22.04.1986
Sameinað þing: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4383 í B-deild Alþingistíðinda. (4144)

443. mál, skattsvik

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Með ályktun Alþingis frá 3. maí 1984 var ríkisstj. falið að koma á fót starfshópi í samvinnu við skattyfirvöld til að hafa það verkefni með höndum að gera grein fyrir og kanna umfang skattsvika hérlendis miðað við upplýsingar um þjóðartekjur í þjóðhagsreikningum og öðrum opinberum gögnum annars vegar og upplýsingar um framtaldar tekjur í skattframtölum hins vegar. Í öðru lagi að kanna hvort skattsvik megi rekja sérstaklega til ákveðinna starfsstétta og starfsgreina. Í þriðja lagi að kanna umfang söluskattssvika og í fjórða lagi helstu ástæður fyrir skattsvikum og hvaða leiðir eru vænlegastar til úrbóta.

Með bréfi dags. 8. nóv. 1984 skipaði þáv. fjmrh. Albert Guðmundsson starfshóp til að framkvæma þá úttekt sem Alþingi hafði falið ríkisstj. í þessu sambandi. Þröstur Ólafsson hagfræðingur var skipaður formaður starfshópsins, en aðrir þátttakendur í honum voru Eyjólfur Sverrisson, löggiltur endurskoðandi, Jónatan Þórmundsson prófessor, Ólafur Davíðsson framkvæmdastjóri og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur. Nefndin lauk fyrir skömmu starfi sínu og skilaði skýrslu til fjmrh. sem lögð hefur verið fram hér á hinu háa Alþingi.

Helsta niðurstaða starfshópsins er sú að umfang dulinnar starfsemi hérlendis sé á bilinu 5-7% af vergri landsframleiðslu og sé miðað við 6% sem meðaltal hafi 6,5 milljörðum kr. verið skotið undan á árinu 1985 og tap hins opinbera vegna vangoldinna beinna skatta og söluskatts af þessum sökum megi áætla um 2,5-3 milljarða kr. á s.l. ári.

Nefndin telur að dulin atvinnustarfsemi og skattsvik komi einkum fram í byggingarstarfsemi, persónulegri þjónustustarfsemi, svo sem bílaþjónustugreinum, gúmmíviðgerðaþjónustu, á hárgreiðslu- og snyrtistofum o.s.frv., í iðnaði, verslun og veitinga- og hótelrekstri.

Að því er söluskattssvikin varðar kemur fram af hálfu nefndarinnar að engar óyggjandi leiðir séu færar til að meta þau, en samkvæmt þeim aðferðum sem starfshópurinn beitti áætlar hann að söluskattssvik séu um 11% af skiluðum söluskatti, þ.e. um 1,3 milljarðar kr. á árinu 1985. Um helstu ástæður skattsvika segir að flókið skattkerfi með óljósum mörkum milli hins löglega og ólöglega sé ein af ástæðunum fyrir skattsvikum, svo og frádráttar- og undanþáguleiðir er íþyngi mjög framkvæmd skattalaga og opni margvíslegar sniðgönguleiðir eins og þar segir.

Þá bendir starfshópurinn á að skattvitund almennings sé tvíbent og verði óljósari eftir því sem einstök skattaleg ívilnunarákvæði einstakra hópa aukist og skatteftirlitið versni. Þetta grafi undan réttlætiskennd skattgreiðenda. Þá er enn fremur bent á að há skatthlutföll hafi áhrif á umfang skattsvika, þau hvetji til þess að menn nýti sér þá sniðgöngumöguleika sem fyrir hendi eru. Og loks er á það bent af hálfu nefndarinnar að tilhneiging til lagasetningar um opinber höft af ýmsu tagi örvi frekar til skattsvika en hitt.

Af hálfu nefndarinnar eru settar fram ýmsar ábendingar um leiðir til úrbóta. Þar er um að ræða ábendingar um breytingar á skattalögum og framkvæmd skattalaga, ábendingar um einföldun skattalaga og fækkun á undanþágum og margs konar frádráttarliðum. Enn fremur eru ábendingar um nauðsyn þess að breyta refsiákvæðum, setja ný refsiákvæði um stórfelld skattsvik inn í hegningarlög þar sem fangelsi allt að sex árum yrði lagt við brotum.

Þá eru tillögur um breytingar á bókhaldslögum með hertu bókhaldseftirliti og viðurlögum við brotum bókhaldsskyldra aðila, ábendingar um að lögfest verði ótvíræð lagaheimild fyrir ríkisskattanefnd til að úrskurða sektir fyrir hrein bókhaldsbrot svipuð þeirri sem hún hefur vegna skattabrota. Ýmsar fleiri ábendingar eru í áliti nefndarinnar varðandi breytingar á bókhaldslögum.

Loks eru ábendingar um breytt skipulag við skatteftirlit og framkvæmd þess á vegum skattyfirvalda. Það er rétt að hér komi fram, þó ég hafi áður greint frá því í fyrirspurnatíma á hinu háa Alþingi, að það er ætlun fjmrn. að taka þessar ábendingar til athugunar nú þegar og stefna að því að koma fram á næsta þingi þeim lagabreytingum sem nauðsynlegar eru taldar til þess að viðunandi ráðstafanir séu gerðar til að stemma stigu við skattsvikum sem auðvitað eru of mikil svo lengi sem menn telja að þau fyrirfinnist í þjóðfélaginu.

Nefndin gerir nokkra tilraun til að gera samanburð við umfang skattsvika og dulinnar atvinnustarfsemi í öðrum löndum. Í heild sinni kemur fram, að svo miklu leyti sem þessi samanburður er marktækur, að skattsvik virðast ekki vera miklu alvarlegri hér en annars staðar í nágrannalöndum okkar. Tíðni nótulausra viðskipta virðist vera minni hér en á öðrum Norðurlöndum. Nefndin telur að sú skoðun sé nokkuð ríkjandi að hætta á undandrætti á söluskatti sé mest hjá smærri fyrirtækjum þar sem selt er beint til neytenda og eigendur sjá sem mest um viðskiptin og skráningu þeirra. Hins vegar telji hún að hættan minnki þegar umsvif fyrirtækjanna verða meiri, bókhald stærri fyrirtækja sé oft betra en þeirra smærri og almennir launþegar annast viðskipti og skráningu þeirra. Samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið virðast 5% af fyrirtækjum sem skila söluskatti skila tæpum 60% af skattinum, en 65% fyrirtækja tæpum 8%. Ef sú skoðun er rétt að stóru fyrirtækin séu góðir skilendur ætti söluskattur ekki að skila sér eins illa og umræðan um söluskattssvik gefur tilefni til að ætla, segir í áliti nefndarinnar.

Auðvitað er það svo um verk eins og þetta að það getur ekki gefið alveg óyggjandi niðurstöðu en í heild sýnist mér að nefndin undir forustu Þrastar Ólafssonar hafi unnið hér gott starf og það mat sem hún hefur lagt á umfang skattsvika og dulinnar atvinnustarfsemi sé ekki fjarri lagi. Það er nauðsynlegt að gera viðeigandi ráðstafanir til að uppræta skattsvik og stemma stigu við dulinni atvinnustarfsemi og af hálfu fjmrn. verður unnið að því bæði í tengslum við heildarendurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins og eins með skipulagsbreytingum sem kunna að leiða af ábendingum nefndarinnar og öðrum lagabreytingum, einkaniega að því er varðar bókhaldslög og refsiviðurlög.