22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4446 í B-deild Alþingistíðinda. (4208)

Úthlutun raðsmíðaskipa

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil að það komi fram að ég get tekið undir það með hv. þm. Halldóri Blöndal að það er ánægjulegt að Oddeyri hf. á Akureyri og rækjuvinnsla Kristjáns Jónssonar fái skip til að afla hráefnis. Það hefði líka verið mjög ánægjulegt ef Kópaskersmenn hefðu fengið skip til að leysa úr sínum atvinnuvandamálum. Úr því að það er staðreynd að þeir áttu hæsta tilboð og stjórnskipuð nefnd lagði til að gengið yrði til viðræðna við þá tek ég undir það, sem hv. þm. Stefán Valgeirsson, málhefjandi hér, hefur sagt, að menn eiga að fara með það samkvæmt leikreglunum og ekki stytta sér neitt leið í þeim efnum. Ég hefði talið eðlilegt að Kópaskersmenn og samstarfsaðilar þeirra hefðu fengið eðlilegra og rýmra svigrúm til að láta á það reyna hvort þeir gætu tekið skipið með þeim kjörum sem í boði voru.