendinga á aldrinum 16-36 ára hafa neytt áfengis, 58% neyta eða hafa neytt tóbaks og 26% hafa reynt kannabis en aðeins 3% aðra vímugjafa.

Meiri tíðindi úr þessum málaflokki eru þó þau að reykingar hafa minnkað á Íslandi, ekki síst meðal ungs fólks. Sá árangur hefur náðst vegna gífurlegrar upplýsingamiðlunar um reyktóbak sem sjúkdómsvald og hefur það átak skilað verulegum árangri. Þar eiga krabbameinsfélögin og þeir sem vinna gegn hjartasjúkdómum einkum hlut að máli. En því miður er mannskepnan því marki brennd að hún er hluti af umhverfinu eins og vínviðurinn og fíkniefnaplönturnar og ásókn í þessa vímugjafa hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda.

Það verður ekki frá því tekið úr því sem komið er, því miður, ekki frekar en menn hætta að fullnægja kynþörf sinni vegna þess að það gæti haft í för með sér sjúkdóma. Maðurinn er langt frá fullkomin goðkynjuð vera sem stenst freistingar sínar og getur lifað í hættulegu umhverfi eins og dauðhreinsað væri. Hann mun ávallt þurfa að glíma við vandamál eins og áfengis- og fíkniefnaneyslu. Og þá er að leita leiða til að uppfræða fólk um þær hættur sem við blasa og kenna því að bregðast við umhverfinu á réttan hátt. Boð og bönn vekja uppreisnarhug með mönnum og duga í engu.

Nú vita allir að tóbaksreykingar geta leitt til dauða. Þær eru einn helsti orsakavaldur krabbameins og hjartasjúkdóma en samt halda margir áfram að reykja eins og ekkert hafi í skorist. Við eigum að sjá til þess að þeir sem reykja ekki eða eru hættir að reykja fái frið fyrir reykingamönnum eins og löggjafinn gerir ráð fyrir, þannig að þeir hafi sérstakt afdrep til að iðka nautn sína. Við getum ekki krafist þess af fólki, sem vill stytta ævi sína með reykingum, að það geri það ekki, en við getum krafist þess að ekki sé reykt ofan í þá sem nota ekki tóbak. Þannig getum við einnig krafist þess að þeir sem sækja í aðra vímugjafa taki sjálfir áhættuna af því og séu umhverfinu skaðlausir.

Við eigum einnig, eins og prófessor Tómas og starfsbræður hans ýmsir, að reyna að veita þeim aðstoð sem vilja berjast gegn fíkniefnabölinu því að þeirra starf er gott og þjóðfélagslega mikilvægt. Við eigum að reyna að koma í veg fyrir að blindur leiði blindan. En við eigum jafnframt að reyna að losa okkur við skinhelgi. Það er t.a.m. skinhelgi þegar íslenska ríkið lifir á sölu vímugjafa og eiturs en jafnframt skuli helst fara með það eins og mannsmorð. Það er einnig skinhelgi að leyfa sölu á öllum sterkustu áfengistegundum sem til eru, en banna svo sölu á veikustu tegundinni, bjór, sem er daglegt brauð í öllum löndum heims - nema Íslandi.

Halldór Laxness skrifaði talsvert um bjór á sínum tíma og gat ekki skilið hvers vegna hann hefði ekki leyfi til að kaupa þá vörutegund hér á landi.“ - (Fjmrh.: Er hv. þm. ekki búinn að lesa einum of langt?) Það kemur úr hörðustu átt ef formaður Sjálfstfl. hefur ekki þolinmæði til að hlusta á jafnágæta lesningu. - „Allir vita að Nóbelsskáldið umgengst áfenga drykki svo að til fyrirmyndar er en samt skal refsa honum vegna óhófs og villimennsku annarra.“ - Ég vil vekja á því athygli að bókmenntalega séð er textinn nokkuð góður á sumum stöðum.

„Morgunblaðið telur að hann og aðrir eigi að fá leyfi til að fá sinn bjór meðan íslenska ríkið lifir á því að selja drykki sem eru svo sterkir og göróttir að ekki þarf nema þrjú, fjögur glös til að breyta venjulegum heiðarlegum manni í skrímsli sem ekki er húsum hæft. Á þessu þyrfti að finna lausn sem flestir gætu við unað og minnist Tómas Helgason á þá afstöðu sína í athyglisverðri grein sinni þegar hann segir: „Verði bjórstefnan ofan á mun síga á ógæfuhlið nema því aðeins að lagðar verði svo miklar hömlur á sölu annarra áfengistegunda að heildarneyslan aukist ekki.“

En hvað sem því líður skal undir þessi orð prófessorsins tekið: „Þessi aukning (sjúklinga vegna fíkniefnaneyslu) er í sjálfu sér mikið áhyggjuefni. En misnotkun áfengis er enn sem fyrr aðaláhyggjuefnið og nauðsynlegt að menn beiti sér af alefli gegn henni og gegn öllu sem getur orðið til þess að auka heildarneyslu áfengis meðal landsmanna.“

Enn liggur bjórfrv. fyrir Alþingi Íslendinga. Enn virðast allar líkur á því að þingið hafi ekki metnað til að afgreiða málið. Morgunblaðið hefur áður bent á að best fari á því að þjóðin sjálf verði spurð vegna þeirrar hefðar að ákveða með almennri atkvæðagreiðslu hvort leyfa skuli áfengisútsölu eða ekki. Fræðsla og aðhald er betra en boð og bönn. Það hefur sýnt sig svo að ekki verður um villst í herferðinni gegn tóbaksreykingum. Þegar jafnvægi er komið á og Íslendingar eiga aðgang að léttustu tegund áfengis og sóknin í sterka eitrið minnkar ættum við einnig að geta náð svipuðum árangri í herferðinni gegn áfengisbölinu og náðst hefur í baráttunni við tóbakið. En tvískinnungurinn leysir engan vanda. Hann getur orðið erfiðasta vandamálið.“

Ég hef vakið athygli á því, herra forseti, að bókmenntalega séð er greinin nokkuð góð á köflum. Hitt er svo annað mál að sennilega mundi sá sem skrifaði hana ekki fá mikið fyrir rökhyggju. En það verður að virða til vorkunnar því að það er ekki algengt að þetta tvennt fari saman.

Það er fyrst til að taka að boð og bönn duga ekki. Hvaða aðgerð skyldi hafa veitt tóbaksreykingum á Íslandi þyngsta höggið? Ætli nokkur heilvita maður, sem hefur kynnt sér það og einhver rökhyggja er til í kollinum á, sé í vafa um að lagasetning Alþingis og framfylgd hennar hafi haft langmestu áhrifin? Efast nokkur um það að heilbrrh. Matthías Bjarnason á þar stærstan heiðurinn? Það er maður sem þorir að beita boðum og bönnum. Efast nokkur um það hér inni? Ég held ekki.

Morgunblaðið dundar aftur á móti við það að illa sé farið með Nóbelsverðlaunahafann að hann skuli vera látinn sitja uppi með að drekka svo sterka drykki að hann geti átt það á hættu að breytast í skrímsli eftir þrjú eða fjögur glös á sama tíma og hægt væri að halda honum í hinu mannlegasta formi ef hann mætti drekka bjór. Auðvitað er þetta slæm meðferð á manninum. Hins vegar skal það játað að ég hef ekki vitað til þess að nokkur maður hafi komið að Nóbelsskáldinu í því ástandi að hann væri orðinn að skrímsli.

Ég vil aftur á móti vekja athygli á því að ef litið er á neyslu Íslendinga á hinum ýmsu vímuefnum fer ekki á milli mála að áfengið ber svo höfuð og herðar yfir alla aðra vímugjafa að þeir sem almennt tala um að reyna að draga úr vímuefnaneyslu en tala um hitt í hálfkæringi hvort draga eigi úr áfengisneyslunni, þeir eru í sjálfu sér ekki að tala um þetta vandamál. Þeir eru einhvers staðar til hliðar við vandamálið. E.t.v. er þetta skortur á rökhyggju. E.t.v. er þetta skortur á því að mennirnir hafi yfir höfuð sest niður og hugsað þetta mál.

En langalvarlegasti gallinn á leiðaranum er sú fullyrðing að ríkið lifi á áfengissölunni m.a. Ég hygg að því verði ekki á móti mælt að staðan í okkar fjárlögum er örugglega ekki betri en hjá Bandaríkjamönnum og Rússum hvað þetta snertir, að það má e.t.v. segja að fyrir hverja krónu sem við högnumst á áfenginu þurfum við annaðhvort að greiða þrjár eða fjórar í auknum útgjöldum. Þannig er ástandið hjá þessum tveimur mestu stórveldum heims. Það er athyglisvert að báðar þessar þjóðir, hvort heldur sem eru Bandaríkjamenn eða Rússar, hafa nú snúist gegn þessu vandamáli.

Rússar hafa nú tekið svo harkalega á því að sendimenn frá Íslandi, sem hafa vanist því að þeir kæmust í góðan kokkteil af og til í Rússlandsferðum, kvarta sáran yfir að þeir fái blávatnið eitt eða þá gos. Ég skil vel þeirra vonbrigði. En spurningin er þessi: Hvers vegna skyldu þessi stórveldi eða leiðtogar þeirra vera að reyna að hafa áhrif með boðum og bönnum á þessa hluti?

En það er annað sem er merkilegt við alla umræðu um áfengismál. Það er gert, að því er virðist nánast upp á punt, að kalla á fulltrúa frá áfengisvarnaráði á nefndarfundi. Það er vegna þess að bundið er í lögum að áfengisstefnan á Íslandi eigi að njóta leiðbeiningar frá þessum mönnum. En það virðist þó ríkt í þeim mönnum, sem aftur á móti eru ákveðnir í því að vinna ekki gegn fíkniefnunum, að ákveða fyrir fram að taka ekkert mark á því hvað þessir menn eru að segja.

Ef virtasti prófessor Háskóla Íslands í lögfræði mætti á nefndarfundi hjá fjh.- og viðskn. og varaði eindregið við ákveðinni lagasetningu, 4-5 kollegar hans legðu á þetta áherslu líka, þá mundi enginn í nefndinni þora að ganga í berhögg við þessar skoðanir. Þeir mundu njóta þeirrar virðingar sem sérfræðingar að á þá væri hlustað.

En þegar maður eins og prófessor Tómas Helgason skrifar grein í Morgunblaðið um þessi mál eða mætir kannske á nefndarfundi er eins og menn fyrir fram negli sig niður og segi: Hann hefur ekkert vit á áfengismálum. Þetta eru þó þeir sérfræðingar sem við höfum mesta og besta á þessu sviði.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér grein úr Morgunblaðinu frá 19. apríl 1986 eftir Tómas Helgason: Áfengisvandi og vafasöm viðbrögð.

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins laugardaginn 12. apríl s.l. er tekið undir þá skoðun að misnotkun áfengis sé aðaláhyggjuefnið þegar rætt er um notkun fíkniefna og nauðsyn þess að menn beiti sér af alefli gegn henni og gegn öllu sem getur orðið til þess að auka heildarneyslu áfengis meðal landsmanna.“ - Það var þessi leiðari sem ég var að lesa hér rétt áðan. - „Í sömu grein er talað um að fræðsla og aðhald sé betra en boð og bönn. Í því sambandi er vitnað til herferðar gegn tóbaksreykingum sem hefði borið lofsverðan árangur vegna starfs krabbameinsfélaganna og þeirra sem vinna gegn hjartasjúkdómum. Ritstjórinn gleymir hins vegar að geta um að þessi árangur hefði ekki náðst nema með eindregnum stuðningi fjölmiðla og boðum og bönnum.

Ekki var byrjað á að auka tóbaksneysluna með því að bæta nýjum og léttari reyktóbakstegundum við áður en herferðin gegn tóbaksreykingum hófst fyrir alvöru. Ekki var heldur flutt frv. til að leyfa framleiðslu reyktóbaks til sölu innanlands og til útflutnings. Það var ekki leitað eftir einhverju nýju jafnvægi til þess að Íslendingar ættu aðgang að léttustu tegundum tóbaksreyks og sóknin í sterka eitrið minnkuð áður en reynt var að ná árangri í herferðinni gegn tóbaksbölinu eins og nauðsynlegt er að ná í baráttunni við áfengið.

Það sýnir furðulegan tvískinnungshátt að jafnvel höfundur ritstjórnargreinar Morgunblaðsins skuli vilja taka þá áhættu að leyfa fleiri tegundir áfengis jafnvel þó að hann viti að það magn sem er í þremur eða fjórum glösum af því sem hann kallar sterka og görótta drykki breyta venjulegum heiðarlegum manni í skrímsli sem ekki er í húsum hæft. Sama magn af áfengi sem er í bjór hefur sömu áhrif ef það er drukkið á jafnlöngum tíma. Þetta veit leiðarahöfundurinn fullvel því að ekki verður annað skilið á honum en hann taki undir nauðsynina á að koma í veg fyrir að heildarneysla aukist.

Í þessari ritstjórnargrein gætir þess misskilnings að íslenska ríkið lifi á því að selja áfengi og tóbak. Nær væri að segja að íslenska ríkið lifði þrátt fyrir það að það seldi áfengi og tóbak.

Öllum sem vita er vitanlega ljóst að sennilega er kostnaðurinn af áfengis- og tóbaksneyslu landsmanna meiri en sá hagnaður sem ríkið hefur af sölu þessara eiturefna. Sé það vilji manna að þessi efni séu fáanleg í landinu er eðlilegast að sá aðilinn sem ber kostnað af skaðanum sem þau valda hafi og tekjurnar af sölu þeirra, þó að þær dugi sennilega ekki til að standa undir kostnaði.

Unnið gegn fræðslu.

Öllum hugsandi mönnum ætti og að vera ljóst að nauðsynlegt er að koma í veg fyrir að einstaklingar eigi atvinnu sína og afkomu undir framleiðslu og sölu á eiturefnum á borð við áfengi og tóbak eða önnur fíkniefni sem ekki er leyfð sala á í landinu. Þetta er m.a. vegna þess að ekki er hægt að samræma sjónarmið einstakra seljenda og fræðslusjónarmið heilsuverndar sem leggur áherslu á að draga úr neyslu áfengis.

Því miður virðist mér meiri hl. allshn. ekki vera þetta ljóst. Hann leggur til að bjórfrv. verði samþykkt óbreytt án þess að reisa við því skorður að heildarneysla áfengis aukist í landinu. Skinhelgi þeirra sem flytja frv. og kemur fram í því að þeir eru að verja 1% af skatttekjum ríkissjóðs vegna sölu áfengs öls til að fræða fólk um skaðsemi þess eiturs sem þeir vilja hella í það er nánast grátbrosleg. Þessi tvískinnungur sýnir hversu erfitt uppdráttar fræðslan um skaðsemi áfengis á. Fræðsla án aðhalds sem fylgir boðum og bönnum, sem höfundur ritstjórnargreinar telur að veki uppreisnarhug með mönnum, er því miður ekki nóg.

Einnig hefur höfundur greinarinnar vafalaust skotið óviljandi og notað það sem stílbragð að telja að boð og bönn vektu einungis uppreisnarhug með mönnum og dygðu í engu. Ef svo illa er komið er ekki líklegt að takist að halda uppi neinu siðuðu þjóðfélagi.

Það vekur mikla furðu að fjmrh. skuli hafa borið fram stjfrv. á Alþingi um að leyfa einkaaðilum framleiðslu á áfengi í landinu. Engu er líkara en þetta frv. eigi að keyra í gegn eins og um sé að ræða neyðarráðstafanir sem þoli enga bið eða byltingarkennda nýjung sem koma þurfi á markað með hraði.“ - Til að fyrirbyggja allan misskilning af því að nú gengur mætur maður í salinn, hv. 9. landsk. þm. Það er verið að lesa upp úr því merka blaði Morgunblaðinu.

„Sem betur fer eru Íslendingar ekki þannig staddir að verulegur hluti þeirra eigi lífsafkomu sína undir því að framleiða eða koma á markað heima og erlendis tóbaki, áfengi eða öðrum eiturefnum sem valda ómældum skaða í þjóðfélögum markaðslandanna.

Þetta frv. sýnir enn einu sinni tvískinnungsháttinn gagnvart áfengi og erfiðleikana sem fræðslustarfsemin á við að stríða. Eitt af því sem gerir fólki erfitt fyrir í kennslu og uppeldi er tvíbent boð sem foreldrar og kennarar gefa börnum sínum og landsfeður þjóðfélagsþegnum. Það er ekki vænlegt til árangurs að segja öðrum þræði að áfengið sé slævandi, dragi úr dómgreind og sé hættulegt lífi og heilsu en jafnframt að flytja frv. á Alþingi um framleiðslu á þessu hættulega efni til að græða á sölu þess til útlendinga og þá væntanlega misbjóða heilsu þeirra um leið. Röksemdafærslan fyrir frv. er heldur veikburða og gróðavonin byggir á því annaðhvort að hafa gróðann af Svíum og öðrum frændum okkar eða að stuðla að því að auka eiturneysluna meðal vinaþjóða. Vonandi tekst það ekki og er þá hætt við að gróðinn af útflutningi verði ekki svo mikill og verði fyrst og fremst reynt að sækja hann innanlands. Þetta frv. mun, ef að lögum verður, grafa undan áfengismálastefnu þeirri sem hér hefur ríkt og hefur náð þeim lofsverða árangri að áfengisneysla Íslendinga er enn lægst meðal Evrópuþjóða. Vilja alþm. viðbótina?

Þá tæki fyrst steininn úr ef Alþingi samþykkti bjórfrv. sem meiri hl. allshn. Ed. hefur lagt blessun sína yfir. Samþykkt þess frv. er fáránleg tímaskekkja nú þegar lögð er öll áhersla á heilsuvernd og að draga úr útgjöldum til heilbrigðismála. Þegar í dag eru miklir einkahagsmunir í húfi í sambandi við bjórsölu og framleiðslu. Þeir munu ekki minnka ef almennt verður leyfð sala áfengs öls í landinu og getur þá hver sem er séð í hendi sér líkurnar á að aftur verði horfið frá því óráði.“ - Hér gerast merkilegir hlutir í kringum mig. Þeir eru farnir að skrafa um það, formaður Framsfl. og formaður þingflokksins, að það sé betra að ég lesi úr Tímanum en Morgunblaðinu. Auðvitað er nokkuð til í því. Ég mun að sjálfsögðu, haldi umræðan áfram, verða við þessum tilmælum og leita mér að blaðakosti til upplestrar þannig að ekki hallist mjög mikið á. (Forsrh.: Það er gott að heyra.) Með leyfi forseta held ég þá áfram lestrinum:

„Það er varla af þekkingarleysi sem alþm. og jafnvel fjmrh. flytja frumvörp sem sannanlega munu auka áfengisvanda þjóðarinnar. Sjálfur forsrh. hefur látið Þjóðhagsstofnun reikna út hver verði aukning áfengisneyslu ef framleiðsla og sala áfengs öls verður leyfð í landinu. Þeir útreikningar sýna að neyslan muni aukast um þriðjung. Slíkt hefur í för með sér enn meiri skaða, ofneytendum mun fjölga, alkóhólistarnir verða veikari. Öðrum sjúkdómum og slysum, sem af áfengsneyslu hljótast, fjölgar og dánartala hækkar. Væntanlega vilja þm. koma þessari þekkingu til alþýðu manna en ekki virðist fylgja mikill hugur máli þegar jafnframt er stuðlað að aukinni neyslu. Vonandi eru enn nógu margir alþm. sem skilja hve hættuleg aukin áfengisneysla er heilsu og félagslegri velferð þjóðarinnar svo að dugi til að fella bæði bjórfrumvarpið og frumvarpið um að leyfa einkaaðilum framleiðslu á áfengi í landinu.

Ábyrgð Morgunblaðsins á fræðslu þings og þjóðar. Morgunblaðið er víðlesnasta dagblað landsins og hefur ásamt sjónvarpi og útvarpi mest áhrif á skoðanamyndun í landinu. Því leita undirritaður og aðrir, sem vilja koma fræðslu á framfæri, til þess þegar á liggur. Treysta má því að blaðið birti efnið skilmerkilega og á þann hátt sem ritstjórum þykir hæfa mikilvægi þess.

Ábyrgð Morgunblaðsins í heilsuverndarmálum og öðrum málum er mikil og í flestum tilvikum hefur það risið undir henni. Skrif og skoðanir ritstjóra þess hafa mikil áhrif á gang mála. Þess vegna vona ég að þeir endurskoði afstöðu sína til áfengismála enn betur en fram kom í ritstjórnargreininni sem varð tilefni þessara skrifa og mæli gegn öllu sem orðið getur til að auka neyslu eiturefna eins og áfengis.

Höfundurinn er dr. med., prófessor i geðlæknisfræði við Háskóla Íslands og forstöðumaður geðdeildar Landspítalans.“ Ég hygg að þó að sú mynd sem sýnd er hér að ofan boði það að það muni verða aukning um rúmlega 1/5 ef bjórinn yrði leyfður sé það staðreynd að þó að þetta sé útbreiddasta blað landsins og þó að þetta sé virtasti læknirinn sem íslensk þjóð á í dag og starfar daginn út og daginn inn að vandamálum sem þessum, og jafnvel þó að það sé lesið upp úr Morgunblaðinu, hafi það nákvæmlega engin áhrif. Ástæðan er sú að sumir menn hafa lesið verkfræði, aðrir lögfræði, aðrir viðskiptafræði. Þeir hafa vegna þekkingar sinnar á þessum greinum sannfærst um það að þeir vissu það mikið um aðra hluti að þeir þyrftu ekki að kynna sér þá, þeir þyrftu þess ekki.

Langskoplegast við allan áróðurinn er þó kenningin um það að boð og bönn dugi ekki. Við skulum prófa þetta með skattheimtuna, afnema skattalögin, segja að boð og bönn dugi ekki. Það verði settur upp fræðsluþáttur í sjónvarpinu þar sem tilkynnt verði að ríkissjóður þurfi peninga og menn beðnir að leggja í kassann eftir þörfum. Auðvitað mundi þjóðin leggja peninga í kassann. Spurningin er aðeins hvort þeir peningar yrðu það miklir að þeir dygðu fyrir launakostnaði, þó ekki væri nema alþm. og ráðherra. Það hefur engum dottið í hug að prófa þessa leið gagnvart þjóðarbókhlöðunni sem mikill áhugi ku vera fyrir, að opna bara stóran kassa og hefja svo fræðslustarfsemina og segja: Boð og bönn duga ekki í skattheimtu. Við látum menn leggja af frjálsum og fúsum vilja í kassann. Hvers vegna ætli hæstv. sjútvrh. hafi ekki notað þetta? Það vita allir að við lifum á þorskinum og loðnunni og öðru sjávarfangi. Ekki hefðu Íslendingar viljandi farið að veiða meira af þessu en skynsamlegt hefði verið. Hann hefði sem sagt hafnað öllum kenningum um boð og bönn og farið þessa frjálsu fræðsluaðferð, fengið sérstakan þátt í útvarpinu á sunnudögum og í kringum fréttir í sjónvarpinu á kvöldin. Trúir því nokkur að það hefði þurft að setja lög um þetta? Hvað eru menn að tala um að það þurfi að setja lög þegar boð og bönn eru það alversta og það er þessi mikla fræðslustarfsemi sem leysir þessa hluti alla?

Nei, það er dálítið merkilegt með þessar kenningar að boð og bönn séu vitleysa. Þetta virðist sigtað inn í stóran hóp manna svo undarlega fast að á sama tíma sem þeim dettur ekki annað í hug en að setja allt í ströngustu skorður laga og reglugerða, ef þeir sjálfir eiga að stjórna því, sé langvitlegast þegar kemur að áfengismálum og fíkniefnum að halda þeirri kenningu á lofti að fræðslan ein eigi rétt á sér, boð og bönn henti ekki.

Ég sé að hæstv. sjútvrh. er genginn í salinn og það væri gaman ef hann tæki svo sem nokkra mánuði í það að framfylgja þeirri kenningu í sjávarútvegi að hætta öllum boðum og bönnum og leyfa mönnum bara að veiða eins og hver vildi, fengi fræðslutíma eins og ég gat um áðan. (Sjútvrh.: Hvað kemur það áfengismálum við?) Það er það merkilega. Hvað kemur það áfengismálum við? Svona getur farið illa fyrir mönnum þegar þeir verða án fræðslunnar þó það komi ekki einu sinni af boðum og bönnum. Þeir standa gjörsamlega á gati þegar kemur að einföldustu atriðum í rökhyggjunni.

Er það trúleg kenning að boð og bönn séu það eina sem gildi á einu sviði en þegar kemur að öðru sviði sé alveg vonlaust að notast við þau? Ég hygg að hver einasti maður sem einhver rökhyggja er til í hljóti að reyna að yfirfæra hlutina.

Hæstv. menntmrh. ræskir sig og gengur úr salnum og hefur sennilega þegar numið nægilega mikið til þess að hann skilji fyrr en skellur í tönnum. (Gripið fram í: Rökhyggjan á ekki við hann.) Þarna kemur nefnilega dálítið athyglisverður hlutur. Rökhyggjan á ekki við hæstv. menntmrh. því hann hefur leikið þær kúnstir trekk í trekk að þegar honum hentar það betur setur hann stefnuskrá Sjálfstfl. ofan í skúffu og boðar sína eigin í þágu íslenskra menningarmála. Þannig sveif eignarskattshugmyndin, margbannfærð á öllum flokksþingum Sjálfstfl. frá fyrstu tíð, út í loftið í sölum þingsins og ráðherra boðaði að nú skyldi eignarskattur á lagður. Það skal að vísu undirstrikað að hans hugmynd var sú að menn fengju ákaflega fallegt skjal svona sem sárabætur þegar þeir væru búnir að borga. Og ég verð nú að segja að það er hugsanlegt að menn skrifi upp á einhverja slíka pappíra í viðurkenningarskyni ef hægt væri að breyta stefnunni almennt hjá flokknum til betri vegar og það eina sem þyrfti væri að menn fengju viðurkenningarskjal fyrir að hafa villst frá villu síns vegar.

Nei. Það er athyglisverður hlutur að á sama tíma og íslensku fjárlögin hafa tekið þá stefnu að einn liðurinn í þeim, þ.e. fjármagn til heilsugæslu, er hér um bil lóðrétt upp í fjárlögunum, það bætist stöðugt við, á sama tíma og þetta hefur gerst telja menn sig hafa efni á því að líta á það sem auðvirðilegasta „djók“ sem læknar hafa að segja um áfengismál. (Gripið fram í: Hver heldur því fram?) Hv. 2. þm. Reykv. og varaformaður Sjálfstfl., frsm. meiri hl. í þessu máli hefur gengið úr salnum. Ekki veit ég hvort má túlka það á þann veg að hann hafi ákveðið að fresta frekari aðgerðum til stuðnings við þetta mál eða hvort hann er að hugleiða að reyna að komast undan áhrifum Morgunblaðsins með því að vera víðs fjarri þegar efni þess er kynnt.

Ég hef í gegnum árin stundum furðað mig á því með hið friðelskandi ríki Svíþjóð hvað Svíar hafa lagt mikla áherslu á vopnaframleiðslu og gjarnan vildi ég að þeir frændur okkar þar framleiddu minna af vopnum. En það er einhvern veginn þannig, jafnvel þó að menn séu friðelskandi, að þegar peningar eru annars vegar er eins og það ráði úrslitum. Ég hef yfir höfuð enga trú á því að hv. 2. þm. Reykv. hafi áhuga á að auka drykkju Íslendinga. Ég bara hreinlega trúi því ekki að hann hafi áhuga á því. Og ég trúi því ekki að hæstv. fjmrh. hafi heldur áhuga á því að auka drykkju Íslendinga. Engu að síður, þegar draumurinn um uppsprettu auðs birtist, hvort sem það á að vera á þann veg að framleiðsla á áfengi hér á landi geti orðið arðvænleg atvinnugrein eða menn dreymir um að þeir fái einhverjar krónur í kassann, er hlaupið upp til handa og fóta og þeirri áfengisstefnu sem Tómas Helgason segir að hafi leitt til þess að Íslendingar neyti minna magns áfengis en aðrir í Evrópu á að varpa fyrir borð.

Ég veit ekki hvort yfirleitt er nokkur möguleiki á því, þegar menn hefja umræðu eins og þessa, að hnika til skoðun manna í þessum efnum, ég efa það. Menn hafa sett niður ákveðna skoðun og vilja standa á henni. En ég gat þess áðan og vil kannske geta þess aftur að fyrrv. heilbrrh. hikaði ekki við að nota boð og bönn þegar hann tók á tóbaksvandamálum þessarar þjóðar og hver einasti réttsýnn Íslendingur hlýtur að gera sér grein fyrir því að það var sá kjarkur sem stóð á bak við þær aðgerðir sem stuðlaði að því að stefnubreyting hefur orðið hjá þjóðinni varðandi þessa hluti. Ekki veit ég hvort hann hefur talið fræðsluna svona tafsama, ef hann ætti að notast við hana eina, eða hvort það er gömul harka sem birtist í því að hafa þrek til þess að fylgja eftir sinni sannfæringu þó að heilir hópar væru á móti.

Ég veit ekki hvort það er hugsanlegt að þeir þrekmenn séu til í þessu þingi, í ráðherraliði Íslendinga, að þeir vilji spyrna við fótum þegar tekist verður á um þetta mál. En mig undrar það að formaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., telur sig hafa aðra ráðgjafa betri í þessu máli en prófessor Tómas Helgason, mig undrar það. Ég vildi gjarnan fá nöfn þeirra manna sem hann telur betri til að hlýða á og hljóta þekkingu frá í málum sem þessum.

Ég hef ekki hugsað mér, herra forseti, að þreyta þingheim með einhverju óþarfa skvaldri um þessi mál. En ef menn telja að svona mál séu svo einföld, svo ómerkileg og svo sjálfsögð, sem sumir virðast telja, að það eigi ekki að ræða þau finnst mér að mælirinn sé fullur. Það má vel vera að áfengisstefna Íslendinga sé ekki svo samræmd sem við vildum á öllum sviðum en þeir aðilar sem leggja til að henni verði breytt bera ábyrgð á þróun sem ég hygg að þeir séu ekki menn til að rísa undir, ábyrgðin er slík.

Herra forseti. Ég ítreka það að ég óska eftir að fá svör við þeim spurningum sem ég varpaði fram til flm. á sínum tíma í minni fyrri ræðu en ég hef lokið máli mínu.