22.04.1986
Sameinað þing: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4374 í B-deild Alþingistíðinda. (4138)

104. mál, endurskoðun gjaldþrotalaga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. um frestun nauðungaruppboða, neyðaraðstoð og ráðgjöf við húsbyggjendur. Flm. að þessari till. voru Sighvatur Björgvinsson, Eiður Guðnason, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, Karl Steinar Guðnason og Kjartan Jóhannsson.

Þessi till. grípur á mjög stóru máli í okkar þjóðfélagi og vissir hlutar hennar voru þess eðlis að okkur þótti ekki aðgengilegt að ganga frá því í þingsályktunarformi. En meiri hl. nefndarinnar, raunverulega allir þeir sem voru á fundi þegar þetta mál var afgreitt, leggja til brtt. Með leyfi forseta vil ég lesa hana:

„1. Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj. að sjá til þess við þá endurskoðun gjaldþrotalaga nr. 6 frá 5 nóv. 1978, sem nú stendur yfir, að tryggja betur en nú er gert að greiðslustöðvun verði beitt og reynt að selja eignir fyrir sannvirði fremur en að selja þær á nauðungaruppboði.

2. Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um endurskoðun gjaldþrotalaga, nr. 6 frá 5. maí 1978.“

Ég hygg að með þeim efnisatriðum, sem allshn. leggur áherslu á í þessu máli, sé þessum málum stefnt nær þeim farvegi sem tíðkast á Norðurlöndum, m.a. í Danmörku, um meðferð mála sem hér er verið að fjalla um.

Undir þetta nál., sem ég las hér upp, skrifa Ólafur Þ. Þórðarson, Stefán Benediktsson, Guðmundur J. Guðmundsson og Eiður Guðnason. Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Geir H. Haarde, Eggert Haukdal og Birgir Ísl. Gunnarsson.

Umr. (atkvgr.) frestað.