22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4432 í B-deild Alþingistíðinda. (4193)

Skýrsla menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég veit að forseti hefur mjög þröngt um hendur tímans vegna og fyrir því er það að ég mun stytta mál mitt. En ég vil af gefnu tilefni taka fram það sem segir á fyrstu bls. í skýrslu minni um lánasjóðinn að ég er ekki þar með ávirðingar í garð fyrrv. hæstv. menntmrh. þegar ég tek fram að hann hafi skipað nefnd til þess að gaumgæfa starfsemi og reglur LÍN. Það stendur að svo hafi viljað til að samvinnuflokkur okkar, Framsfl., hafi ekki átt mann í þessari nefnd. Þetta var stjórn lánasjóðsins, en þannig vildi til að fulltrúi Framsfl., og trúlega formaður stjórnarinnar þá, sagði af sér í því bili. Þess vegna er það ekki að hér sé hæstv. fyrrv. menntmrh. og núv. heilbrrh. hafður að neinum blóraböggli. Það vil ég taka skýrt fram.

Ég þarf ekki mörg orð að hafa til andsvara við þeim fullyrðingum sem hér hafa komið fram og þeim málflutningi sem hv. 4. þm. Norðurl. e. tíðkar yfirleitt né heldur Kvennalistinn. Því hefur margsinnis verið svarað. Hv. 4. þm. Norðurl. e. vísar því á mig að ég hafi haft uppi fullyrðingar um slæm viðskipti námsmanna við lánasjóðinn. Ég bendi honum á að lesa sitt eigið blað, Þjóðviljann. Í honum stóð, haft eftir námsmönnum, að þessi sjóður og starfsemi hans væri alræmd vegna þjónustu við námsmenn. Hann ætti að æfa sig í að lesa það guðspjall sem þar gefur að líta. Hann segir að þetta sé því að kenna að sjóðurinn hafi verið undirmannaður. Hann ætti að kynna sér hversu lengi félagi hans, hv. 3. þm. Norðurl. v., hefur verið fjmrh. Hann hefur töluvert með þessi mál að gera og Fjárlaga- og hagsýslustofnun, en sex voru stöðugildin sem sjóðurinn hafði en starfaði með 25 manns samt, launað af lánsfé sjóðsins. Allt þetta hefði hann getað kynnt sér ef hann hirti eitthvað um staðreyndir í þessu sambandi. Ég held þess vegna að það sé ekki rétt fullyrt hjá honum þegar hann segir að þverskallast hafi verið við að lofa sjóðnum að ráða starfsfólk. Þetta snýr allt saman öfugt í munni mannsins þegar hann hefur uppi orðræður sínar um sjóðinn af því að hann hefur ekki nennt að kynna sér þetta. Hann þekkir ekkert nema til þess sem hann sjálfur mun hafa fengið einhverja fyrirgreiðslu á sínum tíma til þess að stunda nám sitt. Hann veit ekki betur um það hvernig reglugerðir eru en hann fullyrðir eða hefur á orði að ég kannske gæti tekið upp á því að setja reglugerð um afnám allra námslána. Reglugerðir verða að fara eftir innihaldi laga og geta ekki verið öðruvísi. Þær eru frekari útlistun og túlkun á lögum. Það ætti hann að kynna sér áður en hann hefur þessar fullyrðingar uppi. Annars skildist mér á ræðu hans að hún væri meira svona til skemmtunar en það að maður ætti að taka hana alvarlega.

Það var enginn að tala um að það hafi verið ófyrirséð fjölgun námsmanna. Ég var að tala um og hef verið að tala um þær áætlanir sem voru uppi hafðar þegar lögin frá 1982 voru sett. Það hefur ekki gengið eftir sú áætlun og ekkert við því að segja. En ekki var það fyrir séð þá og eftir þeim spádómum sem lágu þá fyrir.

Ég spyr: Ef svo vill til hjá námsmanni að hann getur séð fyrir sér sjálfur, er þá einhver hætta á því að hann sæki samt sem áður í lánsfé? Ef einhver getur og hefur fé handa í milli til að sjá fyrir sér og sínum, getur unnið fyrir sér eða með öðrum hætti hefur fé til ráðstöfunar, hvers vegna sækir hann þá í að safna sér lánum? Vill einhver gefa skýringu á þessu? Auðvitað blasir skýringin við. Auðvitað blasir hún við. Allir sækja í peninga, ókeypis peninga ef þeir geta komist yfir þá til þess að ráðstafa þeim þá öðruvísi. (SJS: Eru þetta gjafir, hæstv. menntmrh.?) Það er ekki verið að álasa neinum fyrir það þó þeir sæki í slíka sjóði. Við höfum of mörg dæmi um þetta. (JBH: Kommissar í Framkvæmdastofnun getur trútt um talað.) Við höfum of mörg dæmi um þetta. Þú fórst nú mörgum orðum, hv. 5. þm. Reykv., um hegðan manna í Framkvæmdastofnun án þess nokkurn tíma að hafa fyrir því að kynna þér þetta. (JBH: O-jæja.) Ekkert nema glannafengnar yfirlýsingar sem helst voru hirtar upp úr Alþýðublaðinu og samdar af mönnum sem við þurfum ekki lengur að nefna.

Ég stytti enn mál mitt, herra forseti, af ástæðum sem eru auðskildar. Ég vil svara því til að ég mun beita mér fyrir því að samtök námsmanna muni eiga áfram aðild að stjórn sjóðsins. Það var spurt beint um það og svarið er þar með gefið.

Ég ætla ekki að bæta neinu við um það sem áður hefur verið rætt um að peningar gefast ekki hér, svo að ég viti, ókeypis á Íslandi frekar en annars staðar. Ég vil hins vegar taka afstöðu til þess fyrir fram, ef menn vilja setja upp styrkjakerfi, að hve miklu leyti menn vilja verja háum fjárhæðum til styrkja. Það blöskrar hv. ræðumönnum. Ég að vísu undanskil alveg hv. 5. þm. Reykv. því að allt hans tal var mér mjög að skapi og við eigum greinilega mjög samleið í afstöðu okkar til málsins. En þeim alveg ofbýður að hér skuli eiga að fela hinu háa Alþingi í hendur að ákveða hversu mikið sjálft æðsta vald í þessum efnum treystir sér til að verja í þessu skyni árlega. Það á bara að vera eftir einhverjum öðrum þörfum sem fjárstreymið á að eiga sér stað. Auðvitað verður hið háa Alþingi að taka ákvörðun og við verðum að haga okkur eftir því hverju sinni. En við skulum gera okkur vonir um að sú stefna verði uppi að séð verði fyrir þörfum námsmanna að svo miklu leyti sem menn geta orðið sammála um það, a.m.k. að mínu leyti, þar sem ég hef margtekið fram að stefnan er sú að jafna aðstöðu manna til náms og að enginn þurfi að sitja af sér nám fyrir fátæktar sakir.

Ég nenni ekki og hirði ekki um að fara yfir útreikninga hv. þm. á tölum, en reglugerðarbreyting mín hafði þau áhrif að á Íslandi í níu mánuði lækkar þetta um 1600 kr. á mánuði, í Bandaríkjunum um 1445, í Vestur-Þýskalandi 1227 o.s.frv. Ég legg áherslu á það, sem fram kom hjá hv. 5. þm. Reykv. Jóni Baldvini Hannibalssyni, að það er ekki bærileg tilhugsun að við aukum erlendar skuldir ok.kar til þess að standa undir lánsfé til námsmanna. En ég er þó ekki þar með að segja að það þurfi ekki að grípa til þess og þegar hv. 7. landsk. þm. Kristín Halldórsdóttir heldur því fram að hagsmunir lánasjóðsins og námsmanna fari ekki saman, þá undrast ég slíkan málflutning. Að styrkja lánasjóðinn og gera hann sterkan og öflugan til þess að standa undir þessum þörfum í framtíðinni hljóta að vera beinir hagsmunir námsmanna.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en ég ítreka það að mönnum liggur það mikið á að koma pólitískum höggum á andstæðingana að þeir gá ekki að sér í málsútlistun. Og virðist vera tilgangslítið á stundum að hafa uppi brýningar um þá stefnu sem menn vilja leggja áherslu á í framkvæmdinni því að öllu er öfugt snúið fyrir þeim í málflutningnum. Og fór raunar hv. 5. þm. Reykv. mátulegum orðum um málflutning hv. 4. þm. Norðurl. e.