22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4450 í B-deild Alþingistíðinda. (4215)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Mér finnst vera fjallað um mikilvægt mál með sérkennilegum hætti. Það er öldungis ljóst að hv. 3. þm. Suðurl. hefur á þessu máli mikinn skilning. Mér varð að orði þegar ég heyrði mál hans að hann væri e.t.v. sérlegur umboðsmaður þeirra sem tengdust með nokkrum hætti þeim sem Hallgrímskirkja er kennd við. En hvað sem um það er þykir mér það rétt, sem hv. þm. segir, að það er með öllu óviðeigandi að taka þetta mál úr höndum byggingarnefndar. Ég vil sem einn af þm. þessa kjördæmis leggja til vissa afgreiðslu á þessu máli. Mér finnst eðlilegt að því verði vísað til ríkisstj. Ég skyldi afhenda þá till. skriflega ef mér hefði gefist ráðrúm til að skrifa hana, en ég mun gera það strax þegar ég kem í sætið, afhenda hana hæstv. forseta og bið a um að leita afbrigða fyrir henni.

Ég get ekki séð rök til þess að fela listskreytingu kirkjunnar sérstakri nefnd. Þarna er um að ræða byggingu, framkvæmd hér í Reykjavík, sem er listaverk í sjálfu sér. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli hvernig listskreytingu þar að öðru leyti verður háttað, en mér þykir ekki einsýnt að Alþingi eigi að taka sérstaka ákvörðun um það og skipa sérstaka nefnd í þessu skyni. Annars veit ég það að hér á hv. Alþingi sitja menn sem eru sóknarbörn þessarar kirkju og munu vafalaust láta þetta mál sig varða en ég fæ ekki betur séð en að afgreiðslu þessa máls sé best borgið með því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar í trausti þess að kirkjumálaráðherra taki þetta mál til sérstakrar athugunar.

Umr. frestað.