11.11.1985
Neðri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Það er frv. til l. um skattfrádrátt fyrir fiskvinnslufólk sem ræða skal. Þegar þetta frv. var síðast á dagskrá lagði ég til málanna nokkur orð. En nú er svo komið að ég verð víst að fara út í þá sálma, sem ég raunar kann heldur illa við, að taka ræðu eða orðaflaum hv. þm. og 1. flm. Sighvats Björgvinssonar og rekja lið fyrir lið það sem hann hafði um það að segja sem ég sagði við fyrri umræðu um frv. Annað er ekki gerlegt þegar um svo augljósar rangtúlkanir er að ræða sem komu fram í máli hans síðast þegar þetta frv. var hér á dagskrá. Hins vegar á ég slíku og þvílíku ekki að venjast, þ.e. að það sem ég segi úr þessum ræðustól sé tekið og því umsnúið á þann hátt sem umræddur hv. þm. hefur orðið fyrstur til að gera.

E.t.v. má virða honum það til vorkunnar að hann hefur ekki verið mikið inni á þingi samhliða svo mörgum kvenkyns þm. og þess vegna óvanur þessu. Honum er auðvitað ekki kunnugt um þá staðreynd að það er alveg óþarfi að vera að geta sér til um merkingu þess sem við konur segjum úr ræðustól. Við erum ekkert að tala undir rós eða í tvíræðri merkingu, að ég hygg. Það virðist hins vegar vera orðið þessum hv. þm. svo tamt að reyna að ráða í merkingu þess sem sagt er héðan að hann getur ekki látið vera.

Mér sýnist svo sem hann hafi reynt að meira eða minna leyti að rangtúlka eða a.m.k. snúa út úr flestu því sem við þessar konur, hv. kvenkyns þm. sem tekið hafa til máls við þessa umræðu, höfum haft til málanna að leggja. Það er vissulega leitt til þess að vita ef svo forpokaðar aðferðir fara að taka megintíma þingsins. Mér finnst ekki veita af því almennt að taka til við að ræða þau mál, sem lögð hafa verið fram hér, á málefnalegan hátt í stað þess að eyða stórum hluta af tímanum í að rakka niður málflutning hvers annars eins og hér hefur átt sér stað.

Það er þá best að byrja á byrjuninni og taka til þar sem hv. flm. og þm. Sighvatur Björgvinsson segir, með leyfiforseta:

„Ég vildi gjarnan að þessar konur gerðu grein fyrir máli sínu, ekki bara hér á Alþingi, heldur á fiskvinnslustöðvunum.“

Ég vil aðeins víkja að þessum þætti sérstaklega, en mun gera það um leið og ég rek þá hlið málsins almennt síðar.

En áfram heldur svo þm., með leyfi forseta:

„Og það vekur einnig athygli mína að þær sem komið hafa hingað upp til að ræða þetta mál með þessum hætti eru allar héðan úr Reykjavík eða flestar héðan af Reykjavíkursvæðinu a.m.k. og háskólaborgarar.“

Hvað tengist þetta innskot umræðum um hvort fiskvinnslufólk skuli njóta skattfrádráttar umfram aðra eða ekki? Ég get ekki séð að þó að hv. þm. hefði rétt fyrir sér værum við betur í stakk búnar til þess að taka þátt í umræðunni né það skipti máli hvort við erum háskólaborgarar eða ekki eða hvort við erum af Reykjavíkursvæðinu eða ekki. Er það talið ámælisvert? Ég verð hins vegar að upplýsa hv, þm. um að þar fer hann villur vegar og ég skal með ánægju leiða hann á rétta braut fyrst þetta skiptir máli. Ég er alveg örugglega ekki háskólaborgari og er ekkert sérlega leið yfir því heldur. Þá finnst mér vera heldur farið að syrta í álinn fyrir þm. vegna þess að nú höfum við komið tvær upp til að tjá honum að þetta mikilsverða innlegg hans í umræðuna er rangt. Við höfum tjáð okkur fjórar þingkonur í þessu máli og fram hefur komið að a.m.k. tvær hafa ekki umrædda menntun sem mér heyrðist einna helst á þm. að væri jafnvel ámælisvert að hafa aflað sér. Þá er lítið eftir af þeirri röksemdinni í málinu, hvað sem hún svo annars átti skylt við og erindi inn í umræðuna. Ef hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur tekið jafnvel eftir öllu sem sagt var og gert sér jafnvel grein fyrir öllu og hann hefur upplýsingar um menntunarmál okkar þingkvenna verð ég að segja að það stendur ekki mikið eftir og það gerir það heldur ekki.

Önnur sönnun um eftirtektarleysi þm. kom glögglega fram síðar í ræðu hans þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Þó kemur mér mest á óvart hvaða rökum er beitt við að andmæla þessu máli. Hv. þm. sem hér talaði, Kristín S. Kvaran, komst þannig að orði að hún skildi ekki þann rökstuðning að Alþingi þyrfti að reyna að lagfæra hlut fiskverkafólks vegna þess að aðrar stéttir í þjóðfélaginu hefðu getað velt af sér öllum þeim byrðum sem þjóðfélagsþegnunum er ætlað að bera og launamunur hafi aukist í samfélaginu. Hún skildi ekki slíka röksemd. Hún skildi ekki, sagði hún, þá röksemd að stórir hópar hafa getað haldið sínu og jafnvel sótt sér kjarabætur á þeim tímum þegar aðrir hafa orðið að taka á sig byrðar, hún skildi það ekki, hv. þingmaðurinn, að það væri röksemd fyrir því að reynt væri að hjálpa láglaunafólkinu sérstaklega af löggjafarvaldinu.“ (Gripið fram í: Hv. þm. er farinn.) - Virðulegi forseti. Ég held að ég verði að biðja um að hv. þm., sem er flm. þessa frv., haldi sig í salnum á meðan ég er að tala um hans eigin málflutning síðast við umræðurnar. (Gripið fram í: Eða verða sviptur kaupi ella.) Já, eða það. (Forseti: Ég skal verða við þessari ósk hv. ræðumanns.)

Þá gengur þm. í salinn. Ég ætla samt ekki að lesa fyrir hann aftur það sem ég er búin að segja vegna þess að það voru hans eigin orð og ég reikna með að hann muni þau.

Það er alveg ótrúlegt að nokkrum manni skuli vera gefin svo lítil eftirtekt að það skuli geta komið fyrir að þetta hendi hann eða e.t.v. liggur hér önnur ástæða að baki. En ég ætla ekki að fara að gera hv. þm. upp einhverjar ástæður eins og hann ætlar öðrum. Ég tek bara fram þá sem er greinileg og sýnileg, sem sagt: eftirtektarleysið er algert.

Vegna þessa er óhjákvæmilegt að leyfa hv. þm. að heyra hvað það var sem ég sagði í raunveruleikanum. Ég þyrfti e.t.v. að gefa honum afrit af því. Það var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Mér finnst alveg forkastanlegt að lesa þær röksemdir sem fylgja hér í grg. með frv. og vil fá að vitna í það, með leyfi forseta:

„Að undanförnu hefur bilið milli tekjuhópa farið breikkandi á Íslandi. Talsvert stórir hópar fólks í landinu geta a.m.k. að verulegu leyti ráðið tekjum sínum sjálfir og er þar í mörgum tilvikum um að ræða sömu aðila og komist geta hjá því að greiða sinn skerf til sameiginlegra þarfa. Þrátt fyrir margumtalaða efnahagserfiðleika þjóðarinnar virðast þessir hópar landsmanna hafa fullar hendur fjár og rúm fjárráð þeirra koma m.a. fram í gífurlegum innflutningi og þenslu.“"

Þetta las ég upp úr frv. við 1. umr. og undraðist mjög að þetta skyldi notað sem röksemd, að það skyldi notað sem röksemd með frv. um skattfrádrátt fyrir fiskvinnslufólk að einhverjar stéttir svíki undan skatti. Það er það sem er það óskiljanlega í þessu máli. Ekki að það sé óskiljanlegt að það þurfi að sjálfsögðu að lagfæra kjör bæði fiskvinnslufólks og annarra láglaunahópa í landinu. En að það eigi að vera rök fyrir að létta byrðar einnar stéttar að aðrir hópar hafi getað velt af sér byrðunum á ólöglegan hátt, sú röksemd fær ekki staðist.

Í því tilefni sagði ég, með leyfi forseta:

„Ég veit eiginlega ekki hvernig það á að geta átt sér stað að fara að draga þar eina stétt fram fyrir aðra og segja: Þessi stétt getur ekki svikið undan skatti og þess vegna verðum við að veita henni skattfrádrátt.“

Enn fremur sagði ég, með leyfi forseta: „Hvað ætli það séu margar stéttir í landinu sem að sjálfsögðu hafa ekki nokkra möguleika til að fela einn einasta eyri fyrir útan það að þær hafa ekki löngun til þess né nokkra tilburði uppi um neitt slíkt. Mér finnst þetta nálgast að það sé verið að hvetja til skattsvika.“

Út úr þessu fær hv. þm. þann skilning, ef ég má aðeins vitna í orð hans aftur, með leyfi forseta:

„Í annan stað sagði hún einnig að aðferð eins og þessi, að veita fólki frádrátt frá tekjuskatti, væri leið til þess að kenna fólki að svíkja undan skatti, væri leið til þess að ýta undir skattsvik í þjóðfélaginu.“

Þetta eru öll trúverðugheitin í málflutningi þm. En hann var ekki þar með hættur útúrsnúningunum. Nei, aldeilis ekki. Með leyfi forseta les ég áfram upp úr ræðu hans. Þar var komið máli hans að hann sagði:

„Hinn 6. júní 1985, á s.l. vori, voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Breytingin var nákvæmlega um sömu grein og breytingin sem við hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson leggjum til að breytt verði, um 30. gr. laganna, og var á þá leið, eins og segir í lögunum, sem samþykkt voru, að helming greiddra meðlaga með barni sem er innan 18 ára aldurs megi draga frá. Ég hef reynt að kynna mér það í þingtíðindum hvort hv. þm. hafi lýst þeirri skoðun sinni við þetta tækifæri að þetta væri aðferð til þess að ýta undir skattsvik. Ég hef ekki orðið var við það. Ég sé ekki annað í þingtíðindum en þessi hv. þm. hafi greitt atkvæði sitt með þessari breytingu.“

Ég sé nú að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur lagt sig í líma við að lesa þingtíðindi frá því í fyrravor, en þar kemur aftur fram þessi skortur á eftirtekt. Hann hefur ekki lesið frv., grg. né ræðuna með frv. í Alþingistíðindum sem hann er að tala um. Þar kemur nefnilega ekkert fram sem gefur tilefni til þess að ætla flm. þeirrar tillögu að nota sömu röksemdir sem grundvöll fyrir flutningi hennar og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson notar sem röksemd fyrir sinni tillögu eða það að af því að hópar í þjóðfélaginu komast upp með skattsvik verði að sjá til þess að aðrir fái frádrátt frá skatti. Í framsöguræðu með þessari umræddu tillögu, sem haldin var 29. okt. 1984, sagði flm., sem var Jóhanna Sigurðardóttir, með leyfi forseta:

„Í tekjuskattslögunum, 8. tölul. 30. gr., er ákvæði sem kveður á um að helmingur greiddra meðlaga, sem meðlagsskyldur aðili innir af hendi með barni til 17 ára aldurs, sé frádráttarbær frá tekjum til skatts. Þetta frv. felur í sér að meðlagsgreiðslur verði frádráttarbærar til 18 ára aldurs og ef um er að ræða framlengingu á framfærsluskyldu til 20 ára aldurs vegna menntunar eða starfsþjálfunar verði frádráttur einnig heimilaður til jafnlangs tíma.“

Ekkert í þessari tillgr. felur í sér ábendingu um að það sé verið að heimila skattfrádrátt vegna þess að aðrir hópar fái tækifæri til þess að svíkja undan skatti, ekki neitt, ekkert.

Enn fremur segir Jóhanna þegar hún er að mæla með þessu frv. við umræður:

„Markmið þessa frv. er að samræma ákvæði barnalaga um framfærsluskyldu því ákvæði skattalaga sem kveður á um frádrátt meðlagsgreiðanda á helmingi greiddra meðlaga með barni.

Barnalögin voru samþykkt á Alþingi 1. apríl 1981. Í þeim eru ákvæði um að lengja framfærsluskyldu meðlagsgreiðanda úr 17 í 18 ár, svo og það nýmæli að framfærsluskylda getur staðið til 20 ára ef þörf krefur vegna menntunar eða starfsþjálfunar barns.

Lögum um tekju- og eignarskatt, sem heimila meðlagsgreiðendum frádrátt frá skatti sem nemur helmingi greiddra meðlaga með barni til 17 ára aldurs, var þó ekki breytt til samræmis við þessa breytingu á framfærsluskyldu.

Það verður að teljast rétt og eðlilegt, þar sem löggjafinn hefur þegar samþykkt að helmingur meðlagsgreiðslna sé frádráttarbær frá skatti til 17 ára aldurs, að það ákvæði taki einnig breytingum til samræmis við lengri framfærsluskyldu. Í þeim tilgangi er frv. þetta flutt.“

Eins og ég sagði áðan get ég ekki séð neitt sem bendir til þess í grg. eða málflutningi til stuðnings frv. að þar hafi verið notuð sú röksemd að einhverjir hópar í þjóðfélaginu hafi getað svikið undan skatti og þess vegna bæri að ívilna öðrum hópi. Hér er einfaldlega talað um að samræma þurfi ákvæði. Ég get hins vegar upplýst þm. um að ég hafði verulega gott af því að lesa yfir þetta merka mál í Alþingistíðindum vegna þess að, eins og fram kom í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, tók ég ekki þátt í umræðum um þetta mál, mikið rétt. Ég var að vísu komin heim af fæðingardeildinni frá því að ala þar barn mitt, en ég var ekki mætt í þingsali til að fylgjast með og taka þátt í umræðum um þetta mál. Það er rétt. En það er auðvitað ekki nokkur von til þess að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi orðið var við það eða tekið eftir því, frekar en það hafi verið nokkur von til þess að hann tæki þátt í þeirri umræðu hér á þingi vegna þess að hann var ekki hér þá.

Það er nú svo, þegar svo er komið að farið er að grípa til málflutnings af því tagi sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson notar, að það hvarflar óhjákvæmilega fyrst og fremst að manni að rökin séu svo léleg að það þurfi að grípa til einhvers sem hægt sé að nota sem yfirbreiðslu yfir þessi lélegu rök, enda eru það léleg rök þegar löggjafinn er farinn að nota skattsvik, lögbrot, sem röksemd fyrir því að setja lög. Ekki sem röksemd fyrir því að setja lög er mæli fyrir um aðgerðir til að koma í veg fyrir að lögbrotið eigi sér stað, þ.e. að setja lög til að koma í veg fyrir skattsvik allra þeirra hópa í þjóðfélaginu sem komast upp með að svíkja undan skatti. Nei, sem röksemd fyrir því að í staðinn skuli annar hópur fá frádrátt frá skatti. Þetta er kjarni málsins. Og það má auðvitað aldrei rífa það sem sagt er svo rækilega úr samhengi að það sé gert að andhverfu sinni. Það er á engan hátt hægt að túlka orð mín svo við 1. umr. þessa frv. að ég sé því andsnúin á nokkurn hátt að fiskverkunarfólk, sem réttilega er flest konur, fái bætt launakjör og að snúa orðum okkar þingkvenna almennt upp í það að við séum að veitast gegn láglaunafólki. Orðum okkar var snúið upp í það að við vildum ekki kjör þess betri og það er auðvitað fáránlegt.

Gagnrýni minni er beint gegn röksemdinni sem notuð er í grg. fyrir því að fiskverkunarfólki skuli veittur skattfrádráttur. En það er alveg sama hvers konar orðaflaum hv. þm. Sighvatur Björgvinsson setur á við þessar umræður.

Þá vil ég ítreka rétt enn eina ferðina að ég get ekki fallist á þá röksemd, sem sett er fram í grg. með þessu frv., að það eigi að vera forsenda fyrir skattfrádrætti einnar stéttar að einhverjir hópar í þjóðfélaginu komist upp með að svíkja undan skatti. Það er alveg sama hvernig hv. flm. þessa frv. fer að því að snúa málflutningi mínum fram og til baka. Hann skal ekki geta komist að þeirri niðurstöðu að ég hafi verið að leggjast gegn lagfæringu á kjörum fiskverkunarfólks.

Og þá er komið að því sem ég gat um nánast í upphafi máls míns er ég sagðist mundu víkja nánar að því atriði í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar er hann sagðist gjarnan vilja að við þingkonur gerðum grein fyrir máli okkar ekki bara hér heldur á fiskvinnslustöðvum. Það vill svo til að ég hef einmitt borið þessa röksemd, sem beitt er í þessu frv., upp við fólk á fiskvinnslustöðvunum. Ég hef ekki getað heyrt að fólkið þar sé par ánægt með að heyra þessa röksemd. Eins og ein mæt kona tók til orða: Ég kæri mig nú ekkert um að fá einhvern skattfrádrátt á þeim forsendum að einhverjir aðrir borgi ekki til samfélagsins sem þeim ber. Nei, takk. Ég held þeim væri nær að reyna að einbeita sér að því að ná til þeirra sem sleppa við að borga það sem þeim ber til samneyslunnar en nota hana samt í botn.

Ég vil taka undir orð þessarar mætu konu og gera þau að mínum. Það þýðir ekkert að vera að reyna að slá ryki í augu fiskverkunarfólks með því að beita þeirri röksemd sem ég hef gert að umtalsefni hér og gagnrýnt. Það er einungis sýndarmennska og ekki nokkur hætta á því að það verði ekki séð í gegnum hana.

Að síðustu, til þess enn og aftur að undirstrika það sem ég hef sagt hér þó nokkrum sinnum, og verð nú að gera um það kröfu að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skilji í eitt skipti fyrir öll, undirstrika ég að ég er ekki að snúast gegn því að fiskverkunarfólk fái bætt launakjör. Ég snýst hins vegar gegn því að það geti verið á nokkurn hátt sanngjarnt að nota þá röksemd að það verði gert vegna þess að einhverjir hópar í þjóðfélaginu svíki undan skatti.