22.04.1986
Neðri deild: 93. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4335 í B-deild Alþingistíðinda. (4095)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Félagsmálanefndir beggja deilda unnu saman að athugun frv. og áttu fund með ýmsum þeim sem höfðu komið nálægt málinu áður, bæði staðið að samningsgerð milli aðila vinnumarkaðarins og einnig með fulltrúum úr þeirri nefnd sem samdi frv. á grundvelli samkomulags, svo og var rætt við fulltrúa frá lífeyrissjóðunum.

Eins og nál. ber með sér náðist ekki fullt samkomulag um málið. Meiri hl. nefndarinnar tók þá afstöðu að einskorða sig við þá þætti húsnæðismála sem samkomulag aðila vinnumarkaðarins tók til, en öðrum þáttum sem varða húsnæðismálin var meiri hl. nefndarinnar sammála um að vísa til milliþinganefndar og er gerð grein fyrir því í nál. á bls. 3 hvaða atriði það eru. Það eru:

1. Reglur um veð og veðhæfni íbúða.

2. Kaupleiguíbúðir, húsnæðissamvinnufélög og leiguhúsnæði.

3. Fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar.

4. Áhrif nýja húsnæðislánakerfisins á félagslegar íbúðabyggingar og verkamannabústaðakerfið yfirleitt.

5. Verndaðar þjónustuíbúðir fyrir öryrkja eða aldraða.

6. Staða og hlutverk ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar.

7. Ráðstafanir til þess að koma enn frekar til móts við þá sem höfðu byggt eða keypt íbúð og lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til.

8. Stærðarmörk íbúða verði athuguð sérstaklega og reglur opinberra stofnana þar að lútandi samræmdar.

9. Talað er um að milliþinganefndin kanni hvernig ætlunin sé að framkvæma ákvæði 11. gr. er líða tekur á sumarið.

10. Spurningin um hvernig fara skuli með lánsrétt þeirra sem ekki geta nýtt lánsrétt sinn til fulls við kaup á fyrstu íbúð vegna þess að um ódýra eða litla íbúð er að ræða. Er þá haft í huga að viðkomandi þurfi á stærri íbúð að halda vegna breyttra aðstæðna.

Um einstök atriði í þessari upptalningu er það fyrst að segja að það var spurt um afstöðu aðila vinnumarkaðarins til kaupleiguíbúðanna og kom það fram frá fulltrúa Alþýðusambandsins að á þær hefði ekki verið minnst, hvorki í sambandi við samningsgerðina milli aðila vinnumarkaðarins né hefði sú spurning komið upp þegar unnið var að samningu þessa frv.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því varðandi ráðstafanir til að koma til móts við þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum að í samkomulaginu eru ákvæði um að koma verulega til móts við það fólk með því að gert er ráð fyrir að 300 millj. til viðbótar komi frá lífeyrissjóðunum til að greiða úr greiðsluerfiðleikum þeirra íbúðaeigenda sem um ræðir. Vil ég í því sambandi vekja sérstaka athygli á því að hér er gert ráð fyrir að viðbótargreiðsluerfiðleikalán skuli vera með sama lánstíma og almennt er á lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins. Þetta er mjög þýðingarmikið ákvæði og eins hitt að ríkisstj. mun beita sér enn frekar fyrir því að mönnum verði gefinn kostur á lengingu lánstíma í bönkum og sparisjóðum þannig að lánstími verði a.m.k. tíu ár.

Ég vil í þessu sambandi líka vekja athygli á að með skattalagabreytingum fyrir jólin var það ákvæði tekið inn að þeir sem ekki gætu breytt skammtímaskuldum í löng lán nú á þessu ári skyldu njóta vaxtafrádráttar þó svo hann hefði fallið niður skv. eldri lögum. Þetta eru allt saman mjög þýðingarmikil ákvæði og líka hitt að það var mat þeirra sem gerst þekkja til að það fé sem hér um ræðir, 500 millj. kr., sé nægilegt til að koma til móts við þetta fólk.

En eins og ég sagði voru menn í félmn. sammála um að húsnæðisnefndin, milliþinganefndin, skyldi taka þetta mál til sérstakrar athugunar á þessu sumri í ljósi breyttra aðstæðna og vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa nú komið inn með fullum þunga til að leysa vandamál þessa fólks. Ég vil mega vænta þess að takast muni að finna viðunandi lausn á því.

Með þessum aðgerðum, bæði með breytingum skattalaganna og með þessum nýju ákvæðum varðandi lengingu lána hjá húsnæðismálastjórn, er að sjálfsögðu um það að ræða að ríkissjóður tekur þátt í því að hjálpa fólki til greiðslu á þessum skuldum.

Á hinn bóginn var ekki kosið að setja ákvæði í frv. um að til frambúðar skyldi vera sérstakur lánaflokkur vegna greiðsluerfiðleika. Við spurðum aðila vinnumarkaðarins að því hvort það hefði komið upp þeirra á milli. Þeir töldu að þetta væri ekki viðvarandi ástand, vildu vona það, töldu ekki eðlilegt að slík greiðsluerfiðleikalán væru fastur liður í starfsemi Húsnæðisstofnunar og lögðu áherslu á að hið nýja húsnæðislánakerfi mundi leysa húsnæðismálin til frambúðar með þeirri lækkandi greiðslubyrði fyrir einstaklinga sem þetta nýja kerfi hefur.

Ég skal ekki rekja í því einstaka þætti, en í fskj. með nál. er útskýrt nákvæmlega hvaða áhrif frv. hefur, þetta nýja húsnæðiskerfi. Ég bið hv. þm. að kynna sér það þegar þeir hafa næði til. Ég vek líka athygli á því að í frv. er gert ráð fyrir því og tekið af skarið um að lánin skulu verðtryggð og líka einstakir lánshlutar þótt þau séu greidd út í tvennu eða þrennu lagi. Þetta er auðvitað gerbreyting frá því sem verið hefur og auðvitað verkar það á þá lund að auðvelda mönnum að eignast þak yfir höfuðið.

Menn ræddu ítarlega í nefndinni þær flóknu reglur sem settar eru upp í 2. gr. frv. til að ákveða lánsrétt viðkomandi. Þetta er mjög flókin regla ef lífeyrissjóðirnir taka ekki að fullu þann kostinn að greiða að fullu þau 55% sem hámarkslánið er miðað við. Ég hygg þó að ástæðulaust sé að óttast það. Þeir menn sem gerst þekkja til töldu að langflestir lífeyrissjóðanna mundu standa við skuldabréfakaupin að fullu af þessum 57%, en gátu ekki útilokað að einstakir sjóðir kysu að vera utan við. Reynslan á eftir að leiða það í ljós. En þetta kerfi er sett upp til að knýja alla lífeyrissjóði til að kaupa skuldabréf Húsnæðisstofnunar. Það hefur verið þannig að ýmsir minni sjóðir hafa komið sér undan því að taka þátt í skuldabréfakaupum Húsnæðisstofnunar og með því verið í færum til þess að veita sínum sjóðfélögum hærri lífeyrissjóðslán en ella og þá auðvitað á kostnað hinna lífeyrissjóðanna. Það er verið að reyna að þrengja að þessum sjóðum þannig að lífeyrissjóðirnir standi allir jafnt að þessari fjármögnun sem er grundvöllur þeirrar breytingar sem hér er verið að tala um. Ég vek líka athygli á að með breyttum samningum um lífeyri, sem kemur til á næstu þrem árum þannig að mönnum ber að greiða í lífeyrissjóð af öllum sínum tekjum, mun ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna aukast mjög, sem við væntum að valdi því að almennir vextir fari lækkandi. Ég held að ef horft er til framtíðar sé ekki við því að búast að lífeyrissjóðirnir geti ávaxtað fé sitt betur né öruggar en með þessum skuldabréfakaupum frá ríkissjóði.

Fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni hafa lagt fram brtt. á sérstöku þskj. Ég ætla aðeins að víkja að þeim, en um þessar till. var í rauninni samkomulag þó sá kostur hafi verið tekinn að við stöndum einir að þeim.

Fyrsta brtt. lýtur að því að Vinnuveitendasamband Íslands fái einn mann í húsnæðisstjórn, en Alþýðusambandið hefur haft þar tvo menn fram að þessu. Það er gert með hliðsjón af þeirri nauðsyn að tryggja verður undanbragðalaust aðild lífeyrissjóðanna að húsnæðislánakerfinu, enda eðlilegt að aðilum vinnumarkaðarins verði gert kleift að fylgjast með því að framkvæmd laganna verði í samræmi við samkomulagið um húsnæðismálin.

Önnur brtt. lýtur að því að auka rétt elli- og örorkulífeyrisþega sem eiga óverulegan rétt til greiðslna úr lífeyrissjóðum.

Sú þriðja er um að taka af allan vafa um að einstakir landshlutar fylgi breytingum á vísitölu byggingarkostnaðar.

Hin fjórða er um að draga nokkuð úr viðbótarlánum til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Það er talið eðlilegt. Eins og þessi ákvæði voru í frv. var það nánast ofrausn. Það var gert ráð fyrir því að lán í þessu skyni gætu numið allt að 3,5-6 millj., en hér er gert ráð fyrir að þau nemi ekki nema rúmum 3 millj. Það verður að teljast ærið til þessa þáttar og hugsa ég raunar að þessi lagabreyting hafi litla praktíska þýðingu.

Í fimmta lagi er lagt til að lána allt að 80% af viðbótarbyggingarkostnaði og endurbótakostnaði fyrir fólk með sérþarfir í stað 70% eins og í frv. stendur og loks er lagt til í bráðabirgðaákvæði að miðað sé við 1. sept. 1985 í stað 1. jan. 1985 þegar um það er að ræða að skerða lán til húsnæðiskaupa eða byggingar vegna þess að viðkomandi hafi fengið lán úr lífeyrissjóði á tímabilinu. Okkur þótti fulllangt að fara alla leið til 1. jan. á s.l. ári. Þess verður að gæta að við erum að tala um lánshluta sem koma til útborgunar eftir 1. sept. og við teljum nægilegt að miða við eitt ár þó ekki sé farið tæp tvö ár aftur í tímann.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu í þessum inngangsorðum að ræða þetta frekar, málið er þm. kunnugt, en ég legg áherslu á að meiri hl. nefndarinnar, aðrir en fulltrúi Alþfl., voru sammála um að einskorða sig á þessu stigi við það að frv. tæki til þess samnings sem náðist milli aðila vinnumarkaðarins í tengslum við síðustu kjarasamninga og ríkisstj. hefur síðan staðfest að hún vilji vinna að. Ef farið yrði út í endursköpun húsnæðislánakerfisins í heild nú yrði það miklu meira verk og tæki miklu lengri tíma en svo að hægt væri að afgreiða frv. á þessu þingi. Þess vegna er þessi afstaða tekin af meiri hl. nefndarinnar. Ég vil líka leggja áherslu á að ég tel nauðsynlegt að ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar móti hinar nýju reglur nokkuð í samræmi við reynsluna, hvernig eigi að stýra greiðsluerfiðleikalánunum, og ítreka það, sem ég sagði, að milliþinganefndin mun fara rækilega ofan í það mál og gera þá tillögur um breytingar og útfærslu við hæstv. félmrh. ef henni sýnist svo. Jafnframt vil ég vekja athygli á því að það er opið að auka þetta fé frekar ef lífeyrissjóðirnir fallast á að útvega frekar fé en hér er gert ráð fyrir. Við verðum að hafa í huga að þegar samningarnir voru gerðir höfðu ýmsir lífeyrissjóðanna ráðstafað sínu fé. Þeir höfðu skuldbundið sig fram í tímann sem aftur veldur því að þeir hafa minna svigrúm nú á þessu ári en búast má við eftirleiðis. Ákvæðið til bráðabirgða tekur mið af því að ekki er við því að búast að allir lífeyrissjóðir geti staðið við 55% nú á hausti komanda. Þess vegna tek ég fram að menn geta skapað sér rétt með því að gera samninga fyrir þann tíma um skuldabréfakaup á næstu tveim árum