22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4449 í B-deild Alþingistíðinda. (4214)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Árni Johnsen:

Herra forseti. Auðvitað eru umsagnir um þetta mál jákvæðar, en þær verða það kannske ekki í eins mikilli vikt þegar kemur að leikslokum vegna þess að þá skerst í odda milli byggingarnefndar sem hefur um áratuga skeið unnið að framgangi þessa máls undir forustu eins manns sem er formaður byggingarnefndar og kom sem slíkur á fund hv. nefndar og lýsti þar eindreginni skoðun sinni að þetta væri gagnslaus till. og í óþökk nefndarinnar. Þetta geta formaður og aðrir staðfest hvað svo sem síðasti hv. ræðumaður segir um málið.

Það hefur skinið í gegn í umræðum um þessi mál að mönnum hefur auðvitað þótt vænt um jákvæðan hug í garð kirkjunnar, en einnig hafa þeir séð peningavon í þessari till. Það var peningavon í henni í upphafi eins og hún var orðuð, en það hefur fjarað út. Nú er þetta beinlínis fjárlagagerðarmál eins og það hefur verið afgreitt á hverju hausti að undanförnu í sambandi við styrki til byggingar Hallgrímskirkju. Það er því að mínu mati ekki forsvaranlegt að afgreiða þetta mál í ófriði. Þetta á að vera friðarmál um slíka listskreytingu. Það er ekkert í þessu efni sem byggingarnefnd getur ekki stýrt eins og hún hefur gert og auðvitað er það á hennar sviði að kalla til hæfustu menn. En eins og þetta er nú er þetta fjárlagagerðarmál og ég verð að segja að mér finnst það sýndarmennska í þessu formi sem það nú er.