22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4468 í B-deild Alþingistíðinda. (4237)

330. mál, endurnýjun fiskiskipastólsins

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Á þskj. 608 er beiðni frá öllum þm. Alþb. um skýrslu frá sjútvrh. um aldur, stærð, uppbyggingu og endurnýjun fiskiskipastólsins. Sjútvrh. hefur mælt fyrir þessari skýrslu hér og skýrslan var lögð fram á hv. Alþingi í gær. Það hefur því gefist fremur stuttur tími í önnum þingsins til að fara yfir skýrsluna og undirbúa sig undir að ræða um þá þætti sem skýrslan gefur til kynna. Það er víst heldur ekki tími til þess á síðustu stundum þingsins að hafa langt mál um skýrsluna og þær upplýsingar sem í henni eru faldar.

Það sem við þm. Alþb. fórum fram á að fá upplýsingar um var í fyrsta lagi aldur íslenska fiskiskipastólsins, sundurliðað eftir stærð og gerð og einnig eftir kjördæmum, í öðru lagi breytingar á fiskiskipum sem hefðu orðið á undanförnum árum, í þriðja lagi flutningur aflamarks á milli byggða og í fjórða lagi áform stjórnvalda um aðgerðir til uppbyggingar og endurnýjunar skipastólsins á næstu árum.

Eftir því sem ég hef farið yfir þessa skýrslu finnst mér að það sé vel að málum staðið í sambandi við þær fsp. sem við lögðum fram og upplýsingar séu eins góðar og við mátti búast að við fengjum við spurningum okkar, enda er það sú stofnun sem nýtur hvað mestrar virðingar h, á þeim sem fást við sjávarútvegsmál, þ.e. Fiskifélag Íslands, sem hefur skilað þessari skýrslu í hendur ráðherra eða meginhluta skýrslunnar, þ.e. upplýsingum um aldur flotans og breytingar og um breytingar á kvóta. Það var því ekki við öðru að búast en að þær upplýsingar væru lítið gagnrýnisverðar.

Þær upplýsingar sem í skýrslunni eru um aldur fiskiskipaflotans okkar og þá sérstaklega bátaflotans eru ansi uggvænlegar. Ef litið er á upplýsingarnar um bátana af stærðinni 20-69 lestir kemur í ljós að í einu kjördæminu er meðalaldur þessa bátaflota 30,6 ár og meðalaldur yfir landið allt 24,3 ár. Það er svipaður aldur hvað snertir aðrar stærðir. Meðalaldur báta milli 70 og 105 lestir er 23,3 ár og báta yfir 105 lestir 20,3 ár. Togaraflotinn er yngri.

Ef á það er litið að helmingur botnfiskaflans eða næstum því er fluttur að landi af bátaflotanum, þ.e. þeim flota sem er um og yfir 20 ára gamall, gefur auga leið að þessi floti hlýtur að vera meira og minna úreltur, meira og minna úrelt atvinnutæki, þó að ekki sé hægt að bera á móti því, sem hæstv. ráðh. sagði, að nokkur hluti af þessum flota hefur verið endurbyggður. En þó að hægt sé að nýta sér tæknina á mörgum sviðum við endurbyggingu skipa verður aldrei hægt að nýta hana að fullu á þann máta. Hún skilar sér aldrei í einu eða neinu tæki við endurbyggingu heldur verður að eiga sér stað nýbygging og það sé hugsað fyrir nýrri tækni og nýrri vinnuaðstöðu í nýju tæki, í nýju skipi. Það er líka reynslan um mörg af þeim skipum sem hafa verið endurbyggð að í ljós kemur eftir stuttan tíma að þeir hlutar skipsins sem ekki hefur verið talin þörf á að endurbyggja draga úr afkastagetu, draga úr nýtingu skipsins. Það kemur að því oft ótrúlega fljótt og oftar en búist er við að þessi skip þurfa að fara í aðra endurbyggingu og kostnaðurinn við að halda slíkum flota í gangi verður vitaskuld miklu meiri en eðlilegt viðhald á skipi. Og enda þótt fjárfestingarkostnaður í nýjum skipum sé mikill verður hann jafnvel ekki eins þungur á útgerðinni við eðlilegar aðstæður og sá viðhaldskostnaður sem verður á svona gömlum flota, auk þess sem tækni og betri vinnuaðstaða nýtast ekki í þessum gömlu skipum.

Annar þáttur sem þessi skýrsla fjallar um er flutningur aflamarks á milli byggða. Ég var nokkuð undrandi á þeim tölum sem þar komu í ljós. Þó er það breytilegt eftir stöðum hvað á þessum tveimur árum hefur átt sér stað mikill flutningur á milli staða og hvernig það bendir í þá átt að það aflamark sem við búum við sé hættulegt. Það má vel vera að ýmsar leiðir sé hægt að finna til að betrumbæta það, en það kemur greinilega í ljós hér að það eru ákveðin svæði og ákveðnir staðir sem hreinlega standa frammi fyrir því að réttur þeirra til að sækja fisk í sjó hefur verið af þeim tekinn, heilla byggða. Það er engin vörn til í því kerfi sem við búum við eða hægt að laga þetta.

Í umræðum í Sþ. fyrir nokkrum klukkutímum vorum við að fjalla um hvernig nýjum skipum væri ráðstafað. Það var ekki farin sú leið að bjóða þau þeim aðilum sem hefðu misst kvótann sinn eða stæðu frammi fyrir því að hafa engin atvinnutæki til að flytja þann afla að landi sem þeim væri nauðsynlegur til að halda uppi atvinnu. Nei, það var fjármagnið sem átti að ráða. Búið var til kerfi þar sem það réði hver hefði besta fjármálalega aðstöðu til að ná í veiðitækið, en ekki boðið upp á að þeir aðilar, sem einhverra hluta vegna hefðu farið halloka í því fiskveiðikerfi sem við búum við, fengju að njóta nýrra atvinnufyrirtækja, nýrra skipa. Hin leiðin var farin.

Ég bendi á þennan þátt sérstaklega. Sérstaklega eru það Suðurnesin sem hafa farið illa út út því þó að einnig sé hægt að nefna staði eins og Grundarfjörð og jafnvel Austfirði.

En það sem mér finnst uggvænlegast í þessari skýrslu er sú þráhyggja stjórnvalda að halda því stöðugt fram að fiskiskipaflotinn sé of stór og það sé enn meginstefna stjórnvalda að koma í veg fyrir aukningu á afkastagetu hans, eins og stendur orðrétt í skýrslunni. Þó er viðurkennt að það sé jafnljóst að endurnýjunar sé þörf. En sú viðurkenning sést þó í engu og er ekkert gert til að ýta undir að það eigi sér stað endurnýjun heldur er frekar stuðlað að því að sá einkaréttur sem við búum við í sambandi við að sækja afla í sjó haldist og útgerðarmenn hugsi fyrst og fremst um að halda gömlu skipunum sínum í gangi án þess að gera þeim eitt eða neitt til góða eða huga að því að skipta um skip. Það er engin hvatning frá opinberum aðilum til þess að endurnýjun eigi sér stað.

Ég tel einnig að sú skoðun sé röng að flotinn sé of stór. Ég lít svo á að íslenski fiskiskipaflotinn sé að mörgu leyti ofnýttur. Fiskveiðisókn hjá okkur sé allt of mikil kraftasókn. Maður hefur séð það í vetur og maður les það jafnvel í því ágæta fréttabréfi sem Ríkismat sjávarafurða gefur út og hefur gefið út vikulega í vetur að ofnýting fiskiskipaflotans, kraftasóknin, geri að verkum að við erum að fá verðlítið hráefni að landi.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp smáútdrátt úr þessu fréttabréfi, með leyfi forseta. Þar segir:

„Nú færist það í vöxt að gert sé að netafiskinum um borð, einkanlega þar sem lengra er sótt þótt það verði því miður ekki sagt um báta frá Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Skv. reglugerð mega fiskiskip, sem landa afla daglega, landa óslægðum fiski.“

Hvað er verið að segja þarna? Það er raunverulega verið að segja það að ákveðinn hluti bátaflotans sé að stunda veiðar af það miklu afli að ekki sé skilað góðu hráefni að landi. Það eru fleiri en bátar frá Eskifirði og Fáskrúðsfirði sem gera þessa hluti, því miður. Vítt um landið hefur það verið þannig að það er sóttur fiskur á mið, sem tekur um hálfan sólarhring eða meira að komast á, þannig að sigling að og frá miðunum er u.þ.b. sólarhringur. Það er farið á miðin og dregið, farið til heimahafnar og afla landað og netin látin liggja á miðunum. Vitaskuld er sá afli sem sóttur er í þessi veiðarfæri meira eða minna skemmdur.

Þetta kalla ég kraftasókn. Það mundi vera heppilegra að sækja þennan afla með heldur minni áfergju og minni krafti en það þýddi það að skipin yrðu ekki nýtt á sama máta. Það yrði að taka sér eitthvert frí. Það mætti ekki láta veiðarfærin liggja í sjónum lon og don eins og gert er núna.

Bátur frá Vestfjörðum hefur haft uppi annan hátt s.l. vertíð. Hann hefur sótt fiskinn á þann veg að hann hefur legið yfir sínum netum og dregið tvær, þrjár lagnir, tekið síðan upp netin í skipið og farið til heimahafnar og þar af leiðandi fallið frá því að láta netin liggja í sjónum og fiskinn skemmast. Vitaskuld verður nýting þessa fiskiskips minni. Hann nýtir ekki veiðimöguleika netanna nema kannske þrjá sólarhringa á móti fimm. Það þýðir það að ef við ætlum að sækja svipaðan afla í sjóinn með þessari aðferð, koma með verðmætari afla að landi, verðum við að stækka skipaflotann okkar. Við verðum að stækka skipaflotann okkar kannske um þetta hlutfall til þess að ná sama aflamagni. En þetta er ekki sú lausn sem stjórnvöld vilja. Þau vilja halda áfram gúanósókninni. Það er mikið eðlilegra að halda áfram gúanósókninni og kraftsókninni. Menn eru heldur ekki á því að draga úr úthaldstíma togara. Það er enn meira og minna haldið úti tíu, tólf daga og komið þar af leiðandi með meira og minna gallaðan fisk að landi. Það þýddi færri úthaldsdaga ef togarinn ætlaði að vera kannske sex daga að veiðum en það þýddi verðmeira og betra hráefni. En þegar stefnan er sú að ekki megi stækka flotann hlýtur að verða að halda áfram þessari aðferð, halda áfram þessari gúanósókn og halda áfram að vera að flytja út meira og minna lélega vöru, eða a.m.k. má segja mun verri vöru en við gætum annars. Ef við breyttum um veiðitilhögun mundum við getað skilað markaðslöndum okkar góðri vöru undir flestum eða öllum kringumstæðum. Við þyrftum ekki að standa frammi fyrir því sýknt og heilagt að fá áminningar frá sölumönnum okkar og fiskisölusamtökum um að það sem við þurfum fyrst og fremst að forðast sé það að flytja lélega vöru á markaðinn. Ef við séum með góða vöru séum við með öruggan markað.

Ég vil endurtaka það að mér finnst þessi skýrsla, sem hér er fram lögð, góð og hún gefur upplýsingar um flest af því sem við fórum fram á að fá upplýst. En hún er vond að því leyti að hún undirstrikar enn á ný þá stefnu stjórnvalda að ekki skuli stefnt að því að betrumbæta það hráefni sem fiskveiðiflotinn okkar ber að landi og það skuli ekki stefnt að því að skila markaðslöndum okkar betri og betri vöru. Ekki skuli heldur stefnt að því að íslenski fiskiskipaflotinn verði þannig upp byggður að íslenskir sjómenn eigi þess kost að njóta svipaðra fría og helgidaga og annað fólk í landinu, að það eigi enn að halda þeirri stefnu að ætlast til þess að íslenskir fiskimenn og íslenskt fiskvinnslufólk skili miklu lengri vinnutíma en aðrar stéttir þjóðfélagsins. Ef við hverfum ekki frá þessari stefnu og ef við hverfum ekki frá þeirri hugmynd stjórnvalda að ekki megi endurbyggja og stækka íslenska fiskiflotann hlýtur afleiðingin að verða meira og meira fráhvarf frá þessum atvinnugreinum. Það verður erfiðara ár frá ári að fá fiskimenn á fiskiskipaflotann og fólk til þess að vinna við fiskiðnaðinn. Ég held að það verði að viðurkenna það, og það sé kannske þungamiðjan í sambandi við þróun sjávarútvegsins, að aðalatriðið er ekki að flotinn okkar sé úti á miðunum hvern einasta dag, heldur hitt, að við nýtum þennan flota og reynum að láta hann skapa okkur sem best hráefni, hráefni sem tryggir okkur markaði og að íslenskar sjávarafurðir verði eftirsóttari vara en hún er í dag víða á mörkuðum.