21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4330 í B-deild Alþingistíðinda. (4070)

248. mál, póstlög

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 994 er nál. frá samgn. þar sem fram kemur að frv. var rætt á nokkrum fundum og til viðræðna við nefndina komu Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgrn., og Ragnhildur Hjaltadóttir, lögfræðingur þar, Rafn Júlíusson póstfulltrúi og Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlitsins.

Undir þetta frv. skrifa með fyrirvara hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Karvel Pálmason. Fyrirvari þeirra byggist á því að á þskj. 995 er brtt., sem ásamt mér flytja hv. þm. Friðjón Þórðarson, Stefán Guðmundsson og Eggert Haukdal, þess efnis að lagt er til að sú breyting, sem var sett inn í frv. í Ed., verði tekin út aftur.

Nefndin, sem samdi þetta frv., lagði til að 2. gr. 3. málsgr. orðaðist þannig: „Til fjármunapóstsendinga teljast greiðsluviðskipti með millifærslu (gíró)" sem mundi hafa bæði inn- og útlánastarfsemi svipaða og bankar og sparisjóðir hafa.

Í grg. með þessu stendur, með leyfi forseta: „Í áliti sínu til ráðherra lagði nefndin til að það nýmæli yrði tekið upp í frv. að Póstgíróstofunni yrði heimilað að veita viðskiptamönnum sínum hliðstæða þjónustu og bankar og sparisjóðir veita varðandi inn- og útlán. Við umfjöllun ráðuneytisins á frv. var ekki fallist á þessa tillögu.“

Það kom fram í nefndinni að ekki er talið að það sé rétta leiðin til að fækka bönkum og stofnunum, sem hafa með höndum almenna bankastarfsemi, að fjölga þeim. Hins vegar kom það fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni að hann vildi þrengja þetta meira. Hann vildi þrengja það þannig að póstgíró hefði ekki þá möguleika sem það hefur nú skv. bæði núgildandi lögum og þeim lögum ef þetta frv. verður samþykkt eins og meiri hl. nefndarinnar leggur til. En hv. þm. mun sjálfsagt gera frekar grein fyrir sínum hugmyndum í þessu máli.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til sem sagt að frv. verði samþykkt með þessari breytingu og minni hl. er með frv. að öðru leyti en því að það eru skiptar skoðanir um þessa grein sem ég var hér að lýsa.