22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4464 í B-deild Alþingistíðinda. (4235)

172. mál, afskipti bankaeftirlitsins af málefnum Útvegsbankans

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður sagði að það hefði verið beðið um þessa skýrslu í nóvembermánuði og hún kæmi í apríl. Ég vil aðeins stytta þennan tíma því að það er beðið um þessa skýrslu 11. des. 1985 og hún kom til Alþingis 25. mars s.l. Ástæðan fyrir því að þessar skýrslur eru lengi á ferðinni er þunglamalegt skrifstofukerfi og að ráðuneytið hefur sjálft hvorki mannafla né tækifæri til þess að vinna slíkar skýrslur heldur verður að biðja um það annars staðar frá í gegnum bankaeftirlit og Seðlabanka, eins og gert hefur verið í þessu tilfelli.

Það kom fram, einkum hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., varðandi eftirlit með fyrirtækjum, og líka hjá hv. 5. þm. Reykv., að þetta eftirlit bankanna er af mjög skornum skammti. Það hlýtur að vera ákaflega vandasamt að hafa eftirlit með margs kyns atvinnustarfsemi. Erlendis tíðkast þetta eftirlit, en það eru sérfræðingar sem hafa eftirlitið með höndum. Það eru fáir sérfræðingar til starfandi hjá íslenskum bönkum og þar af leiðandi verða þeir mjög oft að fara eftir upplýsingum annarra í þessu sambandi.

Þær sveiflur sem hafa orðið, einkum á síðasta ári, t.d. í kaupskipaútgerð, hafa komið illa við marga banka bæði á Norðurlöndum og stóra banka í Bandaríkjunum þrátt fyrir sérfræðilegt eftirlit. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þessar eignir hafa hrunið. Það hefur enginn séð fyrir þær miklu sveiflur sem hafa orðið. Það eru miklar sveiflur niður og upp og niður eins og gerist og gengur. Þetta hefur gert að verkum að það eru ófá gjaldþrot sem hafa átt sér stað á s.l. ári og hafa komið mjög hart niður á ýmsum bönkum, bæði gjaldþrot kaupskipaútgerða á Norðurlöndum, eins og í Noregi, og um allan heim í raun og veru.

Ég tel að það komi mjög til greina að auka þetta eftirlit og það er ekkert óeðlilegt við að atvinnurekstur, sem er margbrotinn og flókinn, kosti ákveðið eftirlit sjálfur, en bankinn velur slíka eftirlitsmenn, og það sé greitt fyrir þá lánafyrirgreiðslu sem slíkum fyrirtækjum er í té látin.

Svarið við síðari skýrslunni, sem var beðið um að tilhlutan Alþfl., kemur ekki fyrr en nú og er margt óljóst í því, sem er erfitt að svara, vegna þess að þessi mál eru fyrir skiptarétti. Það er einnig sérstök eftirlitsnefnd skipuð af Hæstarétti skv. lögum frá Alþingi sem vinnur að þessum málum og hefur hafið störf fyrir alllöngu. Þessi mál verða ekki skýrð í einni svipan, en það kemur að því að þau liggja alveg ljóst fyrir.

Það er aðeins eitt atriði sem ég vildi gera örlítið að umræðuefni í því sem hv. 5. þm. Reykv. nefndi. Það var svar við því hvað yrði gert í sambandi við sameiningu banka. Þinginu var tilkynnt um niðurstöðu nefndar, hinnar svokölluðu bankamálanefndar sem var undir forustu Gylfa Þ. Gíslasonar prófessors. Þessi mál liggja ekki svo ljóst fyrir þar sem í tillögum þeirrar nefndar er aðallega bent á tvennt, í fyrsta lagi að stofna sterkan einkabanka með því að sameina einkabanka sem fyrir eru, sem eru afskaplega litlir þegar litið er á alla einkabankana til samans miðað við ríkisviðskiptabanka, og þá jafnframt að leggja tvo ríkisbanka niður sem gangi inn í þennan einkabanka eða á hinn bóginn að fækka ríkisbönkum a.m.k. um einn. Það var og er mjög vandasamt verk að taka ákvörðun á þessu stigi um stöðvun á rekstri Útvegsbankans. Þar eru margir viðskiptamenn sem eru alls góðs maklegir og hafa staðið sig vel á löngum tíma og það er ekki hlaupið að því í okkar bankakerfi að koma hundruðum viðskiptamanna fyrir í öðrum bönkum. Menn segjast eiga nóg með þá viðskiptavini sem eru fyrir og það var því ekki hægt að bjóða upp á það að þeir yrðu gerðir að einhverjum annars eða þriðja flokks viðskiptaaðilum í bönkum. Hins vegar eru engir erfiðleikar á því að taka við innlánum því að það eru allir bankar reiðubúnir að gera það. Inn í þetta fléttast heil byggðarlög og hvernig eigi að leysa þeirra vandamál.

Ég tel að Útvegsbankanum, sem er ríkisbanki, viðskiptabanki, hafi borið að halda áfram sinni starfsemi þannig að það raskaði ekki hans starfsemi þrátt fyrir það mikla áfall sem bankinn varð fyrir. Það hefur verið gert fram til þessa og verður auðvitað að gera áfram. Eftir því sem staða hans er betri þegar kemur til alvöru að taka ákvarðanir um framtíðina í þessum efnum kemur það eiganda bankans, ríkinu, til góðs eftir því sem staða hans er skárri.

Þessi mál eru, eins og ég segi, mjög flókin. Bæði er hér um tæknileg mál að ræða og framtíð heilla byggðarlaga í húfi, framtíð margra fyrirtækja og margra einstaklinga. Þau mál verða aldrei leyst nema með samstarfi margra aðila. Það er líka hér um mjög mikilvæga pólitíska ákvörðun að ræða. Þessi ríkisstj. samanstendur af tveimur flokkum og oft eru eðlilega skiptar skoðanir í ríkisstjórnum sem samanstanda af tveimur eða fleiri flokkum, þremur flokkum oftast. En það er ekki þar með sagt að ekki séu líka skiptar skoðanir innan allra stjórnmálaflokka, bæði stjórnarflokka og annarra. Menn líta ýmsum augum á það. Það er nú svo að mönnum eru kærastir þeir bankar sem þeir hafa lengst af skipt við og notið fyrirgreiðslu hjá.

Eins má segja að alþm. séu kærastir þeir bankar þar sem þeir hafa átt sæti í bankaráðum. Þetta á kannske ekki að vera svona, en það er þó. Það hefur bæði sína kosti og sína galla að tengja störf alþm. við bankastörf eða bankaráð. En það er þó einn mjög mikilvægur kostur í þessari samtengingu, að bankastarfsemin fær meiri skilning í sölum Alþingis eftir því sem menn eru tengdari henni og fylgjast betur með henni.

Ég vildi aðeins að þessi sjónarmið kæmu fram. Ég lít svo á að þessar skýrslur séu hérna gefnar og það verði ekki fyrr en með hausti sem skýrar liggur fyrir hvað kemur út úr þessu svokallaða Hafskipsmáli í skiptarétti og sennilega ekki fyrr en undir áramót skýrsla þeirrar nefndar sem byggð er á þeim lögum sem Alþingi samþykkti, nefndar sem Hæstiréttur tilnefndi.