22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4439 í B-deild Alþingistíðinda. (4197)

Úthlutun raðsmíðaskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram að afgreiðsla á lánsbeiðnum í Byggðasjóði vegna Útgerðarfélags Kópaskers hafi verið óeðlileg. Þetta er nauðsynlegt að leiðrétta og þessi umræða utan dagskrár gefur mér kærkomið tækifæri til þess. Þessi eru helstu atriði málsins:

1. Rækjuverksmiðjan Sæblik hf. á Kópaskeri hefur lengi átt við rekstrarörðugleika að stríða sem valdið hafa langvarandi atvinnuleysi.

2. Meiri hluti stjórnar Byggðastofnunar hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn til að leggja fram fé sem hlutafé eða að láni til að tryggja hráefnisöflun til rækjuverksmiðjunnar á Kópaskeri.

3. Varðandi kaup á raðsmíðaskipi af Slippstöðinni á Akureyri er nauðsynlegt að hafa í huga: Kaupverðið var 172 millj. kr. og skyldi það fjármagnað með lánum úr opinberum sjóðum að 85% eða 146,2 millj. kr. Það var mat Ríkisábyrgðasjóðs og vinnuhóps á vegum fjmrn., sjútvrn. og iðnrn. að Útgerðarfélag Kópaskers hf. yrði að setja sérstaka tryggingu til viðbótar skipinu fyrir 20 til 25 millj. kr. til að tryggja greiðslur afborgana og vaxta næstu fjögur árin eins og rekstraráætlun útgerðarfélagsins var upp sett. Þessi trygging var aldrei sett né grein fyrir henni gerð við starfsmenn Byggðastofnunar. Svo átti að heita að Samvinnubankinn ábyrgðist Slippstöðinni á Akureyri greiðslur á meðan á smíði togarans stæði. Í þessari ábyrgð, eins og hún var lögð fyrir Byggðastofnun, var þó tekið fram að Samvinnubankinn setti það eitt skilyrði að bankanum yrði afsalað skipið ef á ábyrgð bankans reyndi að einhverju eða öllu leyti. Þetta er mjög óvenjulegt ákvæði og augljóst að í ábyrgðinni fólst ekki að tryggja Útgerðarfélagi Kópaskers skipið. Hins vegar er augljóst að stjórn Samvinnubankans hefur vel getað hugsað sér að ráðstafa því á annan stað.

Starfsmönnum Byggðastofnunar var ekki gerð grein fyrir því hvernig samvinnu Kópaskers og Svalbarðseyrar yrði háttað í einstökum atriðum og væntanlegur útgerðarstjóri og framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins, Ólafur Valdimarsson, lét svo ummælt við starfsmenn Byggðastofnunar að skipið yrði að gera út á allra hagkvæmasta hátt og væri því gert ráð fyrir að vinna aflann um borð eftir því sem frekast yrði við komið. Hráefnisöflun fyrir rækjuverksmiðjuna á Kópaskeri var í hans huga víkjandi.

Ástæðan fyrir synjun Byggðasjóðs á 12 millj. kr. láni til hlutafjárkaupa vegna Útgerðarfélags Kópaskers var byggð m.a. á eftirfarandi:

1. Fjármagnsgrundvöllur útgerðarfélagsins var veikur og ekki lá fyrir hvernig útgerð skipsins yrði háttað.

2. Engin trygging var fyrir því að útgerðarfélaginu héldist á skipinu, sbr. ábyrgð Samvinnubankans og að ekki var gerð grein fyrir viðbótarveðinu.

3. Þó svo að útgerðarfélaginu héldist á skipinu lá ekkert fyrir um að það leysti hráefnisþörf rækjuverksmiðjunnar á Kópaskeri.