22.04.1986
Neðri deild: 95. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4366 í B-deild Alþingistíðinda. (4129)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vildi gera hér örfáar afhugasemdir vegna þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað. Í fyrsta lagi er alveg nauðsynlegt að fram komi að hér er ekki um að ræða neins konar breytingu á stefnu í áfengismálum að því er varðar varnir gegn ofnotkun áfengis eða nokkurs konar tilslökun á sölu áfengra drykkja. Hér er ekki heldur um að ræða heimildir til þess að leyfa mönnum að brugga. Hér er um að ræða framleiðslu á áfengi með innfluttum vínanda. Og það er gert ráð fyrir því að Áfengisverslunin flytji inn vínandann eða sjái um innflutning vínandans.

Að sjálfsögðu verður haft mjög strangt eftirlit með þessari framleiðslu þannig að útilokað er að sala á áfengi geti átt sér stað öðruvísi en í gegnum Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem hefur eftir sem áður einkarétt til þeirrar sölu. Þess vegna er ekki unnt að halda því fram, eins og hér hefur komið fram í umræðum, að þetta frv., eða sú heimild til framleiðslu á áfengi sem það gerir ráð fyrir, breyti í einhverjum atriðum þeim reglum sem nú gilda um auglýsingar á áfengi. Það gerir það ekki á nokkurn hátt. Í því felst engin rýmkun að því leyti. Hér er einungis verið að leggja til að heimila þessa iðnaðarstarfsemi. Salan verður eftir sem áður í höndum Áfengisverslunarinnar og þess vegna er það ekki mikil málamiðlun sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi að hann vildi ganga til þess að semja um framgang málsins ef hér væri einungis um að ræða framleiðslu til útflutnings en salan yrði á vegum Áfengis- og tóbaksverslunarinnar eins og verið hefur. Frv. gerir einmitt ráð fyrir þessu. Þeir aðilar, sem hugsanlega fá leyfi til framleiðslu, fá ekki leyfi til þess að selja áfengi á inniendum markaði. Það verður áfram í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins þannig að að þessu leyti er þegar búið að gera þá málamiðlun sem hv. þm. var að gera tillögu um.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það hvort siðferðilega sé rétt eða rangt að leyfa einkaaðilum framleiðslu á þessum varningi, þessari iðnaðarstarfsemi. Ég vil aðeins benda á að ef farið yrði að tillögu hv. þm. Steingríms Sigfússonar og einkaaðilum heimilað að standa að slíkri framleiðslu á þann hátt að Áfengisverslunin keypti framleiðsluleyfi einkaaðilanna en annaðist framleiðsluna sjálf, þá fyrst færu þessir menn nú að græða. Þá fyrst væri nú verið að nota opinbera fjármuni til þess að leyfa einkaaðilum að græða vegna þess að þá yrði Áfengisverslunin að kosta alla fjárfestingu en einkaaðilarnir fengju að selja framleiðsluleyfin og hirða gróðann. Hér er þó verið að gera ráð fyrir því að þeir leggi til þá fjárfestingu, leggi til þá fjármuni í húsnæði og vélum sem til þarf og kosti því til.

Á engan hátt munu tekjur ríkissjóðs af áfengissölu skerðast. Allar gildandi reglur um það efni verða óbreyttar. Hér verður í engu horfið frá þeirri skipan sem er þar á. Þannig að þegar á málið er litið að þessu leyti sýnist mér að öll rök, sem hér hafa verið færð gegn frv., fái ekki staðist. Ég tek alveg heils hugar undir sjónarmið manna sem vilja hafa áfengisvarnir í huga, en þetta frv. breytir engu þar um, veikir í engu þá vörn, veikir í engu tekjuöflun ríkisins af þessari sölu, gefur einungis kost á því að nýir aðilar geti hafið hér framleiðslu en salan verði áfram með sama hætti og áður.