22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4409 í B-deild Alþingistíðinda. (4169)

Skýrsla menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef útbýtt meðal þm. greinargerð um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég mun í flutningi reyna að stytta mál mitt af því sem tímaþröng er orðin augljós hér á hinu háa Alþingi. En ég taldi hins vegar nauðsyn bera til að leggja spil þessa máls á borðið svo að menn gætu séð með eigin augum hversu mjög hefur verið hallað til um alla málafærslu og mátti heyra hér á síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Norðurl. e., að hann hjó þar í sama knérunninn og er hér notaður til að flytja skilaboðin inn og gerir það skilvíslega án þess að dæma neitt um þau sjálfur.

Núverandi fyrirkomulag aðstoðar við íslenska námsmenn hefur verið lítt breytt frá árinu 1976, en þá voru gerðar mjög róttækar breytingar á lögunum um námsstyrki og námslán. Endurgreiðslureglur voru stórlega hertar með verðtryggingarákvæðum og möguleikar námsmanna til að njóta verulegrar aðstoðar úr Lánasjóði ísl. námsmanna voru mjög auknir.

Sérfræðingar töldu að með breyttum endurgreiðslureglum mundu heimtur hjá sjóðnum aukast, en áður hafði óverulegur hluti útlána sjóðsins í raun endurgreiðst vegna lágra vaxta og mikillar verðbólgu. Með lögunum frá 1976 var stefnt að 66% endurgreiðslum af heildarútlánum sjóðsins eins og það var þá reiknað út. Með lögunum frá 1982 virðist löggjafinn hafa ætlast til að lánin endurgreiddust að mestu leyti, eða vel yfir 95%.

Í stuttu máli má segja að einstæð kjör námslána, léleg endurheimta þeirra og ófyrirséð fjölgun námsmanna hafi valdið því að málefni lánasjóðsins hafa farið úr böndum. Mjög mikil ásókn er í rífleg lán sem enga vexti bera og lánþegar vita að verulegur hluti lánanna verður auk þess afskrifaður vegna endurgreiðslureglna. Eftirfarandi eru þær helstu breytingar sem ég hef lagt til að gerðar yrðu á gildandi lögum um námslán og námsstyrki:

1. Lagt er til að það sé skýrt afmarkað í lögum um lánasjóðinn hverjir teljist vera í aðstoðarhæfu námi. Þannig hafi reglugerðargjafi ekki lengur heimild til að kveða á um lánshæfni tiltekinna skóla eða einstakra árganga þeirra eins og er í gildandi lögum.

2. Í núgildandi lögum er verulega litið til tekna námsmanns og maka hans við ákvörðun lánsfjárhæðar. Hefur þetta átt að vera til þess að draga úr lánveitingum. Einnig hafi þeir sem afla verulegra tekna í leyfum og með námi næg fjárráð til að framfleyta sér og þurfi því ekki aðstoðar lánasjóðsins við. Þetta hefur verið gagnrýnt mjög og verið afar óvinsælt meðal námsmanna. Hefur verið bent á ýmislegt sem mæli gegn þessu fyrirkomulagi:

Námsfólki er í raun refsað fyrir að vinna. Þeir sem minnstar tekjur hafa, venjulega vegna þess að þeir vinna minnst, fá hæst lán á afar hagstæðum kjörum sem gæti orðið að styrk að verulegu leyti. Afleiðingin er sú að námsmenn hafa margir misst tilfinningu fyrir nauðsyn og mikilvægi vinnunnar og standa frammi fyrir því að geta ekki bætt hag sinn með því að leggja harðar að sér.

Slæm uppeldisleg áhrif þessa eru auðsæ. Æskufólk er alið upp við þau sjónarmið að vinna og verðmætasköpun séu af hinu illa. Þetta hefur aftur þau áhrif að sumarvinna námsfólks og önnur vinna með námi minnkar mikið og leggst jafnvel af þegar til lengri tíma er litið. Þannig geti hugsanlega rofnað þau mikilvægu tengsl skólafólks við atvinnulífið sem myndast hafa á undanförnum árum og áratugum og sem sumir hafa jafnvel talið eitt af megineinkennum íslenskra námsmanna og kost.

Einnig hefur verið bent á aðstöðumun þeirra sem njóta fjárstuðnings aðstandenda og þeirra sem algerlega verða að standa á eigin fótum. Þannig geta þeir sem ekki njóta stuðnings aðstandenda, sem yfirleitt kemur hvergi fram í opinberum skýrslum, ekki bætt hag sinn með vinnu nema að því leyti sem tekjurnar dragast ekki frá láni. Þá má og benda á það að niðurfelling tekjutillits við ákvörðun námslána einfaldar mjög ákvörðun lánasjóðsins svo sem allt eftirlit með tekjum námsmanna og maka þeirra, sem verið hefur mjög umfangsmikið, og útreikninga á lánsupphæð. Þetta er og til þess fallið að flýta mjög allri afgreiðslu lána og gæti dregið verulega úr rekstrarkostnaði skrifstofu lánasjóðsins.

Þá vil ég í þriðja lagi nefna um fjárhæðir námslána og úthlutunarreglur að einstakar lánsfjárhæðir hljóta annars að ráðast helst af tvennu: ráðstöfunarfé sjóðsins til lána og fjölda umsókna. Fjölda lánþega má sjá fyrir á hverju ári með nokkurri nákvæmni. Það verður því í raun Alþingi sem ræður fjárhæð námslána með fjárveitingu sinni þar til endurgreiðslur eldri lána eru orðnar það miklar að þær standi að verulegu leyti undir útlánum.

Lagt er til að stjórn sjóðsins verði skyldug til þess, að fengnu samþykki ráðherra, að setja eigi síðar en 1. febrúar ár hvert reglur um það hvernig fjárhæð einstakra lána og styrkja ákvarðast með hliðsjón af heildarráðstöfunarfé sjóðsins og áætluðum fjölda lánþega. Er þetta gert til að reyna að tryggja að námsfólki megi vera ljóst í tíma hvers það megi vænta í aðstoð frá sjóðnum á komandi skólaári.

Þá er í fjórða lagi gerð tillaga um að breytt verði skipan stjórnar lánasjóðsins. Er m.a. lagt til að eftirtaldir aðilar fái aðild að stjórninni: Háskólaráð sem stjórn æðstu menntastofnunar landsins, Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands sem mikilvægir aðilar vinnumarkaðarins. Lagt er til að skipunartími stjórnarmanna verði sem hér segir: Fulltrúar námsmanna, háskólaráðs, ASÍ og VSÍ verð skipaðir til tveggja ára. Skipunartími ráðherrafulltrúanna styttist úr fjórum árum í tvö, en auk þess takmarkist skipunartími þeirra af embættistíma af embættistíma menntmrh. og fjmrh.

Ástæðan fyrir þessari breytingu er fyrst og fremst sú að mjög nauðsynlegt er fyrir lánasjóðinn, viðskiptamenn hans og ráðuneytin að náið og gott samband sé með nefndum stjórnarmönnum og viðkomandi ráðherrum vegna þess hve veigamikil áhrif sjóðurinn hefur á framkvæmd mennta- og fjármálastefnu stjórnvalda. Rök fyrir lengri skipunartíma eru fyrst og fremst þau að tryggja þurfi sem kostur er að stjórnarmenn safni reynslu og þekkingu sem ekki fáist með skammri stjórnarsetu, en á hinn bóginn má auðvitað benda á að ráðherra getur valið sömu menn aftur og endurskipað þá til starfans.

Þá vil ég nefna í fimmta lagi að ég hef lagt til að tekið verði lántöku- og innheimtugjald sem standi undir kostnaði af lánveitingum og innheimtustarfsemi sjóðsins. Ástæður til þess að sú gjaldtaka er lögð til eru eftirfarandi:

Það er almenn regla að lántakendur greiði kostnað vegna lántöku, sem dregin er frá útborguðu láni, og innheimtunnar sem bætist þá við afborgun til að standa undir starfseminni. Eðlilegt er að námsmenn séu með undir þeim hatti. 1% lántökugjald er talið hæfilegt og hefur verið höfð hliðsjón af lántökugjaldi opinberra lánasjóða. Þannig verður og rekstrarfé sjóðsins skýrt aðgreint frá því fé sem ætlað er til lánveitinga og styrkja og veitir jafnframt aðhald í rekstri lánasjóðsins. Lagt er til að ríkissjóður greiði sérstaklega fyrir aðra starfsemi sjóðsins en vegna útlána og innheimtu.

Í sjötta lagi nefni ég að samkvæmt þessum nýju tillögum er Alþingi gert að ákveða á fjárlögum hverju sinni hversu miklu fé skuli verja til námslána. Þannig yrði fjárveiting Alþingis til lánasjóðsins væntanlega a.m.k. þríþætt: í fyrsta lagi fé til námslána, í öðru lagi fé til námsstyrkja og í þriðja lagi fé til að standa undir reksturskostnaði. Samþykki þingið þannig lág framlög og litlar lánsfjárheimildir til handa lánasjóðnum, hvort sem er til styrkja eða lánadeildar hans, verða stjórn sjóðsins og ráðherra að taka tillit til þess við úthlutun úr báðum deildum hans og þrengja skilgreiningar á aðstoðarhæfni og rýmka þegar Alþingi veitir meiru fé til sjóðsins. Með þessum ákvörðunum er auðvitað verið að vísa til þess að Alþingi getur ekki skotið sér hjá því hverju sinni að taka endanlegar ákvarðanir um hversu miklu fé skuli varið til þessara þarfa og að menn viti fyrir fram að hverju þeir ganga.

Ég nefni í sjöunda lagi að í núgildandi lögum eru heimildarákvæði fyrir stjórn lánasjóðsins til þess að veita þeim sem eru að hefja lánshæft nám víxillán til bráðabirgða sem síðan breytist í skuldabréfalán ef námsmaður uppfyllir kröfur um námsárangur. Nú er lagt til að þeir sem hefja lánshæft lán eigi rétt á sérstöku skuldabréfaláni til tveggja ára sem er bundið lánskjaravísitölu og ber hæstu lögleyfða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabankans á hverjum tíma. Ef námsmaður stenst kröfur um námsárangur á fyrsta misseri innan tólf mánaða frá útgáfu bréfsins getur hann breytt því í venjulegt námslán. Standist námsmaður ekki kröfur um námsárangur greiðist bréfið upp á næstu tólf mánuðum.

Námsmenn hafa lengi barist fyrir því að fyrsta árs nemar og aðrir sem eru að hefja lánshæft nám skuli eiga rétt á námsláni. Nú þykir óhætt með hliðsjón af tillögum um hertar endurgreiðslur og vaxtatöku af námslánum að leggja framangreint fyrirkomulag til. Reynsla sýnir og að fremur lítill hluti þeirra sem fengið hafa bráðabirgðalán standast ekki námskröfur.

Hér er um að tefla að mínum dómi mikilvægt réttindamál og það er mjög erfitt að sætta sig við það að geta ekki náð því í framkvæmd vegna skammsýni manna sem ekki vilja ganga til samninga um þá breyttu tilhögun sem hér er verið að leggja til í stærstu dráttum.

Ég vil taka fram að það er lagt til að í hin nýju lög verði sett ákvæði sem skylda lánasjóðinn til að tilkynna lánþegum við hverja úthlutun láns hver heildarnámsskuld þeirra er og hver muni verða árleg greiðslubyrði vegna þess. Þetta er gert til þess að námsmenn fylgist vel með skuldastöðu sinni og leggi mat á lánsþörf sína með hliðsjón af því.

Vík ég þá að vöxtum, en lagt er til að námslán beri 3,5% ársvexti auk verðtryggingar skv. lánskjaravísitölu eins og verið hefur. Lánið er vaxtalaust á námstíma, en upphafstími vaxta miðast við námslok. Vextir á tímabilinu frá námslokum til upphafstíma endurgreiðslu leggjast við höfuðstól. Höfuðstóll námsláns við upphaf endurgreiðslutímans verður því heildarlán til námsmanns, vísitölubundið frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að einstakir hlutar láns eru greiddir út, eins og verið hefur, að viðbættum 3,5% ársvöxtum í þrjú ár.

Ég hef tekið það fram í samningaumleitunum um þessi mál að ég hef lýst mig reiðubúinn til þess að ræða um vexti á einhverjum lægri nótum án þess þó að ég sjái ástæðu til þess nú og eins og á stendur að tilgreina það frekar.

Um vaxtatöku af námslánum gilda að sjálfsögðu öll almenn rök um töku vaxta í lánsviðskiptum. Vegna vaxtaleysis námslánanna má gera því skóna að ástæða fyrir gífurlegri ásókn í námslán hafi verið óeðlilegur mismunur kjara þeirra og annarra lána í þjóðfélaginu, en eins og kunnugt er hafa orðið miklar breytingar á fjármagnsmarkaði á allra síðustu árum og hafa raunvextir útlána í mörgum tilfellum hækkað mikið. Kjör námslána eru því færð í samræmisátt.

Þá er lánasjóðnum það afar nauðsynlegt að hann verði sem fyrst fjárhagslega sjálfstæður og standi án framlaga undir útlánum og verði jafnframt síður háður þeim sveiflum sem efnahagskerfi okkar Íslendinga hefur mátt búa við. Sjóðurinn notar lánsfé sem ber háa vexti og er þar að auki í mörgum tilfellum gengistryggt. Þetta fé hefur verið lánað vaxtalaust og hafa vaxtagjöld því verið lánasjóðnum töluverður baggi og skert möguleika sjóðsins til að byggja upp höfuðstól sinn. Vaxtatekjur á borð við þær sem lagðar eru til í þessu frv. munu létta vaxtabyrði sjóðsins.

Vegna þess hve hagur þjóðfélagsins af háu menntunarstigi er mikill er talið rétt að námslán beri lægri vexti en markaðsvexti þannig að þau séu ætíð með hagstæðustu lánum. Benda má á að vaxtaleysi lánanna á námstíma kemur þeim sérstaklega til góða sem fara í langt nám.

Í tíunda lagi nefni ég að lagt er til að tveimur árum eftir námslok falli öll veitt námslán sjálfkrafa í gjalddaga og eru þá möguleikar lánþega tveir: í fyrra lagi að greiða lánið upp eða að gefa út skuldabréf með heildarnámsskuldinni eins og hún stendur þá og með yfirlýsingu tveggja manna um að þeir taki að sér sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins. Þannig er farið fram á tvo ábyrgðarmenn til handa lánasjóði þegar endanlega er gengið frá skuldabréfi á þennan hátt. Endurgreiðslur skuldabréfa skulu hefjast þremur árum eftir námslok og er það óbreytt frá gildandi lögum.

Lagt er til að endurgreiðslutími námslána verði styttur úr 40 árum í 30 ár. Fallið verði frá tekjutengingu afborgana en þær í þess stað miðaðar við höfuðstól námsskuldarinnar. Auk þess er lagt til að lánin endurgreiðist öll að fullu. Stjórn sjóðsins hefur þó víðtækar undanþáguheimildir til að veita greiðslufresti á afborgunum eða fella niður lán eða hluta þess þegar sérstaklega stendur á hjá lánþega.

Eins og fram kemur í skýrslu sem ég hef látið Steingrím Ara Arason hagfræðing vinna telur hann að 85,2% af útlánum lánasjóðsins endurgreiðist skv. gildandi lögum. Er það líklega meira en 10°/ lægra endurgreiðsluhlutfall en gert var ráð fyrir er núgildandi lög voru samþykkt.

Endurgreiðsla námslánsins verði á svonefndum annuitets-grundvelli sem þýðir að hver afborgun allan endurgreiðslutímann er jafnhá að raungildi. Um verði að ræða lágmarksafborgun sem stuðlar að því að lægri fjárhæðir endurgreiðast á styttri tíma en 30 árum.

Hvað endurgreiðslutímann varðar er lagt til að hann verði styttur um tíu ár frá því sem nú er. Lán til 30 ára hlýtur að teljast gott lán að því leyti og spurning hvort mikið lengra lán þjóni nokkuð hagsmunum lántakenda þar eð ævidegi flestra yrði þá tekið að halla og starfsþrek og vinnutekjur væntanlega farnar að dragast saman. Telja verður að flestir ljúki námi sínu á tímabilinu 25-35 ára. Þannig ljúka þeir endurgreiðslu 30 ára lána á aldrinum 58-68 ára.

Kostur við það að nota annuitets-regluna er sá að allar afborganir verða jafnháar að raungildi í stað stiglækkandi greiðslna eins og tíðkast um almenn skuldabréf, auk þess sem útreikningur er afar einfaldur og auðvelt er að gera sér glögga grein fyrir væntanlegri greiðslubyrði.

Lagt er til að árlegum gjalddögum verði fjölgað úr tveimur eins og nú er í fjóra. Er það gert til þess að jafna greiðslubyrðinni á árið.

Ég nefni í ellefta lagi námsstyrki, en stikla á stóru þar. Er lagt til að þeir verði þrenns lags: Í fyrsta lagi ferðastyrkir til námsmanna sem eru í lánshæfu námi og verða að stunda það fjarri heimilum sínum og eru svipaðir og þeir styrkir sem veittir eru nú skv. gildandi lögum, í öðru lagi er lagt til að veittir verði námsstyrkir til framhaldsnáms á háskólastigi og í þriðja lagi námsstyrkir til þeirra sem ljúka lokaprófi á framhaldsskólastigi með sérstaklega góðum árangri. Þetta er þó mál sem þarf sérstaklega að vanda til þannig að ekki verði hætta á misnotkun, enda gert ráð fyrir því að lánasjóðurinn geri jafnan opinberlega grein fyrir því hverjir hljóta slíka styrki.

Ég hef þá, herra forseti, lokið við að skýra í stórum dráttum frá innihaldi þess frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna sem ég mun áfram beita mér fyrir að lögfest verði á Alþingi. Af þessari greinargerð mega menn sjá að sá áróður sem uppi hefur verið hafður um aðför mína að námsmönnum er auðvitað óhróður út í hött. Við ætlum að halda áfram að greiða götu námsmanna með það fyrir augum að jafna aðstöðu allra til náms og að girða fyrir að nokkur verði af námi fyrir fátæktar sakir.

Ég mun nú, þó ég reyni að stytta mál mitt, stikla á örfáum atriðum um stöðu lánasjóðsins og vík þá fyrst að reglugerðarbreytingunum sem mjög eru á orðum hafðar, en þær eru tvenns lags, frá 3. jan. og frá 2. apríl.

Vegna umræðna um áhrif reglugerðarbreytinganna á námslán vil ég nefna niðurstöður samanburðar á þessum áhrifum á grunnframfærslu í fjórum löndum á námsárinu 1985-1986 í heild miðað við níu mánaða námstíma. Þar er munurinn í prósentum: Fyrir Ísland 7,11%, fyrir Bandaríkin 4,33%, fyrir og eftir reglugerðarbreytingu, fyrir Danmörku 6,05% og fyrir Vestur-Þýskaland 5,75%. Síðari reglugerðin var til þess sett að jafna mismun milli landa þar sem þróun gjaldeyris hafði orsakað allmikinn mismun á kaupgetu námsáranna. T.d. hafði hún aðeins hækkað í Bandaríkjunum en lækkað verulega í ýmsum Evrópulöndum eins og til að mynda Vestur-Þýskalandi. Þetta er allt og sumt sem um er að tefla í sambandi við áhrif reglugerðarbreytinganna.

Þá vil ég geta þess að þær áætlanir sem gerðar höfðu verið, bæði við fjárlagaafgreiðslu og í áætlun lánasjóðsins við fjárlagagerðina, hafa tekið verulegum breytingum frá því sem þá var miðað við bráðabirgðaáætlun lánasjóðsins nú í apríl. Ég tek þó fram að þessum áætlunum þarf að taka með fyrirvara um sinn því að ekki eru e.t.v. öll kurl komin til grafar. Í áætlun LÍN við fjárlagagerð var gert ráð fyrir að fjárþörf hans væri 1 milljarður, 988,1 millj. kr. Nú aftur á móti, vegna áhrifa reglugerðarbreytinganna og þó einkum og sér í lagi vegna áhrifa af breyttum spám um fjölda námsmanna, er gerð áætlun um að fjárþörfin sé 1 milljarður 607,2 millj. kr. Áætlanir um tekjur sjóðsins eru óbreyttar eða 1 milljarður 349,5 millj. kr. Samkvæmt áætlun lánasjóðsins frá fjárlagagerð, ef ekkert hefði breyst frá þeim tíma, hefði fjárþörfin nú numið 638,6 millj. kr., en samkvæmt nýrri bráðabirgðaáætlun er fjárþörfin talin nema 257,7 millj. kr. Samkvæmt þessari niðurstöðu þarf ríkisstj. og Alþingi að sjá fyrir á hausti komanda um það bil 258 millj. kr. fjárútvegun vegna Lánasjóðs ísl. námsmanna og hlýt ég nú, til að eyða allri óvissu, að lýsa yfir að ég mun beita mér fyrir að svo muni verða gert, enda hef ég samþykki ríkisstj. fyrir þessari yfirlýsingu frá fundi hennar í morgun.

Það hefur verið unnið mjög hörðum höndum að breyttu skipulagi á starfrækslu skrifstofu lánasjóðsins. Breytingar á stjórnskipulagi og verkaskiptingu eru að talsverðu leyti komnar til framkvæmda og gert er ráð fyrir að þeim verði að mestu lokið 1. júní n.k. Markmið þessara breytinga er að gera verkaskiptingu markvissari þannig að vinnsluhraði og skilvísi í vinnslunni vaxi og skil verkþátta verði eðlilegri en nú er.

Megináhersla hefur verið lögð á að bæta þjónustu sjóðsins við námsmenn, auka og bæta upplýsingar til þeirra og tryggja þeim fljóta og greinargóða afgreiðslu mála sinna. Það hefur m.a. verið gert með stórbættri og stóraukinni afkastagetu símakerfis sjóðsins og með margháttuðum öðrum ráðstöfunum.

Í afgreiðslu lánasjóðsins hafa á undanförnum árum verið tíð mannaskipti og í raun hafa í þessum erfiðu störfum verið þeir starfsmenn sjóðsins sem hafa minnsta reynslu og þekkingu á starfseminni. Til að bæta hér úr er nú í undirbúningi breyting á verkaskiptingu sem miðast við að afgreiðsla verði í höndum þeirra starfsmanna sem reynslu hafa. Unnið er að endurhönnun svokallaðra reiknimiða í þeim tilgangi að gera þær upplýsingar, sem koma þar fram um útreikning námslána, aðgengilegri og skiljanlegri fyrir námsmenn. Sömuleiðis stendur yfir endurhönnun á umsóknareyðublöðum og öðrum fylgiblöðum sem tengjast lánsumsóknum í þeim tilgangi að fækka þeim og auðvelda notkun þeirra.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þjónustu lánasjóðsins. Um hana hafa námsmenn sjálfir borið greinilegust vitni. Þeir hafa opinberlega lýst því yfir að þeir hafi talið hana að sumu leyti alræmda. Ég ætla engum orðum fleiri að fara um það. Ég hafði að vísu reynslu á árum áður af starfsemi þessa sjóðs. Ég slapp tiltölulega óskaddaður frá þeirri viðureign, en margur hefur aðra sögu að segja. Fyrir því er það að á það hlýtur að verða lögð mjög mikil áhersla að breyta til hins betra í starfsemi sjóðsins.

Tölvuvæðing hefur verið framkvæmd, en rétt er að geta þess líka, vegna þess sem kom fram frá hv. síðasta ræðumanni, að vegna útreikningsforrits hefur orðið tíu daga töf á afgreiðslu lána núna í apríl. Við skulum vona að það komi ekki að örlagaríkri sök, enda áreiðanlega ekki í fyrsta skiptið sem menn hafa mátt reyna verulegar tafir á afgreiðslu lána hjá Lánasjóði ísl. námsmanna.

Þá er að geta þess að ég hef gefið fyrirmæli um og raunar tekist upphaf viðræðna við Landsbanka um hvort og þá hvernig megi auka þátttöku bankakerfisins í starfsemi sjóðsins.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum láta í ljós þá von mína að við hér á hinu háa Alþingi berum gæfu til að finna farsæla lausn á þessu máli og látum þá nauðsyn ganga fyrir pólitískri skákmennsku í atkvæðatafli. Við ætlum að styrkja og styðja íslensk ungmenni til náms af því sem það er áreiðanlega arðgæfasta fjárráðstöfun sem hugsast getur. En það er öllum fyrir bestu að agi og regla sé á öllum fjármálareiðum. Fyrir því mun ég beita mér af fullri hörku og er þess fullviss að við munum ná höndum saman við námsfólk um skipan mála sem öllum verður fyrir bestu.