22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4455 í B-deild Alþingistíðinda. (4228)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hafði satt að segja ekki vænst þess að lenda í meiri háttar umræðum út af þessu máli en mér finnst það óneitanlega nokkurt alvörumál þegar einn af nm. í félmn. segir að áætlun eins og hér er fyrirhuguð sé í andstöðu við byggingarnefnd. (Gripið fram í: Hver var það?) Það var hv. 3. þm. Suðurl. Víst er það rétt að ég mun hafa verið fjarverandi á þingflokksfundi þegar samkomulag kann að hafa verið gert um þetta og hefur verið gert, eftir því sem hér er upplýst. En þegar ég heyrði mál hv. 3. þm. Suðurl. þá hugsaði ég að eina ráðið til þess að styðja það, sem raunverulega væri hér ætlað að vinna að, væri að fela ráðherra málið til þess að ná samkomulagi milli þessara aðila sem þarna kynnu að vera sammála og auk þess rak ég sérstaklega augun í eitt atriði, sem enginn hefur minnst á í þessu sambandi, en það er að ráðherra er falið að skipa nefnd og það er nákvæmlega tiltekið hvernig nefndin á að vera samansett. Ráðherra hefur ekkert um það að segja nema hann skal skrifa nafn sitt undir þetta. Gott og vel. Alþingi getur falið ráðherra slík verk að sjálfsögðu, en ég sakna eins aðila úr þessari upptalningu. Það er nefnilega svo að í Hallgrímskirkju, sem og mörgum öðrum kirkjum þessarar borgar og vafalaust landsins, er einn hópur sem leggur á sig ómælt erfiði og ætti að vera með í ákvörðunum eins og þessari, en það er kvenfélagið. (GHelg: Það var haft samband við kvenfélagið.) Það kann að hafa verið haft samband við kvenfélagið, mikil lifandis ósköp, en hér eru upptaldir sjö aðilar, sem ráðherra á að skipa í nefndina, en ekki kvenfélagið. Og ég spyr: Hvers vegna ekki? Hvers vegna skyldi ekki fulltrúi frá kvenfélaginu vera í þessari nefnd? Ég veit ekki betur en að kvenfélagið í þessari sókn, sem og mörgum öðrum sóknum og kannske ekki síst í þessari sókn þar sem um er að ræða stórt og mikið verkefni, margra, margra ára verkefni, að kvenfélagið hefur verið boðið og búið til að leggja á sig hvers kyns erfiði í sambandi við samkomur í kirkjunni, ýmsar framkvæmdir til skreytingar og fegrunar af mikilli smekkvísi. Og ég get ekki betur séð en að fulltrúa þess félags væri bæði í senn sómi sýndur, og málinu betur borgið að fulltrúi frá þeim væri í slíkri nefnd. Nú geri ég ráð fyrir að Alþingi samþykki þessa till. nefndarinnar, sem og allir þeir sem verið hafa á þingflokksfundum þar sem ákvarðanir hafa verið um þetta teknar, en ég hefði viljað að Alþingi sæi í gegnum fingur við kirkjumrh. með það að hann skipaði einnig fulltrúa frá þessu nefnda kvenfélagi í slíka nefnd.

Þetta kann að hljóma fljótt á litið sem eitthvert smáatriði en það er ekkert smáatriði varðandi það fólk sem ver frítíma sínum af mikilli fórnfýsi, kvöld eftir kvöld og viku eftir viku, til þess að gera hugnanlegar ýmsar samkomur þess fólks sem það er ekkert vandabundið á neinn hátt, til þess eins að gera aðlaðandi guðshús síns safnaðar. Vitanlega á Alþingi ekki að ganga fram hjá slíku fólki. Ef verið er að álykta um það og tíunda í hólf og gólf hvernig ein nefnd, sem ráðherra skipar, eigi að vera saman sett, þá á ekki að ganga fram hjá slíkum hópum. Þess vegna er það sem ég greip til þess ráðs að flytja þessa litlu skriflegu brtt. að þá geri ég ráð fyrir því að ráðherra skipi nefnd, eins og þá sem félmn. hefur lýst vilja sínum yfir um að gert verði, og geti líka tekið tillit til sjónarmiða eins og þessa.

Þetta er kannske dálítið öðruvísi mál en hér hefur verið varið löngum stundum í að ræða nú á þessum seinustu dögum þings en ég get ekki séð að þetta skipti minna máli en ýmis þau mál sem hér eru tekin til umræðu utan dagskrár. Mér finnst það tímabært, og ég geri ráð fyrir að það finnist mörgum borgurum Reykjavíkur, að það sé rétt í slíku stórverki eins og þessu, sem hefur mikla menningarlega þýðingu, að taka tillit til kvenfélaganna sem verja öllum þeim ómælda tíma sem þar liggur að baki í þeirra verkum. Mér finnst að það beri að taka tillit til þeirra.