22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4459 í B-deild Alþingistíðinda. (4232)

172. mál, afskipti bankaeftirlitsins af málefnum Útvegsbankans

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í skýrslu þeirri sem hér liggur fyrir er gerð nákvæm grein fyrir afskiptum bankaeftirlitsins af málefnum Útvegsbankans. Skýrslan er unnin af bankaeftirlitinu að beiðni ráðuneytisins sem yfirfór hana og ákvað að því loknu að senda hana Alþingi því sem næst óbreytta. Breytingar ráðuneytisins lutu einungis að því að þjappa textanum betur saman og hefur skýrslan að geyma allar upplýsingar sem bankaeftirlitið lét ráðuneytinu í té.

Almennt má segja um skýrsluna að hún varpi ljósi á afskipti bankaeftirlitsins af Útvegsbankanum allt frá árinu 1975. Þeim má skipta í fjóra meginþætti: Athugun á stöðu bankans, sem fram fór 1975, sams konar athugun 1978, sérstök úttekt á fjárhagsvanda bankans, sem var unnin 1980, og sérstök athugun á stærstu lánþegum bankans 1985. Hér er ekki ástæða til að rekja niðurstöður þessara athugana og má vísa til þess sem fram kemur í skýrslunni. Þar er einnig rakið til hvaða aðgerða þessar athuganir hafa leitt og leitast við að svara öðrum atriðum sem sérstaklega var óskað upplýsinga um.

Það sem nú skiptir máli er að svonefnt Hafskipsmál fái þá meðferð sem lög mæla fyrir og samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér miðar meðferð málsins vel hjá skiptaráði. Réttarrannsókn af hálfu skiptaráðanda mun væntanlega ljúka fyrri hluta sumars og er þess þá að vænta að fullur þungi verði lagður á starf þeirrar nefndar sem Hæstiréttur hefur tilnefnt til að kanna viðskipti Útvegsbankans og Hafskips. Samkvæmt upplýsingum formanns nefndarinnar, Jóns Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, stefnir nefndin að því að ljúka störfum fyrir lok þessa árs.

Þá er einnig mikilvægt að þannig verði staðið að eftirliti með bankastarfseminni í framtíðinni og ákvörðunartöku þar að lútandi að ekki komi upp önnur mál sama eðlis og svonefnt Hafskipsmál. Alþingi hefur þegar gripið til ráðstafana sem stefna í rétta átt í þessu sambandi. Má þar einkum nefna lög um viðskiptabanka sem samþykkt voru á síðasta þingi. Þar er að finna reglur um lágmark eigin fjár hjá viðskiptaböndum og þýðingarmiklar reglur um hvernig með skuli farið þegar banki fullnægir ekki þessu lágmarki.

Á grundvelli laganna hafa nú verið settar reglur um gerð ársreiknings hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og kveða þær m.a. svo á að með gjaldfærslu í rekstrarreikningi skuli árlega leggja í afskriftareikning útlánafjárhæð er nemi að lágmarki 1% af útlánum og ábyrgðum banka í lok hvers reikningsárs.

Lögin kveða einnig á um stofnun tryggingasjóðs viðskiptabanka sem nú hefur verið stofnaður og virðist ætla að hefja starfsemi sína með miklum krafti.

Þá er þess að vænta að allir bankarnir setji reglur um lánveitingar sínar sem m.a. eiga að tryggja að heildarskuldbindingar eins og sama aðila gagnvart banka verði ekki óhæfilega miklar. Hjá einhverjum bankanna hafa slíkar reglur þegar verið settar.

Jafnframt er við þessa umræðu rétt að leggja áherslu á að seðlabankafrumvarpið, sem hefur verið hér til meðferðar á Alþingi meginhluta þessa vetrar, hefur að geyma mikilvæg ákvæði varðandi eftirlit með bankastarfsemi. Þau eru mun nákvæmari en núgildandi ákvæði og munu samhliða tryggja náin tengsl þessarar eftirlitsstarfsemi við viðskrn. Þau tengsl hafa reyndar aukist verulega frá því sem áður var, en að mínu mati þarf að stíga enn lengra í því efni. Af þessari ástæðu m.a. er mikilvægt að Alþingi afgreiði fyrirliggjandi frv. áður en þingi lýkur.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli fjallað um það mál sem hér er til umræðu. Skýrslan skýrir sig að öðru leyti sjálf. Hún er ítarleg og samin af vandvirkni. Mikilvægast er að mínu mati að ganga þannig frá hnútum innan bankakerfisins að það mál sem mest hefur orðið að umræðuefni fyrri hluta þessa vetrar verði einstakt og að slík mál heyri sögunni til.