22.04.1986
Sameinað þing: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4399 í B-deild Alþingistíðinda. (4148)

439. mál, úrbætur í málefnum ullariðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 832 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh. ásamt hv. 5. þm. Austurl.:

„Til hvaða ráðstafana hyggjast stjórnvöld grípa svo að leysa megi sem best úr bráðum vanda ullariðnaðarins þannig að ekki komi til fjöldauppsagna í greininni?"

Ein þeirra greina atvinnulífs okkar sem hvað mestar vonir hafa vakið að verðskulduðu er úrvinnsla okkar og ágæt framleiðsla úr íslensku ullinni. Ullarfatnaður okkar hefur verið í alfremstu röð og vinna þessu tengd hefur á fjölmörgum stöðum um landið verið virkileg búbót og lyftistöng atvinnulífs sumra staða. Staða þessa iðnaðar er nú ekki sem skyldi. Menn þekkja dæmi, allt of mörg, um saumastofur sem lagt hafa upp laupana og nú nýlega eru fréttirnar um uppsögn starfsfólks Pólarprjóns hinar alvarlegustu en á voð þaðan byggja fjölmargar saumastofur öll eða flest sín verkefni.

Vitað er um almenna erfiðleika og vissar hættur sem steðja að greininni í heild. Nýjustu fréttir eru frá Landssambandi prjóna- og saumastofa sem ályktaði býsna hart á aðalfundi sínum í síðustu viku þar sem gagnrýni kom fram á stóru fyrirtækin í ullariðnaði sem legðu áherslu á það allt um of að draga framleiðsluna sjálfa til sín en sinna ekki útflutnings- og markaðsmálum nægilega. Þar kom og fram gagnrýni á bankakerfið og neikvæð viðhorf þess til þessarar greinar, svo og að hönnun og markaðssetning lægi mjög eftir. Allt veldur þetta áhyggjum og atvinna fjölda manns er í húfi. Því er von að spurt sé svo í þessari erfiðu stöðu.