22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4448 í B-deild Alþingistíðinda. (4212)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Árni Johnsen:

Herra forseti. Fyrir síðasta fund félmn., þar sem gengið var frá þessu máli, hafði ég samband við hv. formann nefndarinnar og boðaði forföll vegna þess að ég var á fundi í annarri nefnd og jafnframt tilkynnti ég honum að ég mundi skila séráliti í þessu máli og reiknaði með því að skila sérstöku nál. þar af leiðandi. Nú hafa þau mistök orðið að við ritun nál. er þessa ekki getið og formaður hefur staðfest að það sé á misskilningi byggt. Þess vegna leyfist mér ekki að flytja nál., en mun segja mína skoðun á málinu. Ég geri ekki tilkall til þess að þingskjöl séu prentuð upp.

Það sem ég vil segja í þessu máli er að í viðræðum nefndarmanna við formann byggingarnefndar Hallgrímskirkju kom fram að till. þessi um launaða listskreytinganefnd er í óþökk byggingarnefndarinnar, enda eru engin vilyrði í till. um fjármagn til kirkjubyggingarinnar. Byggingarnefnd hefur þegar unnið að ýmsu er varðar listskreytingar í Hallgrímskirkju og í því sambandi haft samráð við hæfustu sérfræðinga og listamenn. Þó er mörgu ólokið. Byggingarnefnd hefur starfað kauplaust í 45 ár og því tel ég öfugsnúið að taka þetta verkefni nú úr höndum byggingarnefndar í óþökk þeirra manna sem hafa borið hitann og þungann af framkvæmd kirkjubyggingarinnar um áratuga skeið og telja till. gagnslausa, en það hefur komið fram í félmn.

Alþingi hefur í vaxandi mæli lagt fram fjármagn á fjárlögum til Hallgrímskirkju og það er vel. Mál þetta hefur verið keyrt með offorsi og sleggjudómum í nefnd á síðustu dögum þingsins og í fyrrgreindu, sem hér hefur verið sagt, sem er samhljóma áliti minni hl. félmn., hefði ég lagt til að málið yrði fellt.

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem er í rauninni erfitt að vera á móti því að þetta er jákvætt mál og allflestir sem til var leitað eru í sjálfu sér samþykkir málinu. En hvort þarna er valin sú besta leið sem um er að ræða er álitamál. Það er eindregin skoðun þeirra sem hafa unnið þarna mest að að svo sé ekki.

Ég tel það fyrir neðan virðingu kirkjunnar og Alþingis að afgreiða það mál sem hér um ræðir í ófriði við byggingarnefnd Hallgrímskirkju sem hefur sýnt að henni er fyllilega treystandi fyrir mikilvægu verkefni. Þótt 1. flm. till. hafi á fögrum degi labbað inn í Hallgrímskirkju fyrir einu ári eða tveimur, einn bjartan sumarmorgun, og boðið 100 millj. kr. af almannafé til kirkjunnar þá, og er það eftirminnileg rausn, er till. í því formi sem hún er nú í fjárhagslega haldlaus, enda engin kostnaðaráætlun sem fylgir og tillgr. miðar við að taka verkið úr höndum ólaunaðrar byggingarnefndar á lokastigi gegn vilja hennar og setja yfir það launaða nefnd. Sem sagt: Nú get ég.

Vonandi heldur Alþingi áfram í vaxandi mæli að styðja við framkvæmdir að verklokum Hallgrímskirkju, eins og verðugt er og markað hefur verið í fjárlögum um árabil og þó mest á síðustu árum. Ég tel lítinn sóma að því að keyra yfir byggingarnefnd í þessu máli og legg til að till. verði felld.

1