23.04.1986
Efri deild: 88. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (4258)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Það verður að viðurkennast að það er með öllu óþolandi að manni skuli ekki vera ætlaður meiri tími til að fjalla hér um mál en raun ber vitni. Hér þæfast menn í minni háttar eða nærfellt engum málum allan veturinn. Svo kemur að svona stórum umbrotamálum eins og þessu frv. sem hér er verið að fjalla um, um Seðlabanka Íslands, og frv. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem verður hér bráðum á dagskrá, og við höfum nákvæmlega dagstund að ég hygg til þess ekki bara að segja álit okkar á þessum málum heldur fjalla um þau.

Til þess að gera langa sögu stutta ætla ég eingöngu að skýra afstöðu mína til þeirra nál. sem fram eru komin og gera með þeim hætti grein fyrir atkvæði mínu. Í sjálfu sér hafði ég við þetta frv. um Seðlabanka Íslands lítið annað að athuga en það sem laut að því hlutverki sem honum var ætlað í því að binda áfram innlánsfé lánastofnana í landinu.

Þetta mál átti sér ákveðinn aðdraganda þar sem hér var í fyrra gerð tilraun til að draga úr þessu hlutverki bankans með því að lagt var fram þingmannafrv. í þessari deild um að lækka bindiskyldu banka úr því sem þá var, 28%, niður í 10%. Þáv. viðskrh. lagðist mjög eindregið gegn þessu frv. og lofaði nokkuð stóru um að þetta væri allt saman á góðri leið þar sem verið væri að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands og þessum málum yrði bjargað í því frv. Með tilliti til þess studdi ég ekki það frv. sem hér kom til atkvæða.

Nú er aftur á móti þetta frv. til laga um Seðlabanka Íslands komið fram og reyndar líka annar viðskipta- og bankamálaráðherra. En ég held að það sé samt sem áður ekki þeirra breytinga vegna að hér er áfram gert ráð fyrir hlutverki Seðlabankans sem bindistofnunar, sem stjórntækis til að hafa áhrif á peningamagn í umferð með þeim einfalda og nánast ruddalega hætti að taka innlánsfé banka og -eins og m.a.s. í þessu frv. er gert ráð fyrir - ekki bara innlánsfé heldur líka ráðstöfunarfé bankanna og binda það. Ég held að öllum sem vilja sjá séu ljós þau óhollu áhrif sem þess háttar stjórnun peningamála hefur.

Að öðru leyti er það líka mjög ógeðfellt að menn skuli eftirláta framkvæmdavaldi jafnmikið vald í þessum málum. Að mínu mati ætti að vera um að ræða mjög víðtækt samkomulag ef menn ætla sér að minnka peningamagn í umferð og ætti alls ekki að geta átt sér stað öðruvísi en með löggjöf héðan úr þingsölum. Þannig mun ég styðja brtt. við 8. gr. upphaflega frv. Ég mun aftur á móti ekki styðja till. um aukin áhrif Seðlabankans á vaxtamálin því að ég er þeirrar einfeldnislegu trúar að það hafi nokkuð að segja hvaða framboð og eftirspurn er um að ræða í þeirri verslun sem bankaviðskipti eru og að það sé hollast að láta lögmál þess markaðar ráða vaxtastigi og það sé mjög óheppilegt að ráðgjafinn eða framkvæmdavaldið fikti í þeim þáttum þó það væri ekki nema vegna þess að um leið og menn fara að stjórna slíku takast þeir á hendur ákveðna ábyrgð sem þeir oft og tíðum ekki geta staðið undir.

Við sjáum núna hvað afskipti stjórnvalda af efnahagsmálum hér á landi hafa haft víðtækar afleiðingar því tilfellið er að því verður ekki á móti mælt að verðbólga er búin til af stjórnvöldum. Hún verður ekki til af sjálfu sér. Eins og einn af deildarmönnum hér hefur margoft bent á, hv. 4. þm. Norðurl. v. Eyjólfur Konráð Jónsson, eru peningar ávísanir á verðmæti og ef verðmæti eru til fyrir þeim peningum sem í umferð eru er engin hætta á að til verði verðbólga. Ef stjórnvöld fara aftur á móti að fikta í þessu með því að breyta aðstæðum á þessum markaði og annaðhvort að gera ráð fyrir því að það séu minni eða meiri verðmæti til en peningunum svarar verður til skekkja í efnahagslífinu og ef þau gera ráð fyrir að það séu til miklu meiri verðmæti en raunverulegt peningamagn samsvarar verður það að verðbólgu. Þá þýðir ekkert að taka svo og svo mikið af þessum peningum úr umferð og ég tala nú ekki um að lána þá síðan út um bakdyrnar eins og hefur verið gert hérna. Þar með er allt efnahagslíf orðið kolruglað og menn mega þakka fyrir ef hægt er að bjarga því á einhvern hátt fyrir horn eins og menn hafa einhverja von um núna.

Aftur á móti verð ég að viðurkenna að ég er mjög svartsýnn í þeim efnum enn þá, sérstaklega vegna þess að þröskuldurinn í þessum málum er sú einfalda tæknibrella að halda gengi föstu. Það hefur líkt og fikt manna í vöxtum aldrei gefið góða raun til lengdar.

Ég tel sinnaskipti nokkurra manna í meiri hl. fjh.- og viðskn. standa á mjög veikum ís. Þeir hafa tekist þá ábyrgð á hendur að mæla með samþykkt þessa frv. á þeim grundvelli að seðlabankastjórar gáfu frá sér yfirlýsingu, sem þeir afhentu nefndinni, um að peningamarkaður hefði verið að þróast ört í frjálsræðisátt hér á landi undanfarin ár og að þetta gæfi færi á að draga úr beinum hömlum á útlánastarfsemi bankanna, svo sem innlánsbindingu sem þegar hefur verið lækkuð úr 28% í 18%. Síðan segir, með leyfi frú forseta:

„Bankastjórn Seðlabankans mun leggja áherslu á að þessi þróun haldi áfram svo ört sem markaðsaðstæður og ytri skilyrði leyfa. Væntanlega verður unnt að taka umtalsverð skref til lækkunar á innlánsbindingu síðar á árinu.“

Ég efast ekkert um góðan vilja þessara mætu manna. Aftur á móti gefur fyrsta setning þessarar yfirlýsingar til kynna að þessir menn gera sér grein fyrir að grundvöllur peningastjórnar undanfarin ár hefur verið vilji stjórnvalda og trú á það að þau geti haft áhrif á efnahagsmál hér með því að stjórna peningamagni í umferð. Þegar þeir segja: Peningamarkaðurinn hefur verið að þróast ört í frjálsræðisátt hér á landi undanfarin ár, þá eru þeir líka að segja að verði einhverjir hnökrar á þessari þróun, að ég tali nú ekki um einhverjar sviptingar, réttlæti það aðgerðir eins og þær sem við höfum búið við undanfarin ár. Þeir segja ekki afdráttarlaust hérna: Þær aðgerðir sem við höfum beitt undanfarin ár hafa verið orsök óheillavænlegrar þróunar í peningamálum. Þeir viðurkenna það ekki. Þeir sitja í raun og veru enn þá fast við sinn keip og telja að þær aðferðir sem þeir hafi beitt hafi verið þær einu sem dugðu af því að þeir segja í annarri setningunni: Þetta gefur færi á að draga úr beinum hömlum á útlánastarfsemi bankanna. Menn hafa haldið því hér fram, þar á meðal hv. 4. þm. Norðurl. v. Eyjólfur Konráð Jónsson, að hömlur á útlánastarfsemi bankanna séu einn af orsakavöldum þess hvernig komið er í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þegar þeir segja: Þetta gefur færi á að draga úr beinum hömlum, þá eru þeir ekki að afneita fyrri vinnubrögðum heldur segja einfaldlega: Ástandið er svo gott í dag að við getum sleppt þessu lausu, en ef það breytist, ef það versnar að okkar mati áskiljum við okkur fullan rétt til að halda uppi fyrri iðju.

Ég var ekki við upphaf þessa fundar þannig að ég veit ekki hvort hér hefur átt sér stað viljayfirlýsing ráðherra, en hennar mun hafa verið að vænta. (EgJ: Hún er í nál.). Já. Ég hef ekkert við góðan vilja þessa ráðherra að athuga, en bendi á að viljayfirlýsingar embættismanna í þessu máli eru harla haldlitlar nema þá að við séum farnir að gera ráð fyrir því að embættismenn lúti ekki vilja framkvæmdavaldsins. Því verða allir menn að gera sér grein fyrir að embættismenn eru verkfæri í höndum framkvæmdavaldsins. Það sem framkvæmdavaldið vill framkvæma þeir. Nú stendur þannig á að fulltrúi framkvæmdavalds í þessum málum er ráðherra sem gefur ákveðna yfirlýsingu sem menn treysta, en treystir hv. 4. þm. Norðurl. v. t.d. öllum ráðherrum ónefndum sem eiga eftir að sitja í þessum stól? Svo að ég orði þessa spurningu skýrar: Treystir hann ráðherrum í vinstri stjórn til að standa við þessar yfirlýsingar? (EKJ: Svarið er nei.) Þá hefði ég haldið að það væri haldbetra að hafa lög. (Gripið fram í: Sammála.) Lög skulu ráða en ekki menn. Þess vegna mun ég styðja brtt. sem lýtur að því að draga enn frekar úr bindiskyldu bankanna og þessu valdi Seðlabankans. Þess vegna mun ég ekki heldur styðja brtt. sem miða að því að auka áhrif Seðlabankans á vaxtaákvarðanir.

Ég get vel skilið og hef ákveðna, hvað eigum við að segja, samúð með tillögu um að gera bankaeftirlitið sjálfstæðara. Þessir hlutir voru hér til umræðu í gær vegna skýrslu ráðherra um Útvegsbankann. En ég held samt sem áður að á þeim hugmyndum sé einn ljóður. Hann er einfaldlega sá að þegar menn tala um að bankaeftirlitið þurfi að vera sjálfstæðara horfa menn algerlega fram hjá stjórnsýslu í þessu landi, skipan stjórnsýslunnar. Þeir horfa algerlega fram hjá stjórnkerfinu eins og því er fyrir komið. Hverjum eiga þessir bankaeftirlitsmenn í raun og veru að tilkynna sínar niðurstöður þannig að það hafi einhver áhrif? Alþingi er ábyrgt fyrir rekstri bankanna með þeim hætti sem við allir þekkjum. Það sitja alþm. í bankaráðum, bera ábyrgð á ráðningu bankastjóra og bera þannig ábyrgð á útlánapólitík bankanna. Þeir hafa engar skyldur til að upplýsa Alþingi um eitt eða neitt sem við kemur starfsemi bankanna. Í hvert skipti sem spurt er einhverra spurninga um hvað þeir séu að gera þarna í bönkunum leggst hulinshjálmur leyndarskyldunnar yfir alla þessa starfsemi. Síðan væri búið til sjálfstætt bankaeftirlit. Þeir menn tækju sig alvarlega og rykju til og færu að skoða starfsemi banka og kannske að taka af meiri hörku á málum en þeir hafa gert hingað til, hefði það verið mjög æskilegt t.d. þegar um Útvegsbankann var að ræða, og þeir rykju með það annaðhvort til ráðherra eða til Alþingis. Það er sama hvorn veginn þeir fara. Þessi ráðherra er líka rígbundinn í báða skó. Hann er rígbundinn af sömu aðilum sem hafa meiri hlutann í stjórn þessara banka þannig að sjálfstætt bankaeftirlit getur endanlega kannske helst höfðað til pressunnar, til almennings, en það getur svo sem hvaða ábyrgur embættismaður sem er. Sú samtvinnun og það samkrull framkvæmdavalds og löggjafarvalds sem við búum við í dag gerir hlutverk og þýðingu fyrirbæris eins og sjálfstæðs bankaeftirlits að brandara vegna þess að þeir væru alltaf að tala við sömu mennina þegar þeir væru að gefa og færa sína skýrslu, sömu menn og bera ábyrgð á því sem þeir væru að gagnrýna.

Ég held, frú forseti, að ég hafi þessi orð ekki miklu fleiri nema þá hvað viðvíkur þeirri grein sem fjallar um reglugerð ráðherra um starfsemi bankanna, þeirri sem var 42. gr. í frv. en orðin er að 41. gr. núna. Það er reyndar búið að nema burt úr þeirri grein að hér skuli kveðið á um sérstaka bindingu á innlánsfé eða umráðafé innlánsstofnana sé ákvörðunum Seðlabankans ekki hlítt. En ég tel að það nægi samt sem áður ekki til að fullvissa menn um að menn fari ekki í gamla farið ef þeim þykir svo við horfa. Ég nefni sem hugsanlegt dæmi að ef þessi stífla brestur sem fastagengið skapar, ef ekki verður mjög álitleg verðmætaaukning í sölu á okkar framleiðslu, skapast hér mjög erfitt ástand. Mér er sem ég sjái að þessi framsóknarstjórn sem núna situr grípi ekki fegins hendi til einhverra svona aðgerða þó ekki væri nema til þess að ná sér í lánsfé til að veita út aftur um bakdyrnar til þeirra atvinnugreina sem hvað vinsælastar eru í þessu landi og hafa ekki haft nema ca. 1100 ára aðlögunartíma að íslensku efnahagslífi.