22.04.1986
Neðri deild: 93. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4341 í B-deild Alþingistíðinda. (4097)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. formanni félmn. og öðrum nefndarmönnum fyrir að hafa leyft mér að sitja fundi nefndarinnar og hlýða á mál þeirra sem þangað komu til að skýra nánar einstakar greinar frv. og starfið að baki þess.

Ég ræddi þetta frv. allítarlega við 1. umr. um málið s.l. föstudag, skýrði brtt. okkar hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur á þskj. 933 og benti á ýmis atriði sem við töldum þurfa athugunar við í nefndum þingsins.

Nú er hér um mjög viðamikið mál að ræða og miklar breytingar á húsnæðislánakerfinu og margt gott um þær breytingar að segja. En engin mannanna verk eru fullkomin og þetta frv. mætti vera öðruvísi og betra á ýmsan veg. Það eru mikil vonbrigði að hv. félmn. skyldi ekki treysta sér til að taka fastar á málinu og leggja til meiri breytingar en hún gerir. Það verður þó að segjast eins og er að það er að mörgu leyti skiljanlegt með tilliti til stærðar þessa máls og þess skamma tíma sem nefndin hafði til að fjalla um það.. Þessi tímaþröng er að minni hyggju fyrst og fremst ástæðan fyrir því að nefndin treysti sér ekki til að taka tillit til brtt. okkar Kvennalistakvenna á þskj. 933 í þessari lotu, en samstaða náðist um það að vísa til milliþinganefndar um það mál og varð sú niðurstaða til þess að ég féllst á að samþykkja nál. meiri hl. nefndarinnar með fyrirvara þó. Ég vil til áréttingar vitna í nál., með leyfi forseta, en þar segir:

„Um það er samkomulag í nefndinni að sú milliþinganefnd, sem skipuð var til að endurskoða húsnæðislöggjöfina fyrir ári, skuli halda áfram störfum eftir að þingi lýkur nú í vor og skila till. til ríkisstj. nægilega snemma til þess að hægt verði að leggja frv. fram á haustþinginu. Í þessari milliþinganefnd eiga sæti fulltrúar allra þingflokkanna nema BJ sem kaus að draga fulltrúa sinn úr henni.“

Síðar segir:

„Frv. þetta er efnislega einskorðað við þá þætti húsnæðismála sem samkomulag aðila vinnumarkaðarins tók til. Öðrum þáttum, sem varða húsnæðismálin, var meiri hl. nefndarinnar sammála um að vísa til milliþinganefndarinnar. Meðal slíkra atriða eru þær hugmyndir sem fram hafa komið á Alþingi um breytingar á húsnæðislánakerfinu, en ekki hefur verið kostur á að fjalla um við meðferð málsins á Alþingi. Í þeim efnum bendir nefndin sérstaklega á eftirfarandi.

1. Reglur um veð og veðhæfni íbúða.

2. Kaupleiguíbúðir, húsnæðissamvinnufélög og leiguhúsnæði.

3. Fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar.

4. Áhrif nýja húsnæðislánakerfisins á félagslegar íbúðarbyggingar og verkamannabústaðakerfið yfirleitt.

5. Verndaðar þjónustuíbúðir fyrir öryrkja eða aldraða.

6. Stöðu og hlutverk ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar.

7. Ráðstafanir til þess að koma enn frekar til móts við þá sem höfðu byggt eða keypt íbúð og lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til.

8. Stærðarmörk íbúða verði athuguð sérstaklega og reglur opinberra stofnana þar að lútandi samræmdar.

9. Þegar líða tekur á sumarið kanni milliþinganefndin hvernig ætlunin sé að framkvæma ákvæði 11 gr. sem virðast geta orðið flókin og erfið í framkvæmd.

10. Hvernig farið skuli með lánsrétt þeirra sem ekki geta nýtt lánsrétt sinn til fulls við kaup á fyrstu íbúð vegna þess að um ódýra eða litla íbúð er að ræða. Þá er haft í huga að viðkomandi þurfi á stærri íbúð að halda vegna breyttra aðstæðna.“

Ég tel, herra forseti, að með því að vísa málinu með þessum hætti til milliþinganefndarinnar fáist allgóð trygging fyrir því að öll þessi atriði verði tekin til rækilegrar umfjöllunar og mun betri umfjöllunar en kostur var á nú hér á þinginu vegna tímaskortsins. Þess vegna munum við hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir draga til baka brtt. okkar á þskj. 933, enda mun fulltrúi Kvennalistans í milliþinganefndinni fylgja þeim eftir í þeirri nefnd.

Fyrirvari minn er fólginn í því að ég hefði að sjálfsögðu kosið að tekið hefði verið betur á þessum þáttum nú strax og vitanlega er engin trygging fyrir því að niðurstaða milliþinganefndar verði slík að við getum sætt okkur við hana. En ég tel það verulegan áfanga að hafa fengið þessi atriði skjalfest, svo og eindreginn vilja Alþingis að á þessum atriðum sé tekið og ég vona að það verði milliþinganefndinni verulegur stuðningur í störfum sínum.

Ég vil svo að lokum ítreka það að ég er engan veginn sátt við þetta frv. í núverandi mynd og þykir mjög miður að ekki skyldi tími og tækifæri til að vinna það betur. Ég hef líka töluverðar efasemdir um fjármögnun þessa nýja lánakerfis og ítreka það sem ég sagði við 1. umr. að forsendan fyrir því að þetta lánakerfi fái staðist er sú að það verði vaxtalækkun. 5-6% vaxtamunur á teknum lánum og veittum eins og nú er gengur auðvitað ekki til lengdar, eins og réttilega er bent á í grg. með frv., því slíkur munur kallar á sífellt hærra beint framlag úr ríkissjóði eða enn meiri lántökur. Vaxtamunurinn má ekki verða meiri en 2-3%. Að öðrum kosti mun lánakerfið sligast því ekki má leggja meiri vaxtabyrði á lántakendur. Það kemur vitanlega ekki til mála.

Herra forseti. Vegna þess að mjög er vitnað til þess í ræðum og nál., sérstaklega þó í nál. minni hlutans, að þetta frv. sé í samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins í nýgerðum kjarasamningum, þykir mér rétt að taka fram að afstaða mín nú til þessa frv. byggist ekki á þeim tengslum eins og þeim má vera ljóst sem hafa kynnt sér afstöðu Kvennalistans til kjarasamninganna. Við vorum ákaflega ósáttar við niðurstöður þeirra samninga vegna þess að þeir lögfestu að okkar mati þá láglaunastefnu sem fylgt hefur verið nú hin síðustu ár og er þess valdandi að neyðarástand hefur skapast á fjölda íslenskra heimila. Þær breytingar sem hér er verið að gera á húsnæðislánakerfinu geta á engan hátt réttlætt þá láglaunastefnu sem samningarnir staðfestu. Þetta vil ég taka fram að lokum, herra forseti, svo að afstaða okkar Kvennalistakvenna til þessa frv., sem hér er til umræðu, sé ekki sett í samhengi við niðurstöðu nýgerðra kjarasamninga.