22.04.1986
Sameinað þing: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4399 í B-deild Alþingistíðinda. (4149)

439. mál, úrbætur í málefnum ullariðnaðarins

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 832 er fsp. til mín frá hv. þm. Helga Seljan og Hjörleifi Guttormssyni, svohljóðandi:

„Til hvaða ráðstafana hyggjast stjórnvöld grípa svo að leysa megi sem best úr bráðum vanda ullariðnaðarins þannig að ekki komi til fjöldauppsagna í greininni?"

Svar mitt er eftirfarandi: Á undangengnum 10-15 árum hefur íslenskur ullariðnaður vaxið hröðum skrefum og er nú mikilvæg útflutningsgrein. Í þessari grein starfa um 12-1300 manns í fjölda fyrirtækja víðs vegar um land. Á síðasta ári nam útflutningsverðmæti ullarvöru um 1,1 milljarði kr.

Afkoma í ullariðnaði hefur oftast verið mjög sveiflukennd, bæði vegna ytri aðstæðna á markaði og í gengisþróun, og einnig hefur mikill óstöðugleiki í íslenskum efnahagsmálum komið hart niður á ullariðnaði. Á árinu 1985 var verulegt tap á ullariðnaði. Nær öll fyrirtæki í greininni voru rekin með tapi og halli var á öllum þáttum rekstursins, framleiðslu á bandi, voð og fullbúnum flíkum. Heildartapið hefur líklega numið nálægt 6% af tekjum, en er þó breytilegt eftir fyrirtækjum.

Ástæða mikils tapreksturs á s.l. ári er einkum lækkun á gengi dollarans gagnvart öðrum myntum og mikil verðbólga á Íslandi. Um 70% af tekjum ullariðnaðarins eru greidd í dollurum og lækkun á gengi dollarans rýrir því tekjur greinarinnar mjög mikið. Á sama tíma eru aðstæður á markaði þannig vegna mikillar samkeppni að ekki er unnt að ná verðhækkun á framleiðsluvörum.

Vegna tískubreytinga er markaðurinn fyrir íslenskar ullarvörur nú erfiðari en áður. Þetta hefur m.a. orðið til þess að ekki er lengur sú aukning á útflutningi sem áður var og reyndar hætta á samdrætti. Að undanförnu hefur þannig farið saman erfitt ástand á markaði, óhagstæð gengisþróun og mikil innlend verðbólga.

Rekstraráætlanir fyrirtækja í ullariðnaði, miðað við núverandi tekjur og kostnað, sýna áframhaldandi taprekstur á árinu 1986 þrátt fyrir að allra leiða sé leitað til að draga úr rekstrarkostnaði. Fyrirtækin gera yfirleitt ráð fyrir svipuðu eða minna framleiðslumagni en á síðasta ári, en sjá ekki neina möguleika á verðhækkun í erlendri mynt.

Þær aðgerðir í vöruþróun, hönnun og markaðsmálum sem fyrirtækin hafa þegar gripið til eða eru að undirbúa skila ekki árangri strax og reyndar eiga fyrirtækin í erfiðleikum með að halda þessum aðgerðum áfram í núverandi stöðu eins og nánar verður vikið að.

Það skiptir sköpum fyrir framtíð ullariðnaðarins að fyrirtækin fái ráðrúm til að laga sig að þeim breytingum sem stöðugt eiga sér stað á markaði fyrir þessar vörur. Hér skiptir miklu máli að verulega dragi úr verðbólgu og takist að ná auknum stöðugleika í efnahagsmálum. Það er jafnframt ljóst að í núverandi stöðu geta fyrirtæki í þessari grein ekki tekið á sig launahækkanir nema annar kostnaður lækki að einhverju marki.

Lánasjóðir iðnaðarins hafa veitt veruleg fjárfestingarlán til ullariðnaðarins á undanförnum árum og einkum hefur Iðnþróunarsjóður fjármagnað uppbyggingu í þessari grein. Þessir sjóðir hafa nokkra möguleika til að veita lán og styrki til áðurnefndra verkefna, en það þyrfti að kanna það hjá stjórnum sjóðanna að hve miklu leyti þyrfti að koma til aukið fé sjóðanna vegna þessara verkefna. Hafa fyrirtæki þegar gripið til eða eru að undirbúa aðgerðir til að hagræða og lækka kostnað við rekstur og auka vöruþróun og markaðsstarfsemi. Þessar aðgerðir krefjast óhjákvæmilega fjárfestinga í vélum og vöruþróun og markaðsaðgerðir eru einnig dýrar.

Hinn 23. janúar s.l. lagði ég fram í ríkisstj. tillögur að brýnustu úrbótum til leiðréttingar á rekstrarskilyrðum útflutningsiðnaðar. Þessar tillögur voru í átta liðum. Helstu atriðin, er varða fjárhagslega fyrirgreiðslu á vegum opinberra sjóða eða stofnana, eru sem hér segir:

1. Að gengistap útflutningsgreina vegna viðskipta við dollarasvæði verði endurgreitt til fyrirtækja í hlutfalli við afurðalánaviðskipti í SDR skv. reglum er Seðlabanki Íslands setur.

2. Forsrh. hefur óskað eftir því við stjórnir Byggðastofnunar og Framkvæmdasjóðs að lán til fjárhagslegrar endurskipulagningar og tæknivæðingar hafi forgang á þessu ári. Útlánaáætlun Byggðastofnunar er ekki tilbúin enn þá, en hér gæti verið um 60 millj. kr. að ræða til iðnaðarins. Vinna við sérstök vandamál ullariðnaðar er þegar hafin hjá Byggðasjóði.

3. Mikilvæg rannsóknar- og þróunarverkefni fái sérstakan fjárstuðning. Iðnþróunarsjóður er þegar með í athugun að verja fé til þess háttar verkefna í ullariðnaði. Verður hér um að ræða lán af þeim hluta af tekjuafgangi sjóðsins sem árlega er varið til markaðsmála að öðru jöfnu.

Þann 25. febr. s.l. barst mér grg. um stöðu ullariðnaðar, sem unnin er af Félagi ísl. iðnrekenda, iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga og Landssamtökum sauma- og prjónastofa, þar sem farið er fram á ákveðnar aðgerðir í málefnum ullariðnaðar. Að mati iðnrn. felast þessar aðgerðir að nokkru í ofanrituðum tillögum, en auk þeirra er farið fram á að útvegað verði fé að upphæð er talin er geta numið 150-200 millj. kr. til skuldbreytinga á skammtímalánum fyrirtækja í ullariðnaði.

Þann 13. mars s.l. boðaði ég forsvarsmenn Iðnþróunarsjóðs og Iðnlánasjóðs til sérstaks fundar um málefni ullariðnaðarins þar sem þessi beiðni var rædd og eins voru kannaðar leiðir til lækkunar á vöxtum af lánum þessara sjóða. Var niðurstaða þessa máls sú að skuldbreytingar fyrir ullariðnað eru mögulegar og að því marki sem nemur afborgun eldri lána viðkomandi fyrirtækja. Vaxtalækkunin er möguleg af lánum Iðnþróunarsjóðs að svo miklu leyti sem hægt er að ná henni fram með breyttri gjaldeyrisviðmiðun lánanna.

Herra forseti. Ég hef svarað fsp.