22.04.1986
Neðri deild: 94. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4357 í B-deild Alþingistíðinda. (4117)

16. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Sá maður sem var að ljúka máli sínu telur sig vera mesta jafnaðarmannaforingja Íslands fyrr og síðar en þó bar öll ræða hans keim af því að hann er fremur fyrir misrétti en jöfnuð þar sem hann lætur sig hafa það að flytja tillögu um að binda tiltekin skattfríðindi, skattafslátt, því að viðkomandi falli undir Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðarbyggingar. Ég er ekki vel að mér í skattarétti en þó held ég að það sé alveg öldungis ljóst að með öllu er óhæfilegt að binda skattafslátt slíkum takmörkunum. Ég held að skattafsláttur og skattfríðindi hljóti að verða almenn. Ég held að ógjörningur sé að ætla að miða skattfríðindi við það að sá sem á húsnæði hafi fengið lán úr Byggingarsjóði verkamanna en ekki úr Byggingarsjóði ríkisins eins og tillaga hans ber með sér. Þetta sýnir náttúrlega betur en annað hversu illa er staðið að þessari tillögu. Ég vil líka taka það fram, af því að hér er verið að tala um ótímabundinn afnotarétt íbúðar og félagið Búseti er nefndur í því sambandi, að mér er ekki kunnugt um að á öðrum Norðurlöndum, en þangað sóttum við fyrirmyndina að húsnæðissparnaðarreikningunum, sé veitt heimild til þess að taka fé út af reikningum til þess að kaupa sér búseturétt. Það er ekki. Ég hef að vísu ekki fengið sannar spurnir af þessu nema frá tveimur Norðurlanda en eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá viðskrn. mun því ekki vera til að dreifa, eða því er a.m.k. ekki kunnugt um það, að húsnæðissparnaðarreikningar í þeim löndum taki til leiguíbúða eða búsetuíbúða.

Þetta er náttúrlega spurning um það hversu langt við viljum ganga í skattafslætti, hversu kæruleysislega við viljum umgangast tekjuskattinn. Þegar húsnæðissparnaðarlögin voru sett var ákveðið að hafa ákvæðin fremur ströng. Það var miðað við að innistæða væri bundin til 10 ára nema viðkomandi hefði fest kaup á íbúð eða lagt í mjög verulegar endurbætur á sinni íbúð. Þá gat innistæðan verið laus eftir þrjú ár og eftir fimm ár ef um elli- og örorkulífeyrisþega var að ræða.

Á hinn bóginn hefur komið í ljós að þessir reikningar hafa ekki aðdráttarafl. Það sem að þeim er fundið er í fyrsta lagi að binditími er of langur, í öðru lagi að innlánsreglur eru of strangar og flóknar og í þriðja lagi að refsiákvæðin eru allt of ströng og allt of flókin. Þessi þrjú atriði hljóta að koma til endurskoðunar í sambandi við húsnæðissparnaðarreikningana og vænti ég þess að það verði gert í sumar, ég veit ekki betur en að hæstv. fjmrh. hugsi sér það.

Ég vil sem sagt undirstrika: Við sóttum fyrirmyndina að þessum reikningum til annarra Norðurlanda. Sú hugsun kom aldrei upp, þegar lögin voru samin, að menn fengju sitt sparifé laust vegna leiguíbúðar og það var aldrei minnst einu einasta orði á það í þinginu. Þó hygg ég að báðir flm. þessa máls hafi átt sæti á Alþingi og tekið þátt í afgreiðslu frv. um húsnæðissparnaðarreikninga. Þetta er því eftiráskýring sem ekki stenst skoðun.

Ég hefði eftir atvikum talið hreinlegast að fella þetta frv. en til þess að undirstrika það að nauðsynlegt sé að endurskoða ýmis atriði í húsnæðissparnaðarreikningunum til þess að þeir geti komið að almennum notum get ég eftir atvikum fallist á frávísunartillögu hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég tek það fram að ég er algjörlega andvígur því að við göngum lengra í skattfríðindum í sambandi við reikning eins og þennan en gert er á öðrum Norðurlöndum. Þess vegna get ég ekki fallist á það að undanþáguákvæðið taki til leiguíbúða.