17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. lauk sinni ræðu hér í upphafi þessarar umræðu með svofelldum orðum, með leyfi hv. forseta:

„Með þeirri stefnu, sem ég hef lýst, er brotið blað í stjórn efnahagsmála. Spilin eru lögð á borðið fyrir alþjóð að skoða. Leitast er við að rata hinn gullna meðalveg. Það er þröngur stígur og má lítið út af bera ef hann á ekki að verða ófær. Því er mikilvægt að vel megi takast. Um það þarf þjóðin að sameinast.“

Undir þessi orð tók síðan hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson og var mikið í mun að þjóðin sameinaðist. Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera þessi síðustu orð hæstv. forsrh. að umfjöllunaratriði í ræðu minni. Ég vil benda á að þetta er þriðja stefnuræðan sem þessi forsrh. flytur og þetta er þriðja stefnan sem hann leggur fram.

Ég vil halda því fram að fólkið í þessu landi hafi kosið til að fá fram eina stefnu til fjögurra ára en ekki eina stefnu á ári í fjögur ár. Hæstv. forsrh. segir að spilin séu lögð á borðið fyrir alþjóð að skoða og nú sé brotið blað í stjórn efnahagsmála. Til hvers að vera að sýna þetta íslenskri þjóð? Það les enginn heilvita maður þjóðhagsáætlun. Fólk les í dag tilkynningar um afborganir af skuldum. Það les ekki plögg sem það hefur ekkert um að segja.

Hæstv. forsrh. talar um að rata hinn gullna meðalveg, það sé þröngur stígur og megi lítið út af bera ef hann á ekki að verða ófær. Þessi orð um hinn gullna meðalveg eru að mínu mati hrein móðgun við það fólk sem ekki getur sofið í nótt af áhyggjum yfir skuldum sínum og hlakkar af þeirri einu ástæðu til helgarinnar að það fær þá frið fyrir lánardrottnum sínum í tvo daga.

Forsrh. talar um að mikilvægt sé að vel megi til takast og um það þurfi þjóðin að sameinast. Herra forseti. Ég vil meina að hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson hafi ekki nokkurn rétt til að krefja þessa þjóð um eitt eða annað. Þjóðin valdi hann ekki til þessa starfs heldur 23 sjálfstæðismenn. Þeir treystu honum til að leiða þessa ríkisstj. við kraftaverkagerð fyrir þjóðina. Reyndar varð ljóst að það var þjóðin, fólkið í landinu, sem eins og endranær átti að framkvæma kraftaverkin, ekki ríkisstjórnin, og þjóðin er að gera kraftaverk með því einu að lifa í þessu landi.

Þessi ríkisstj. hrósar sér af því að hér sé ekkert atvinnuleysi. Á því er afskaplega einföld skýring. Á Íslandi fær fólk ekki laun fyrir vinnu sína. Með hvaða rétti gerir hæstv. forsrh. þá þessa kröfu til þjóðarinnar? Ég er reyndar viss um að íslensk þjóð hefur ekki tekið mark á þessari bón forsrh. Hvers vegna? Vegna þess að íslensk þjóð finnur og veit að hún skuldar þessum manni ekki neitt né Þorsteini Pálssyni. Íslensk þjóð veit að þessir menn líta ekki þannig á að þeir starfi hér á þingi í hennar umboði. Íslensk þjóð veit það einfaldlega með því að skoða lífskjör sín. Fólk, sem ekki hefur tíma til að líta upp frá eilífum fjárhagsáhyggjum, veit að áhyggjur þess stafa af vandamálum sem ráðherrar og þingmenn bjuggu til.

Almenningur tekur ekkert mark á kröfu forsrh. um sameiningu þjóðarinnar til að ráða niðurlögum vandans. Hann tekur ekkert mark á slíkri kröfu af því að hann veit að hún er ábyrgðarlaust hjal - ábyrgðarlaust hjal vegna þess að þegar kjörtímabili hans lýkur skiptir engu máli hvort þessi forsrh. stóð við gefin loforð sín eða sveik þau. Hann þarf ekki að standa þjóðinni reikningsskil gerða sinna. Forsrh. og formaður Framsfl. fer bara heim í sitt kjördæmi og rúmlega tvö þúsund framsóknarmenn þar kjósa hann aftur á þing. Síðan spyr hann milli 20 og 30 þm. Sjálfstfl. á þingi hvort hann megi vera forsrh. og þeir segja: Já. Þeir segja alltaf já því að þeir vita eins vel og almenningur að engu máli skiptir hvort ráðherrann heitir Steingrímur, Þorsteinn eða Albert. Það breytir engu fyrir íslenska þjóð vegna þess að hún er valdalaus þátttakandi og fórnarlamb í þessum leik.

Fólkið greiðir atkvæði í kosningum, það greiðir atkvæði þeim flokkum sem það treystir best til að standa við kosningaloforð sín. Við næstu kosningar stendur fólk frammi fyrir því að engin af loforðunum hafa verið efnd og fólkið stendur líka frammi fyrir þeirri staðreynd, að fenginni reynslu síðustu ára, að það breytir engu að kjósa annan flokk.

Það þýðir ekki að tala við fólk í dag um meiri kaupmátt. Kaupmáttur er talnarugl sem ekkert á skylt við lífsbaráttuna. Fólk veit að lífsbarátta þess hefur aldrei verið harðari og fjárhagsáhyggjur þess aldrei verið meiri en nú í dag og fólk veit hverjir eiga sök á þessu ástandi. Það eru þingmenn og ráðherrar sem ekki þurfa að standa ábyrgir gerða sinna. Þessu verður að breyta. Því verður að breyta þannig að þeir einstaklingar, sem fólk velur til að stjórna þessu landi eða til að sitja á löggjafarþingi þess, standi eða falli með gerðum sínum.

Menn hafa áhyggjur af því að virðing fólks á stjórnmálamönnum sé lítil. Það stafar af því að gagnkvæmt traust skortir á milli stjórnmálamanna og fólks. Því trausti hafa stjórnmálamenn hér glatað. Þetta traust verður ekki endurunnið nema með því að afhenda fólkinu í landinu fullt vald til að ákveða hver er forsrh. og hverjir eru þingmenn. Þess vegna er brýnasta verkefnið ekki að munnhöggvast hér á þingi um þau mál sem engu breyta um hagi fólks heldur að vinna að því að breyta stjórnkerfinu, bylta því þannig að þjóðin kjósi sér forsrh. sem er þjónn fólksins en ekki þjónn SÍS, VSÍ eða ASÍ. Þessi forsrh. bæri þá ábyrgð á gerðum sínum, t.d. þannig að ef hann væri plataður með símagabbi til að hækka eða lækka laun landsmanna um 3% gæti þjóðin sagt honum meiningu sína um slíka vitleysu við kjörkassann.

Forsrh. kosinn af þjóðinni allri með jöfnum atkvæðisrétti skipaði ráðherra til samstarfs við sig með tilliti til hæfileika þeirra til að leysa verkefni sín. Forsrh. bæri ábyrgð á þeim þannig að þeirra afglöp væru hans afglöp þar til hann hefði leiðrétt þau eða rekið viðkomandi ráðherra. Stjórnmál eiga ekki að vera svona leikur. Það finnur fólk því að það hefur almennt mjög heilbrigðar skoðanir á stjórnmálum. Því ofbýður sá leikaraskapur sem það má máttlaust horfa upp á. Þess vegna hefur það skömm á Alþingi.

Ég sagði áðan að íslensk þjóð skuldaði íslenskum stjórnmálamönnum ekki neitt. Aftur á móti skulda íslenskir stjórnmálamenn þjóðinni þá stóru skuld að afhenda henni það vald sem felst í orðinu lýðræði. Ég á við að þeir eiga henni þá skuld að gjalda að afhenda henni sjálfsvirðingu sína og reisn. Þess vegna á hver Íslendingur að hafa eitt og jafnt atkvæði. Þar eiga allir Íslendingar jafnan rétt. Vegna lýðræðisins eiga 23 sjálfstæðisþingmenn ekki rétt á að afhenda Steingrími Hermannssyni vald til stjórnarmyndunar. Þjóðin á rétt á að ráða því hver myndar ríkisstjórn. Vegna lýðræðisins á þjóðin meiri rétt en flokkarnir á að ákveða hvaða menn setjast á þing. Flokkar geta boðið fram lista en fólkið á að geta valið þá menn af þessum listum sem það treystir best til að fara með vald sitt, það vald sem við köllum lýðræði. Að færa valdið með þessum hætti til fólksins frá flokkunum er nauðsynlegt til að stjórnmál hætti að vera sá leikaraskapur sem þau eru nú í dag og verða áfram að öllu óbreyttu.

Herra forseti. Það er ekkert stórvirki að stjórna landinu í þágu fólksins. Hægt er að bæta lífskjör fólks í landinu stórfellt samtímis því að greiða niður erlendar skuldir. En til þeirra verka verða íslenskir stjórnmálamenn að sækja vald sitt og traust til fólksins í landinu en ekki til hins staðnaða og náttúrulausa flokkakerfis.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Góða nótt.