07.11.1985
Sameinað þing: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

64. mál, mismunun gagnvart konum hérlendis

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna athugasemdar hv. þm. vil ég benda á að ég tel mjög brýnt að þessi úttekt verði gerð þó verkefnið sé viðamikið - og kannske alveg sérstaklega vegna þess að verkefnið er viðamikið - úttekt á íslenska þjóðfélaginu með tilliti til mismununar gagnvart konum hérlendis. Ég tel það vera mjög brýnt verkefni og sé ekki eftir fjármagni til þess að í það verði ráðist þó þar sé um að ræða margra manna verk. Það hlýtur að verða verkefni þeirra sem yrði falin þessi vinna, félmrn. og jafnréttisráðs, sem mundi skipuleggja þetta verk, að móta rammann um verkefnið á grundvelli þeirra atriða sem hér eru lögð fram.

Hv. þm. vék að því að hún tryði ekki öðru en hugur fylgdi máli hjá þeim sem stóðu að samþykkt þessa samnings og hlutirnir mundu þá gerast. Ég er ekki jafnsannfærður um það þó ég vefengi út af fyrir sig ekki almennt góðan hug þm. í sambandi við efni af þessu tagi. Ég held að það þurfi talsvert til að hreyfa heilafrumurnar, einnig hér innan veggja Alþingis, í sambandi við þau gífurlega stóru verkefni sem varða réttindamál kvenna. Og ég held að hv. alþm., karlar ekki síður en konur - ég geri ráð fyrir því að þörfin sé meiri þeirra megin - hefðu gott af því að fá í hendur, þó í áföngum væri, þá úttekt sem hér er lagt til að gerð verði.

Mér datt í hug gamalt orðtæki undir orðum hv. 11. þm. Reykv. um trúna á þennan góða hug. Einhvers staðar var sagt: Mikil er trú þín, kona. - Ég get í rauninni vísað til þessa gamla orðtækis sem ég einhvern tíma heyrði. Ekki skal standa á mér að leggja til aukningu á fjárráðum jafnréttisráðs í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Það veitir sannarlega ekki af að jafnréttisráð geti fjárráðanna vegna færst það í fang sem lög kveða á um að það skuli sinna og önnur verkefni sem ráðið á að geta sinnt að eigin frumkvæði.

Ég vona að við hv. 11. þm. Reykv. stöndum saman að því þegar til fjárlagaafgreiðslu kemur að reyna að leiðrétta þann hlut, en einnig þar hef ég mínar efasemdir um stuðning hér á hv. Alþingi þegar til kastanna kemur, til fjármálanna. Það er m.a. ástæðan fyrir flutningi þessarar till., þar sem lagt er til að kostnaður við þessa úttekt verði greiddur úr ríkissjóði, að ég stend hér og mæli fyrir þessu máli.