22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4487 í B-deild Alþingistíðinda. (4247)

330. mál, endurnýjun fiskiskipastólsins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það lá við, þegar hlustað var á lokaorð hæstv. landbrh., að það rifjaðist upp fyrir manni í hvaða flokki hann er. Því hæstv. ráðh. Framsfl. stunda það ár og síð er óhætt að segja, þegar þeir eru að reyna að verja sínar pólitísku gerðir hin síðustu árin, að fara að minna á fyrri ríkisstjórnir þar sem þeir ýmist fóru með atvinnumál, jafnvel forsæti og réðu efnahagsstefnu. Þá reyna þeir að benda á að það hafi verið mislagðar hendur hjá mönnum í þeirri ríkisstjórn. (Landbrh.: Ég benti ekki á neitt.) Það mátti auðveldlega skilja hjá hæstv. ráðh. hvaða skeyti var verið að senda. En hér er enginn til svara fyrir þann flokk sem fór með landbúnaðarmálin í þeirri ríkisstjórn en sá hefur að vísu sagt sínar skoðanir á prenti, hv. 1. þm. Norðurl. v., og dregið fram hvernig í raun tókst þó að halda í horfinu eða laga landbúnaðarframleiðsluna á þessum árum að verulegu leyti að innanlandsneyslunni þannig að þróunin var alls ekki neikvæð á tímabili. Ég ætla ekki að fara að metast um það. Það ættu að vera hæg heimatökin hjá hæstv. núv. landbrh. að ræða það við samstarfsflokkinn hvernig hann hafi haldið á landbúnaðarmálunum á þeim tíma.

Ég ætla ekki, herra forseti, að eiga í löngu máli frekari orðastað við hæstv. landbrh. svo fróðlegt sem það væri. Ég hefði kosið að við værum að ræða þessi mál á dagtíma og við betri aðstæður þar sem fleiri hefðu getað tekið þátt í þessum umræðum heldur en sýna áhuga á þeim nú.

Hæstv. ráðh. kom í rauninni ekki með neinar frekari skýringar á því hvers vegna hann ekki svaraði ýmsum þeim atriðum í okkar beiðni sem hefði verið honum innan handar að gera. Auðvitað vorum við ekki að biðja um röng svör. En það er hægt að veita svör með fyrirvörum um ákveðin atriði. Það er allt annað en að veita röng svör. Enginn er að biðja um slíkt.

Hæstv. ráðh. upplýsti eitt atriði sem ég fagna að liggur fyrir, og er ekkert að rengja það, að aukning hafi orðið í neyslu mjólkur, dagneyslu á mjólkurvörum, hér á mjólkursamlagssvæðinu í Reykjavík á síðustu mánuðum. Ég hafði ekki heyrt um það, hafði ekki um það upplýsingar og vissulega er það ánægjuefni. En því miður horfir ekki með sama hætti varðandi sauðfjárafurðirnar ef marka má þær upplýsingar sem ég gat um áðan og hæstv. ráðh. ekki rengdi.

Hæstv. ráðh. greindi okkur frá því að það væru komnar fram tillögur varðandi sauðfjárframleiðsluna, hugmyndir um það með hvaða hætti tekið verði á henni fyrir næsta verðlagsár. Það hefði sannarlega verið æskilegt að hann hefði treyst sér til að sýna okkur þær hugmyndir. Ég hygg að það hefði út af fyrir sig ekki verið ofætlan að dreifa þeim og gera þær aðgengilegar fyrir þingið, fjölritaðar, því varla er þarna um neitt að ræða sem ekki á að koma fyrir sjónir alþjóðar ef það á að vera til umræðu á opnum fundum bænda um land allt núna á næstunni.

Ég fékk einnig upplýsingar um það í dag, sem hæstv. ráðh. greindi frá, að skoðanakönnun hefði farið fram á vegum búnaðarfélaganna á ýmsum þáttum í sambandi við stjórnun landbúnaðarframleiðslu og viðhorf bænda þar að lútandi. Það hefði vissulega verið fróðlegt fyrir Alþingi að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem verða reiddar fram á þeim kjörmannafundum á næstu dögum, sem á að halda.

Ég vil, herra forseti, ekki lengja þessa umræðu af minni hálfu. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir það sem fram hefur komið þó ég hefði óskað eftir því að það væri bitastæðara en raun ber vitni um. Ég er ekki einn um það að hafa þungar áhyggjur af þróuninni í landbúnaði og þeirri stefnu sem þar hefur verið fylgt um lengri tíma. Og það er sannarlega ekkert skýrt land fyrir stafni ef marka má það sem komið hefur fram af hálfu stjórnvalda nú að undanförnu. Þar þarf að verða róttæk breyting á málstökum, þar þarf að standa að með allt öðrum hætti en gert hefur verið og á það bæði við um aðlögun hinna hefðbundnu búgreina og þá atvinnustarfsemi sem þarf að koma í staðinn þar sem dregið er úr slíkum búskap. Þar þyrftu allir að geta lagst á eitt en því er því miður ekki að heilsa. Það eru mjög sterk öfl, og þau hafa verið fyrirferðarmikil í núverandi ríkisstj. og bakliði hennar, sem hafa lítinn áhuga á þeim vanda sem skapast hefur í sveitum landsins og hafa í rauninni sótt að hagsmunum sveitanna og sveitafólksins með mjög ósvífnum hætti. Ég veit að hæstv. landbrh. hefur leitast við að standa gegn ákveðnum kröfum þar, en flokkur hans hefur þó, á heildina litið, alls ekki brugðist við með þeim hætti sem menn hefðu getað reiknað með og ég veit að stuðningsmenn Framsfl., þeir sem voru stuðningsmenn þess flokks, gerðu sér vonir um. En þar hafa því miður orðið mikil umskipti eins og ljóst verður ef litið er yfir feril núverandi ríkisstj.