22.04.1986
Sameinað þing: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4373 í B-deild Alþingistíðinda. (4137)

377. mál, áhrif lögbundinna forréttinda til atvinnurekstrar

Frsm. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti allshn. um 377. mál og brtt. frá allshn. sem hún hefur sameinast um og allir nefndarmenn skrifa undir. Brtt. allshn. er svohljóðandi, með leyfi forseta: "Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna áhrif lögbundinna forréttinda, m.a. einkaréttar, til tiltekinna starfa eða atvinnurekstrar. Í könnun þessari skal einkum leitast við að varpa ljósi á þýðingu einkaréttar eða lögbundinna forréttinda á stöðu þeirra er slíks réttar njóta, áhrif þessa á verðlag og hagsmuni neytenda. Könnuninni skal einnig ætlað að leiða í ljós áhrif lögbundinna takmarkana af þessu tagi á tækniþróun, hagvöxt og atvinnustig. Skýrsla um niðurstöður könnunarinnar skal lögð fyrir Alþingi.“

Breytingin, sem felst í þessu frá upphaflegu till., er ekki efnisleg, það er ekki efnisbreyting heldur er till. örlítið stytt og þannig frá henni gengið að hún er hnitmiðaðri en hún var. Undir þetta rita nefndarmenn í allshn., Ólafur Þ. Þórðarson, Stefán Benediktsson, Geir H. Haarde, Birgir Ísl. Gunnarsson, Guðmundur J. Guðmundsson, Eggert Haukdal og Eiður Guðnason.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fylgja þessu máli frekar úr hlaði. 2. flm. till., hv. 7. þm. Reykv. Guðmundur J. Guðmundsson, mælti fyrir málinu á sínum tíma. Það nýtur stuðnings manna úr öllum flokkum, er flutt af þm. úr öllum flokkum nema Kvennalista. Legg ég þetta nál. og brtt. hér fyrir til meðferðar í Sþ.

Umr. (atkvgr.) frestað.