22.04.1986
Neðri deild: 95. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4367 í B-deild Alþingistíðinda. (4130)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er dálítið merkilegt að þau vinnubrögð skuli vera hér viðhöfð að keyra þetta áfram hér í nótt og sumir þm. þurfa að mæta á nefndarfundum snemma í fyrramálið. Mér finnst það líka lítil tillitssemi við þm. að ekki skuli vera gerðar ráðstafanir til þess að þeir ráðherrar, sem þetta mál í sjálfu sér heyrir undir, verði við þá umræðu sem er um þessi mál. Mér er vel kunnugt að t.d. hæstv. dómsmrh. er algjörlega á móti þessu frv. Hins vegar hefði verið fróðlegt í þessari umræðu að heyra hans viðhorf og hans ráðuneytis. Það er alveg á sama hátt með hæstv. heilbrrh. Það væri fróðlegt og nauðsynlegt að heyra viðhorf þess ráðherra vegna þess að mörg þau mál, sem viðkoma áfengismálum, heyra undir hennar ráðuneyti.

Það var engin hrifning yfir þessu frv. Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum. Það var ekki hægt að koma því á milli umræðna öðruvísi en að fara fram á það við þá, sem voru á móti því, að greiða atkvæði með því að koma málinu á milli umræðna.

Hæstv. fjmrh. sagði um frv. að engin rök hefðu komið fram gegn þessu frv. Ég skil ekki hæstv. ráðh. Ég held að færð hafi verið full rök fyrir því að það reki engin nauður til að samþykkja þetta frv., að það sé hægt að semja við og eðlilegast að Áfengisverslunin annist þetta. Það kom fram í hans máli t.d. að Áfengisverslunin ætti að flytja inn vínandann. En það kann að vera að frjálshyggjan, sem veður uppi alls staðar í þjóðfélaginu, sé þarna að sýna sitt andlit, þ.e. að peningahyggjan sé svo rík hjá hæstv. ráðh. að það sé nauðsynlegt að koma slíkri framleiðslu í hendur einstaklinga.

Ég get líka upplýst það að þeir, sem vinna að áfengisvarnamálum í þjóðfélaginu, telja þetta frv. mjög alvarlegt og hvetja mjög til þess að allt sé gert sem hægt er til þess að hindra framgang þess. Ég geri ráð fyrir því að sagan muni telja það nokkuð merkilegt að um leið og hæstv. fjmrh., sem nú gegnir því embætti, er kominn í þetta embætti þá er lagt til að þessi breyting sé gerð á áratuga stefnu Alþingis að Áfengisverslun ríkisins hafi einkaleyfi á þessari framleiðslu. Þetta er raunar athyglisvert og ég er alveg sannfærður um það að forveri hans, hv. þm. Albert Guðmundsson, hefði ekki flutt slíkt mál.

Í sjálfu sér er tilgangslífið að ræða þetta mál því að það er hér í síðustu umræðu. Það er auðséð að það á að koma því í gegn hvað sem það kostar. Slík áhersla er lögð á að veita hæstv. fjmrh. heimild til þess að hafa það einn á sinni hendi að gefa slík leyfi. Og það eru engar hömlur settar á slíka heimild. Samkvæmt þessum lögum gæti hann þess vegna gefið fleiri tugum aðila leyfi til þess að framleiða áfenga drykki. Ef einhver vildi vera umboðsmaður fyrir erlenda aðila sé ég ekki betur en samkvæmt þessari nýju stefnu, sem er mjög athyglisverð, sé greiður aðgangur fyrir hvern sem er að fá þá leyfi.

Ég er búinn að ræða þetta frv. fram og aftur. Ég harma mjög þá afstöðu sem hefur verið tekin í þessu máli. Ég verð að segja það eins og er að mér finnst það vera mikill álitshnekkir fyrir hæstv. ríkisstj. að standa að þessari breytingu og ég vona að reynslan af þessu muni þó ekki verða sú, sem ég mjög óttast, að af þessu muni verða mikið ólán fyrir okkar þjóð. Bara það eina atriði, að það á að fara að veita einstaklingum leyfi til þess að framleiða áfenga drykki í landinu, getur haft áhrif á hugarfar ýmissa í landinu þegar til lengdar lætur. Þetta er ekki eins einfalt mál og hæstv. ráðh. vilja vera láta, og hefði átt að ræða og athuga allar hliðar þess. Þess vegna harma ég það að hvorki hæstv. dómsmrh.hæstv. heilbrrh. skuli hafa aðstöðu til að vera við umræðu um þetta mál. Og að endingu lýsi ég allri ábyrgð á hendur þeim sem eru að berja þetta fram nú á síðustu dögum þingsins.