22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4475 í B-deild Alþingistíðinda. (4241)

330. mál, endurnýjun fiskiskipastólsins

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður en aðeins fannst mér ástæða til þess að koma hingað upp aftur og kannske leiðrétta hæstv. sjútvrh. um það að varla mundi ég kalla að hefði verið kraftasókn á Breiðafirði í vetur þegar bátarnir voru bundnir við bryggju eins og ég hef upplýst fyrir nokkru síðan.

Jú, það var einmitt stunduð kraftasókn á Breiðafirði í vetur og víðar um land, fyrst og fremst kraftasókn. Það var sóttur afli af öllu afli og það var ekki látið við það sitja að vinna þar svona venjulegan vinnudag heldur var unnið við Breiðafjörð um allar helgar og flest kvöld mun vinna hafa verið fram undir miðnættið. Ég held að þetta sé bara sú vinnutilhögun sem við eigum alls ekki að viðhalda. Og það að bátarnir, eins og hefur kannske verið meira áberandi annars staðar en við Breiðafjörð, láti netin liggja yfir helgar, taki sér ekki sunnudagsfrí, það gengur ekki upp, held ég, mikið lengur. Það er kraftasókn og ekkert annað. Þessir svörtu mánudagar, sem koma fram í skýrslu Ríkismats sjávarafurða, eru ekkert annað en kraftasókn og það er hlutur sem við eigum að snúa frá. Við eigum að leyfa sjómönnunum okkar og ætlast til þess af þeim að þeir taki sín net upp um helgar og þeir taki frí eins og annað fólk í landinu. Það er ekkert dýrara að láta vélarnar í fiskiskipunum okkar stoppa en í öðrum verksmiðjum vítt og breitt um landið. Ætli prentsmiðjurnar séu ekki flestar stopp á föstudagskvöldum og annað eftir því?

Þetta er kraftasókn og ég er alveg viss um að hefði verið linað svolítið á sókninni við Breiðafjörð í vetur og annars staðar um landið værum við að flytja að landi miklu meiri verðmæti. Það er ekki aðeins hægt að tala um að við nýtum ekki fjárfestinguna. Ég hugsa að við skilum betri arði af fjárfestingunni með því að hætta þeirri kraftasókn sem við stundum nú. Ég er nærri viss um að þá yrði betri arður af okkar fjárfestingu en nú er.

Ég skal svo taka undir það sjónarmið ráðherra að við eigum að leita að verkefnum fyrir okkar sjávarútveg víðar en hér við Íslandsstrendur og sjálfsagt eru margir möguleikar þar fyrir hendi. Það skapar okkur aukið svigrúm, aukinn möguleika til að nýta okkar heimaauðlindir betur. En það breytir ekki því að við verðum að breyta um stefnu í sambandi við hina almennu uppbyggingu á okkar flota.

Reynt hefur verið að réttlæta flutning á milli byggðarlaga, sem er ískyggilega mikill skv. skýrslunni, m.a. með því að það hafi verið floti fyrir Norðurlandi á síldarárunum. Það er ansi langt síðan síld var fyrir Norðurlandi og að núna sé að eiga sér stað einhver tilflutningur vegna þess flota, það held ég að geti ekki verið mikið.

Því er haldið fram að þær 900 millj., sem verið er að leggja í þessi nýju skip sem nú eru að fara á flot, hefðu frekar átt að fara í frystiiðnaðinn. Ég veit að margir telja að í fiskiðnaðinum á Íslandi sé ansi mikil offjárfesting, hún sé jafnvel meiri þar. Þeir sem tala um offjárfestingu í skipaflotanum nefna það einnig að það sé allt of mikil fjárfesting í fiskvinnslunni. Víða eru fiskvinnslustöðvar nýttar kannske 2-4 mánuði á ári. Menn benda á að það sé vannýting á þessari fjárfestingu.

Ég vil ekki gera upp á milli þess hvort þetta fjármagn, sem við höfum yfir að ráða, fari frekar til uppbyggingar á skipaflotanum okkar eða í fiskvinnsluna. Ég hef þá skoðun að við þurfum að fá ansi mikið fjármagn í hvort tveggja. Það er ískyggilegt til þess að vita að á undanförnum árum skuli nær engin fjárfesting vera í þessum greinum og á sama tíma sé fjárfesting í orkugeiranum okkar nærri því komin niður í núll og það sé minnkandi fjárfesting í vegaframkvæmdum. En skuldir landsins halda áfram að aukast, a.m.k. standa í stað, þær eru ekki borgaðar niður. Meðan meginhluti fjárfestingar er stöðvaður í landinu, í aðalundirstöðuatvinnugreininni, í orkugeiranum, í vegaframkvæmdum, aukast skuldirnar. Það er ekki góð þróun.

En ég vil að lokum undirstrika að ég tel að það sé eitt af nauðsynjamálum landsbyggðar og sjávarútvegs og þar með okkar Íslendinga að horfið verði frá þeirri stefnu að ekki megi stækka fiskiskipaflotann og það sé lífsnauðsyn að fiskiskipaflotinn og sérstaklega bátaflotinn verði endurnýjaður nú á næstu árum.