21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (4064)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil lýsa í nokkrum orðum afstöðu minni til frv. sem er á dagskrá og til umræðu. Hún er í stuttu máli sú að ég er andvígur þessu frv. Ég held að menn þurfi að íhuga það dálítið hvort það sé tímabært og rétt að breyta um stefnu í grundvallaratriðum hvað varðar einkarétt ríkisins til að hafa þessa starfsemi með höndum og þar kemur margt til. Í sjálfu sér er málið ekki einfalt og mér þykir mjög slæmt að menn skuli þá ekki líta á það og ræða það í samhengi við ýmislegt annað, fjöldamargt annað sem snertir samskiptin við þennan margnefnda vímugjafa, brennivínið, sem hér er til umfjöllunar í og með.

Ríkið hefur haft einkarétt á heildsölu og á því að taka álagningu en einnig á framleiðslu þeirra áfengra drykkja sem hér hafa verið til sölu innanlands. Það er nú einu sinni þannig að á herðum hins opinbera lendir mest af þeim vandræðum og þeim erfiðleikum sem fylgja vímuefnaneyslu í þjóðfélaginu. Þess vegna segja ófáir að það sé þá eðlilegast, ef um einhverja framleiðslu, sölu og álagningu á þessum efnum er að ræða, að það sé þá á herðum og höndum hinna sömu og þeir njóti þá þess ef um er að ræða einhverjar tekjur af slíkri starfsemi. Ég held að það sé ekki síður ástæða til að ríkið hafi þá þessa tekjumöguleika ef um slíkt er að ræða.

Herra forseti. Áfengisneysla er víðast hvar vaxandi í nálægum löndum og reyndar ekki bara í nálægum löndum heldur er áfengisneysla einnig mjög hratt vaxandi og alvarlegt vandamál víða í þriðja heiminum. Það má því segja að þeir séu fáir afkimar heimsins þar sem ekki er við veruleg vandamál að glíma í samskiptunum við þennan drykk og af því hafa menn mjög víða áhyggjur.

Þó er hægt að finna dæmi um einstök lönd þar sem menn hafa náð þeim árangri að draga úr áfengisneyslu. Þar má nefna til Svíþjóð. Ég veit ekki betur en sænska ríkið hafi einmitt einkarétt á framleiðslu sterkra drykkja, eins og við erum hér að tala um. Það er athyglisvert vegna þess að flm. þessa frv., sem gera í grg. með frv. nokkuð úr þeim smjörfjöllum sem af þessu gætu skapast, þ.e. þeim tekjum og þeim útflutningstekjum sem í framtíðinni gætu orðið af vodka sem þeir hafa sérstaka trú á, þessir menn, nefna einmitt árangur Svía sem hafi náð alveg gífurlegum árangri við það að selja vodka ofan í Bandaríkjamenn. Ég veit ekki betur, eins og ég áðan sagði, en það sé einmitt sænska ríkið sem hafi þar einkarétt á framleiðslu. Ekki kemur það því í sjálfu sér í veg fyrir það að menn geti flutt þetta út og grætt á því ef þeir hafa sérstakan áhuga á því. Enda hef ég ekki trú á öðru en að hið opinbera geti þá staðið þannig að hlutunum og nýtt sér alla þá verktækni og markaðstækni og hvað það nú er sem til þess þarf að selja vodka ofan í Bandaríkjamenn ef mönnum er það sérstakt keppikefli.

Nú er mér ekki illa við Bandaríkjamenn og ég hef engan sérstakan áhuga á því að reyna að troða ofan í þá meiri vodka en þeir hafa gott af. Að skaðlausu mætti því sleppa þeim þankagangi út úr þessu máli að hafa það inni í fylgiskjali að það sé mjög vænlegt að reyna að ná eins og 30% markaðshlutdeild í vodka á Bandaríkjamarkaði. Þessar vangaveltur, herra forseti, eru nokkuð broslegar. Vegna þess að Svíar hafi náð að selja svonefndan „Absolut vodka“, 3 782 700 lítra, þá sé það mjög trúlegt að íslenskur vodki gæti einnig náð 30% markaðshlutdeild í Bandaríkjunum þegar tímar líða ef þetta frv. verði að lögum.

Ef hið opinbera hefur áhuga á því að nýta sér hugkvæmni einstöku manna, hvort sem þeir eru úr kjördæmi hæstv. fjmrh. eða einhvers staðar annars staðar að af landinu, getur það sem best gert það t.d. með því að efna til verðlaunasamkeppni um bestu hugmyndirnar um nöfn á sprittið, útlit á miðum, hönnun á flöskum o.s.frv. Það má jafnvel smyrja einhverju ofan á þetta ef menn vilja virkja hugmyndaauðgi Íslendinga í þessum efnum, einhverja listsköpun á þessu sviði, þá er það svo sem allt í lagi mín vegna. En það kallar ekki á það að þetta sé endilega í höndum einkaaðila og menn taki þá afdrifaríku ákvörðun að breyta alveg um stefnu hvað það varðar. Ég hefði talið miklum mun farsælla að þetta yrði áfram á höndum ríkisins hvort sem gert verður eitthvert markaðs- og vöruþróunarátak í þessum efnum eður ei.

Ég vil segja það, herra forseti, sem mína grundvallarafstöðu í þessum efnum, að ég er algerlega mótfallinn því að einstaklingar hafi aðstöðu til að græða á framleiðslu og/eða sölu þessarar vöru. Það stríðir gegn þeim grundvallarhugmyndum sem ég hef um þetta efni að fara að búa til íslenskt áfengisauðvald. Ég vil biðja menn aðeins að hugleiða það hvort það samræmist eðli þess varnings, sem hér er á ferðinni, að standa þannig að málunum.

Við erum ekki bara að tala um daglega eða almenna neysluvöru. Hér er um að ræða varning sem er allt annars eðlis. Menn hafa m.a. viðurkennt það, hæstv. fjmrh., með því að heimila ekki auglýsingar á þessum varningi. Þar af leiðandi lýtur þessi vara allt öðrum lögmálum á markaðnum en daglegar neysluvörur, sápa, brauð, gosdrykkir eða hvað það nú er. Það er óheimilt að reyna að koma þessari vöru inn á fólk með auglýsingum.

Ég vil þá einnig spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur hann þá ekki af því einhverjar áhyggjur að framleiðendur í einkaframtaki á Íslandi mundu fara að reyna að stunda eitthvað sem kalla mætti duldar eða dulbúnar auglýsingar ef þeir færu að koma framleiðslu á markað og hefðu af því persónulegan hag að auka markaðshlutdeild sinnar vöru? Ég held nefnilega að menn þurfi að skoða ýmislegt fleira en bara þann þátt að einhverjir einstaklingar gætu kannske komist yfir einhverja aura með því að haga þessu svona. Málið er miklu stærra og flóknara en það.

Menn ættu kannske að svara því í leiðinni: Ætla menn að leggja til að aflétta auglýsingabanni á áfengi? Væri það ekki rökrétt framhald af þessari stefnubreytingu, að fara að setja þennan varning í hendurnar á almennum samkeppnismarkaði, að heimila þá einnig auglýsingar á honum? Ég held að menn verði að hafa þá einhver samkvæmni í hlutunum.

Ég tek til samanburðar hinn alþjóðlega tóbaksiðnað og minni menn á það hvaðan andstaðan hefur helst komið við þær aðgerðir sem heilbrigðisyfirvöld og önnur yfirvöld hafa verið að grípa til á undanförnum árum, sérstaklega hér á landi og einnig annars staðar, til að draga úr tóbaksreykingum og skaðsemi þeirra. Auðvitað frá framleiðendunum, einkagróðanum sem framleiðir þessa vöru. Þaðan hafa komið kröftug mótmæli og þaðan hefur komið fé sem notað er til að reyna að vinna gegn slíkum takmörkunum og ráðstöfunum heilbrigðisyfirvalda.

Þetta ættu íslensk yfirvöld að muna vegna þess m.a. að einstakir erlendir tóbaksframleiðendur tóku sína vöru af markaði á Íslandi, eða a.m.k. hótuðu að gera það, þegar ákvæðin um auglýsingar á umbúðum utan um tóbak tóku gildi hér á landi. Það var auðvitað í eiginhagsmunaskyni sem þeir gerðu það, þeir óttuðust að það mundi draga úr sölu á sinni vöru og kannske þó sérstaklega að það mundi draga úr heildarneyslunni á þessari vörutegund í heiminum. Það er það sem þessir menn eru hræddir við.

Þá sjá menn í hnotskurn hvað það er andstætt stefnu og viðleitni stjórnvalda að öðru leyti að færa þetta nú yfir í hendurnar á einkaframtakinu eða einstaklingum. Þetta er ekki dagleg eða almenn neysluvara sem á að lúta sömu venjum og reglum og gerist um slíkar. Þess vegna er það að mínu viti algerlega óeðlilegt að nota þá röksemdafærslu sem hér er viðhöfð í þessu efni.

Herra forseti. Ég er ekki að fjalla um þetta mál á grundvelli þess sérstaklega hvort það atriði í sjálfu sér, að upp komi einstakir íslenskir framleiðendur, muni auka eða draga úr áfengisneyslu á Íslandi. Við eigum að líta á þetta út frá því grundvallaratriði, sem ég hef hér gert að umtalsefni, hvort það er í samræmi við viðbrögð og stefnu yfirvalda að öðru leyti að heimila þetta.

Stjórnskipulega séð tel ég það mikinn ókost, ef af þessu ætti að verða, herra forseti, að þetta mál er alfarið í höndum fjmrh. vegna þess að þetta mál snertir fyrst og fremst heilbrigðiskerfið og heilbrrh. og síðan dómsmrh. sem yfirleitt hefur farið með úthlutun leyfa í þessu efni. Það er því að mínu viti í fullkomnu ósamræmi við allt skipulag þessara mála að setja leyfisveitingu á þessu tiltekna sviði eingöngu í hendur fjmrh. og ekki orð um það hvernig hann skuli með það fara að öðru leyti. Það er að mínu viti fullkomlega óeðlilegt, herra forseti.

Ég held að þetta sé einnig ótímabær ráðstöfun, m.a. vegna þess, eins og hér kemur fram á nál. minni hl., að það er verið að marka opinbera stefnu í áfengismálum og það er mjög óeðlilegt að taka þetta mál eitt þar út úr, rétt eins og það væri einnig óeðlilegt að fara að breyta um stefnu hvað varðar meðhöndlun áfengs öls eða hvers annars þáttar áfengismálanna á meðan svo stendur að verið er að vinna að mótun þessarar opinberu stefnu. Eða ætla menn að gera eitthvað með hana yfirleitt? Það vakna vissar spurningar, herra forseti, þegar svona er gersamlega gengið fram hjá opinberri stjórnskipaðri nefnd sem er á vegum hins opinbera að vinna ákveðna tiltekna stefnumörkun í þessum efnum. Síðan virðist ekki eiga að gera nokkurn skapaðan hlut með tilvist hennar þegar það virðist eiga að þjóna hagsmunum einstakra fagráðherra. Er ríkisstj. að afneita þessari nefnd sinni? Er hún ekki til lengur í augum hæstv. ríkisstj.? Ég held að hún ætti að svara því.

Þá hef ég u.þ.b. komið á framfæri, herra forseti, þeim meginatriðum sem móta afstöðu mína í þessum efnum. Ég vil sem sagt líta á þetta almennt í samhengi við tilhögun þessara mála og spyrja spurninga hvort þetta samrýmist þeim. Ég þykist hafa svarað því að svo sé ekki. Ég hefði gjarnan viljað heyra það t.d. af vörum hæstv. fjmrh., ef hann heldur því til streitu að koma þessu frv. hér áleiðis, hvernig hann ætli t.a.m. að taka á því máli sem ég gerði hér að umtalsefni og varðar auglýsingar eða auglýsingabann á þessum vörum og hvernig það samræmist því að leyfa framleiðsluna einkaaðilum.

Einnig væri fróðlegt að hæstv. heilbrrh. þjóðarinnar léti nú svo lítið að taka þátt í þessari umræðu og lýsti t.d. sinni afstöðu til þess hvernig það samræmist viðleitni stjórnvalda til forvarnarstarfs að gera þessa stefnubreytingu. Það er ákaflega sérkennilegt, herra forseti, að við ljúkum þessari umræðu um þetta mál hér í þessari deild án þess að fá að heyra eitt einasta orð frá hæstv. heilbrrh. sem má nokkrar áhyggjur hafa af því hvernig þessi mál þróast hér í landinu. Burtséð frá því að sérfræðingar eins og prófessor Tómas Helgason, sem hér hefur verið vitnað til, hafa komið sinni faglegu skoðun rækilega á framfæri ætti hæstv. heilbrrh., þó ekki væri nema vegna þess útgjaldaþáttar sem áfengisnotkun og þá sérstaklega misnotkun áfengis sannanlega er, að hafa af því nokkrar áhyggjur hvernig þessum málum er skipað.

Ég mun styðja dagskrártillögu minni hl. fjh.- og viðskn. um að næsta dagskrármál verði tekið fyrir og ég teldi það skynsamlega ráðstöfun á tíma hv. þingdeildar, herra forseti, að gera svo í ljósi þess að nú styttist óðum til þingslitanna.