22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4405 í B-deild Alþingistíðinda. (4168)

420. mál, námslán og námsstyrkir

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Eftir nokkurt hlé eru málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna komin aftur á dagskrá Sþ. og er það vel að til þess gefst kostur að ræða þau mál áður en þingið lýkur störfum. Ég mun mæla fyrir till. til þál. um að fela hæstv. menntmrh. að fella úr gildi breytingar á reglugerð nr. 578 frá 1982, um námslán og námsstyrki, en þessar breytingar áttu sér stað með útgáfu reglugerða 3. jan. og 2. apríl s.l.

Ég mun hafa þessa framsögu mína stutta, herra forseti, með tilliti til þess að hér hefur verið dreift núna fyrir nokkrum mínútum skýrslu frá hæstv. menntmrh. um málefni lánasjóðsins og mér er tjáð að hún muni koma til umræðu þegar í kjölfar þessarar till. Ég tel því eðlilegast að hafa stutta framsöguræðu, en taka síðan þátt í þeirri umræðu þegar málið allt og þar með talin skýrsla hæstv. menntmrh. er til umræðu.

Till. þessi er 420. mál Sþ. á þskj. 774 og tillgr. felur í sér að fela menntmrh. að fella úr gildi breytingar á reglugerðinni nr. 578 frá 1982, en hún fjallar um námslán og námsstyrki, þannig að gildi taki að nýju þau ákvæði um útreikning á framfærslukostnaði námsmanna sem áður giltu, þ.e. fyrir breytinguna 3. jan. s.l.

Enn fremur er í tillgr. gerð tillaga um að Alþingi feli ríkisstj. að gera ráðstafanir með aukafjárveitingum og lántökum sem tryggja eðlilega framkvæmd laga nr. 72 frá 1982, um námslán og námsstyrki, út árið sem er að líða. Með eðlilegri framkvæmd laganna er sérstaklega átt við ákvæði 3. gr. í lögunum um námslán og námsstyrki, en það segir, með leyfi forseta, í 1. mgr. þeirra:

„Opinber aðstoð við námsmenn samkvæmt lögum þessum skal nægja hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til fjölskyldustærðar, framfærslukostnaðar þar sem nám er stundað, tekna námsmanns og maka hans, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Nánari ákvæði um úthlutun námslána og styrkja skulu sett í reglugerð“, og er það sú reglugerð sem ég hef hér þegar nefnt.

Einnig má nefna í þessu samhengi, þegar fjallað er um það sem kalla mætti eðlilega framkvæmd þessara laga, 7. gr., en þar segir í upphafi, með leyfi forseta: „Lán úr sjóðnum skulu verðtryggð.“

Ég vil halda því fram, herra forseti, að útgáfa reglugerðar hæstv. menntmrh. 3. jan. s.l. standist engan veginn þessi ákvæði gildandi laga um námslán og námsstyrki. Það er alveg ljóst í öllu falli að þessi reglugerðarsmíð er í fullkomnu ósamræmi við anda laganna eins og hann er skýrt stafaður út m.a. í 3. og 7. gr. Það verður að draga stórlega í efa að þessar breytingar standist bókstaflega ákvæði gildandi laga sem ég hef hér vitnað til.

Herra forseti. Við höfum, eins og ég hef þegar nefnt áður, rætt málefni lánasjóðsins á þessu þingi. Í umræðum utan dagskrár hér á Alþingi 30. jan. s.l. gagnrýndi ég hæstv. menntmrh. allharðlega fyrir hans frammistöðu í þessum málum og sú gagnrýni stendur enn af minni hálfu.

Það hefur reyndar komið í ljós að hæstv. menntmrh. var fremur berlæraður á þessari göngu sinni og honum hafði láðst að tryggja málstað sínum stuðning, bæði áhrifamanna í samstarfsflokknum, sem hann svo kýs að nefna, og jafnvel áhrifamanna í eigin flokki. Því ber að fagna að þessar hugmyndir, sem hæstv. ráðh. hafði uppi og talaði stórum um á nýbyrjuðu ári, hugmyndir hans og stuttbuxnasveitarinnar í kringum hann, hafa nú sofnað værum svefni og er ljóst að þær koma ekki til umfjöllunar í formi lagafrv. á þessu þingi. Það er meinalaust af minni hálfu, herra forseti.

En eftir stendur að hæstv. menntmrh. hefur þvert gegn fyrri yfirlýsingum og fyrri loforðum komið aftan að námsmönnum og skert kjör þeirra fyrirvaralaust á miðju námsári. Það er því till. okkar, flm. þessarar þáltill., að þeirri skerðingu verði kippt til baka, að virðulegt Alþingi, sem hann þiggur umboð sitt frá, feli hæstv. menntmrh. að afnema þessar reglugerðir þannig að fyrri skipan mála taki gildi að nýju. Við munum geyma okkur til næsta þings, herra forseti, eða vonandi lengur að ræða um framhaldið. En það er nauðsynlegt að einnig verði af hálfu ríkisstj. gerðar ráðstafanir til að tryggja eðlilegan rekstur lánasjóðsins út líðandi fjárlagaár.

Í grg. með þessari till. , herra forseti, eru skýrð í stuttu máli þau rök sem við flm. færum fyrir málatilbúnaði okkar og einnig gagnrýnd vinnubrögð hæstv. menntmrh. Ég mun undir lok máls míns hlaupa yfir þessa grg. þar sem ég held að það taki stystan tíma að koma megindráttum afstöðu okkar flm. á framfæri með þeim hætti, með leyfi forseta. Grg. er svohljóðandi:

„Með útgáfu reglugerðar 3. jan. s.l., sem skerti námslán, var högum námsmanna raskað á miðju skólaári þvert ofan í fyrri yfirlýsingar ráðamanna, þar á meðal menntmrh., um annað. Það er nú ljóst að ekkert verður úr fyrirhuguðum lagabreytingum sem menntmrh. hafði boðað og jafnframt virðist ljóst að hann hyggst ekki nema úr gildi skerðingarákvæði reglugerðar frá 3. jan. s.l. Þar á móti var með útgáfu viðbótarreglugerðar 2. apríl s.l. reynt að sníða mestu agnúana af fyrri reglugerð sem ráðherra var reyndar þegar bent á á Alþingi er það kom saman eftir áramót og fólust í því að skerðingin kom mjög misjafnt við námsmenn eftir námslöndum og þróun einstakra gjaldmiðla.

Ljóst er að Lánasjóður ísl. námsmanna er að fara í gegnum tímabil í sögu sinni þar sem útgjöld eru mikil og hafa verið vaxandi á sama tíma og tekjur eru enn litlar. Þetta stafar af nokkrum samverkandi orsökum, en þær helstu eru að stærstu árgangar Íslandssögunnar eru nú að ganga gegnum framhaldsskólakerfið. Fleiri fara í langskólanám en áður og nemendur í fleiri greinum framhaldsnáms njóta nú lánsréttar. Þessi mikla fjölgun viðskiptavina sjóðsins er enn að mjög litlu leyti tekin að skila til baka auknum tekjum eðli málsins samkvæmt.

Síðast en ekki síst má ekki gleyma að fyrst nú eru atborganir af verðtryggðum námslánum teknar að skila sér til baka og hertar endurgreiðslureglur aðeins að litlu leyti farnar að virka. Það er því ljóst að svo fremi sem fjárhagsstöðu sjóðsins verði ekki með skammsýni stefnt í voða með óhagstæðum lántökum er mikil fjárþörf sjóðsins nú um nokkurt árabil tímabundin og því bæði óheppilegt og óréttlátt að láta námsmenn nú gjalda þess sérstaklega.

Það er því skoðun flm. að rétt sé að starfrækja sjóðinn áfram með svipuðum hætti og gert hefur verið undanfarið og skyndilegar og lítt hugsaðar breytingar á boð við þær sem menntmrh. hefur nú gripið til með reglugerðarbreytingum séu fráleitar.

Um hitt er ekki ágreiningur að eðlilegt og þarft geti verið að fara yfir og endurskoða lög og reglugerðir um námslán og námsstyrki. Einnig væri þarft að gera vandaða úttekt á fjárhagsstöðu sjóðsins nú og spá um þróun þeirra mála þannig að yfirlit fengist yfir væntanlega fjárþörf sjóðsins nokkuð fram í tímann.

Þau vinnubrögð sem Sverrir Hermannsson núv. menntmrh. hefur viðhaft við endurskoðun laga og reglugerða um lánasjóðinn eru fráleit. Nauðsynlegt er að unnið sé að þessum málum með sem víðtækustu samstarfi námsmannahreyfinganna, lánasjóðsins, ráðuneytis og Alþingis og leitað samstöðu um allar aðgerðir í málinu.

Hvað varðar kostnað af samþykkt þeirrar till. sem hér er flutt er ljóst að hann er verulegur miðað við gildandi fjárlög og framlög ríkisins á þeim til lánasjóðsins. Þann kostnað verður ríkissjóður að bera, en benda má á að taka hagnað Seðlabanka Íslands og hlut ríkisins í arðgreiðslu Landsvirkjunar hf. til ráðstöfunar í þessu skyni. Þá mætti draga úr fjáraustri til byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og skera niður fjárveitingar til aukningar á starfsemi hernaðardeildar utanrrn. Þá eru flm. og reiðubúnir til að ræða sérstaka skattheimtu, svo sem á bankastarfsemi, stóreignamenn og fjármagnstekjur til fjáröflunar í þessu skyni.

Fyrst og fremst er þó till. þessi flutt til að koma í veg fyrir að gerræðislegar skyndiákvarðanir raski högum námsmanna og tryggja eðlilega framkvæmd laga nr. 72 frá 1982, um námslán og námsstyrki.“

Námsmenn í framhaldsskólum landsins og annars staðar eru sem betur fer fjölmennur hópur, herra forseti. Ég segi sem betur fer vegna þess að það er mikilvægt fyrir eina þjóð, sem vill auka mennt sína og mátt sinn, að ungt fólk vilji mennta sig. Það sést best á því hvað þessi hópur er nú stór, hæstv. menntmrh., hversu margir hafa á undanförnum dögum og vikum harðlega mótmælt vinnubrögðum og framgöngu hæstv. ráðh. í þessu máli. Aðilar að námsmannahreyfingunum hér innanlands hafa á nokkrum undangengnum dögum safnað á þriðja þúsund mótmælaundirskriftum eða mótmælabréfum við málatilbúnað hæstv. menntmrh. og ég hef eitt slíkt eintak undir höndum. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. menntmrh. fái þetta innan tíðar og vonandi verða þau þá orðin nokkru fleiri en 2000 eða ríflega það eins og þau voru síðast þegar ég hafði fréttir af, en undirskriftum hefur verið safnað undir svohljóðandi bréf, með leyfi þínu, herra forseti:

„Þvert ofan í fyrri yfirlýsingar um að þú komir ekki aftan að námsmönnum á miðju skólaári ákvaðst þú að frysta námslán í krónutölu miðað við framfærslu september-nóvember. Þá þegar hafði framfærslugrunnur lækkað um rúm 3%, þ.e. hann var orðinn 96,7% af reiknaðri framfærsluþörf. Þessi aðgerð brýtur í bága við 3. gr. laga um námslán og námsstyrki þar sem segir:

„Opinber aðstoð við námsmenn samkvæmt lögum þessum skal nægja hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði.“

Afleiðingar reglugerðarinnar frá 3. jan. eru nú þegar orðnar 7,5% niðurskurður og munu námslán halda áfram að skerðast því sem verðbólgu nemur.“

Og síðan kemur undirskrift: „Ég undirritaður námsmaður skora á þig, Sverrir Hermannsson, að nema nú þegar úr gildi fyrrgreinda reglugerð frá 3. jan. s.l. [Nafn, nafnnúmer og skóli]".

Eins og ég hef þegar sagt hafa á þriðja þúsund námsmenn nú þegar skrifað undir svohljóðandi mótmælabréf og vitað er að mun fleiri bréf eru að berast að og þeim verður væntanlega komið á sinn stað til hæstv. menntmrh. fyrr en seinna.

Ég vil einnig til marks um þessi mótmæli vitna í ályktun sem nýkjörið stúdentaráð samþykkti einróma á fundi sínum 20. apríl s.l. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nýkjörið stúdentaráð harmar það óðagot sem einkennt hefur framgöngu menntmrh. í málefnum LÍN. Lánasjóðurinn er undirstaða jafnréttis til náms og að þeim grundvallartilgangi má alls ekki höggva.“ Eigi skal höggva, hæstv. menntmrh.

„Hroðvirkni sú sem einkennt hefur umræðu um LÍN er ekki til þess fallin að gera starfsemi LÍN markvissari. Reglugerðarbreyting menntmrh. frá 3. jan. 1986 veldur því að endar ná ekki saman hjá námsmönnum. Því krefst stúdentaráð Háskóla Íslands þess að breytingin verði látin ganga til baka.

Jafnframt er það einsdæmi að ráðherra skuli í sjónvarpi hafa jafnærumeiðandi ummæli um hóp í þjóðfélaginu eins og gerðist miðvikudaginn 18. apríl s.l. Námsmenn munu ekki taka slíkum svívirðingum þegjandi.“

Lýkur þar þessari ályktun sem stúdentaráð samþykkti einróma á fundi sínum 20. apríl s.l.

Ég vil enn fremur minna á þau mótmæli sem íslenskir námsmenn erlendis hafa haft í frammi og ég hygg að flestir hv. alþm. kannist við því að talsvert hefur verið um póst frá þeim ágætu mönnum í pósthólf okkar þm. undanfarna daga og eru þar á ferðinni hundruð undirskrifta við mótmælabréf og mótmælaskeyti svipaðs eðlis og þau sem ég hef nú þegar gert grein fyrir.

Ég vil svo enn ítreka mótmæli mín við allri málafylgju hæstv. menntmrh. í þessu máli, en það er e.t.v. eðlilegt, eins og ég sagði í upphafi, herra forseti, að við ræðum það betur þegar hæstv. menntmrh. hefur gert grein fyrir skýrslu sinni. Ég vil þó sérstaklega benda á að þessi flumbrugangur hæstv. ráðh. hefur m.a. leitt til þess að til viðbótar skerðingunni, sem er auðvitað veruleg orðin á lánunum sem nú er verið að úthluta eða nú ætti að vera búið að úthluta samkvæmt venju, hefur komið umtalsverð töf vegna þess að reglugerðarsmíð ráðherrans hefur verið það seint á ferðinni og það illa ígrunduð og undirbúin að lánasjóðurinn hefur ekki séð sér fært að afgreiða námslánin á eðlilegum tíma í ljósi þeirra breytinga. Þar af leiðandi hefur nú þegar orðið umtalsverð töf á úthlutun námslánanna sem kemur sér illa og alveg sérlega þegar hún kemur til viðbótar þeirri skerðingu sem raun ber vitni.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er þinglegt að gera um það till. að þessi þáltill. gangi ekki til nefndar vegna aðstæðna í þinginu, en ég hefði í sjálfu sér talið það langeðlilegast, þar sem hér er í sjálfu sér um tiltölulega einfalda tillgr. að ræða og þingmál sem liggur nokkuð ljóst fyrir og hefur þegar fengið umtalsverða umfjöllun á Alþingi, að till. yrði tekin til síðari umræðu og afgreiðslu og að því stefnt að vísa henni sérstaklega til nefndar þannig að afstaða hv. alþm. mætti liggja fyrir í þessu máli áður en Alþingi lýkur störfum.

Umr. (atkvgr.) frestað.