22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4442 í B-deild Alþingistíðinda. (4201)

Úthlutun raðsmíðaskipa

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Hér kemur upp dæmigert mál þegar þm. eru að ákveða hvort þetta eða hitt byggðarlagið fær lán. Hér kemur upp dæmigert mál þegar pólitíkin ræður því og atkvæðaveiðarnar hvort lán séu veitt. Mér finnst mjög leitt að það skuli koma upp úlfúð milli þm. sama kjördæmis og togstreita myndast milli staða.

Við vitum öll að Kópasker á við mjög mikinn vanda að etja varðandi atvinnumálin, en ég held að það væri skynsamlegra að þessi mál væru leyst á faglegum grundvelli. Eins og hæstv. fjmrh. kom að áðan hefði átt að leysa þetta mál á faglegum grundvelli. En málið er lagt í dóm hjá Byggðastofnun þar sem sitja hv. þm. Mér dettur helst í hug að ég sé komin á bankaráðsfund, eitt skiptið enn, á hv. Alþingi þar sem er verið að togast á um milljónir á milli þingmanna. Ég ítreka að svona vinnubrögð mega ekki eiga sé stað á hv. Alþingi. Þessi umræða ætti að eiga sér stað annars staðar. (StG: Er það fjárveitinganefndarmaðurinn sem talar?) Alþingi hefur fjárveitingarvald, en það þarf ekki að setja upp sérstaka þingmannabankastofnun líka. Ég held að það sé alveg nóg að við skiptum fjármunum með lögum en ekki líka í bankastofnunum, hv. þm., sem er reyndar formaður stjórnar Byggðastofnunar. Mér finnst umræðan bera merki um þau vinnubrögð sem eiga sér stað í Byggðastofnun og ég held að við værum betur stödd væri sú stofnun lögð niður eða a.m.k. skipt um nafn, ef hún mundi verða skírð Þingmannabankinn.