21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4332 í B-deild Alþingistíðinda. (4072)

248. mál, póstlög

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er reyndar óþarfi að eyða tíma í málalengingar um afstöðu mína í þessu máli, enda hv. formaður samgn. og frsm. í málinu þegar búinn að fara nokkrum orðum um hana í sínu máli. En ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara og ástæðan er fyrst og fremst sú að nefndin hefur haft mjög nauman tíma til umfjöllunar um þetta frv. Mér finnst ég engan veginn í stakk búin til að taka skýra og ákveðna afstöðu til þess.

Eins og hér hefur verið lýst og sést á þskj. 995 fellst meiri hl. nefndarinnar ekki á þá brtt. sem samþykkt var á 2. gr. frv. í Ed. og leggur til að 3. málsgr. 2. gr. verði aftur eins og hún var upphaflega í frv. Ég tel nefndina alls ekki hafa haft nægan tíma til að skoða þetta. A.m.k. hefur ekki tekist að sannfæra mig um réttmæti þessarar afgreiðslu málsins, en reyndar heldur ekki á hinn veginn. Mun ég því sitja hjá við atkvæðagreiðslu.