22.04.1986
Neðri deild: 93. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4350 í B-deild Alþingistíðinda. (4100)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður. Ég vil aðeins nota tækifærið til að fagna þeirri samstöðu sem hefur náðst um þetta mál í félmn. þingsins um leið og ég tek undir með hv. 3. þm. Reykv. að vissulega hefði verið ánægjulegra ef menn hefðu áttað sig á því að það hefði verið sterkara að hafa algjöra samstöðu um þetta mál. Eins og ég lýsti yfir við 1. umr. málsins er þetta frv., sem hér er til umræðu, fyrst og fremst sniðið að því samkomulagi aðila vinnumarkaðarins sem gert var og það var tekið strax þannig við þessu máli frá hendi ríkisstj. og þeirrar nefndar, sem ríkisstj. lét vinna þetta frv., að halda sig eingöngu við þau meginatriði sem aðilar vinnumarkaðarins hefðu náð samkomulagi um.

Ég lýsti því yfir við umræðuna að milliþinganefndin mundi vinna áfram að mótun húsnæðisstefnu til framtíðar, eins og ávallt var gert ráð fyrir, og það hafa aldrei komið til mála í ríkisstj. nein áform um að leggja til að þessi nefnd hætti störfum. Eins og skipunarbréf hennar ber með sér, sem ég setti henni þegar hún var skipuð, hefur hún ákveðið hlutverk, að móta framtíðarstefnu, og til hennar hafa verið sendar allar þær hugmyndir, tillögur og samþykktir flokkanna sem eru um húsnæðismálin. Þess vegna er engin ástæða til að ætla annað en að ef hún bæri gæfu til að ná saman mundi hún móta þær framtíðarhugmyndir sem menn gætu svo tekið höndum saman um að setja í löggjöf.

Ég vildi gjarnan leiðrétta það sem kom hér fram hjá hv. 3. þm. Reykv. til þess að það valdi ekki misskilningi. Hann sagði þetta í sambandi við það, sem hefur verið unnið að, að fá bankakerfið til að lengja lán eða skuldbreyta lánum. Ég rifja upp að það sem ég sagði var að það hefði verið búið að gera samkomulag við bankakerfið um skuldbreytingar til átta ára, en eftir að samkomulagið kom fram hefði ríkisstj. ákveðið að beita sér fyrir að þetta samkomulag yrði allt að tíu árum. Ég lýsti hvernig að því hefði verið unnið. Það hefðu farið núna í lok umræðnanna bréf milli mín og hæstv. viðskrh. sem mundi ganga eftir því að bankakerfið svaraði þeim ákveðnu tilmælum um að samþykkja að breyta úr átta árum í tíu ár. Ég tók fram við 1. umr. að þetta samstarf við bankakerfið hefði gengið mjög vel og væri til fyrirmyndar á margan hátt, eins og hér hefur komið fram áður.

Ég vil segja það í sambandi við ráðgjafarþjónustuna að það hafði komið fram áður að ráðgjafarþjónustan er nú orðin að ráðgjafarstofnun við Húsnæðisstofnun ríkisins og tekin formlega til starfa sem slík. Ég vil einnig endurtaka það hér vegna ummæla sem hér komu fram að aðalatriðið í hlutverki þessarar stofnunar er að veita ráðgjöf til að fyrirbyggja vandamálin en ekki eingöngu að leysa úr því sem komið er. Þannig er hún byggð upp og ég vænti þess og fagna því auðvitað um leið að það virðast allir átta sig á mikilvægi þess að þessi ráðgjafarstofnun er nú orðin að veruleika. Auðvitað hljótum við að vænta mikils af því að við skipulag þessara mála verði hennar hlutverk enn þá þýðingarmeira, enda hefur það komið fram nú þegar að hinir ýmsu aðilar í þjóðfélaginu kunna þetta vel að meta.

Svo er eitt að lokum, vegna þess að menn hafa talað um veðhæfni og allt sem því fylgir og ekki dreg ég úr gildi þess, en það er að ég vil láta koma fram að nú er í vinnslu hjá ráðuneytunum ákveðin samræming matsreglna. Sérstök nefnd vann að þeim málum og skilaði áliti um að samræma matsreglur. Þar er fyrst og fremst átt við að samræma fasteignamat og brunabótamat. Það er búið að semja um þetta ótal frv. og gera áætlun um að að leysa þetta mál til frambúðar á næstu fimm árum. Ég vænti þess að um það sé algjört samkomulag milli hinna ýmsu ráðuneyta sem um þetta þurfa að fjalla.

Ég vil svo endurtaka, herra forseti, að ég fagna því að samstaðan er þetta mikil hér á Alþingi um þetta mál, eins og gera mátti ráð fyrir, og ég tek undir þau ummæli hv. 3. þm. Reykv. að það væri æskilegt hvað snertir brtt., sem ganga í þá átt að ekki er hægt að samþykkja þær miðað við aðstæður málsins, að þeir hv. flm. þeirra mundu láta sér nægja að málið á að fara til framhaldsvinnslu hjá milliþinganefnd og mundu draga sínar till. til baka.