23.04.1986
Efri deild: 88. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (4262)

248. mál, póstlög

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég lýsi mig alveg andstæðan þeim breytingum sem gerðar voru á frv. í Nd. Hv. Ed. gerði þær breytingar á frv. að heimilt væri fyrir póstgíróþjónustuna að sinna tvíhliða viðskiptum, þ.e. ekki aðeins að taka á móti fjármagni og annast millifærsluviðskipti fyrir sína viðskiptamenn heldur einnig að annast takmörkuð lánaviðskipti. Það virðist svo sem hv. þm. Nd., þar sem sumir hverjir í samgn. eru bankaráðsmenn í ákveðnum bönkum, hafi talið nauðsynlegt að breyta þessum eðlilega þætti póstgíróþjónustunnar til þess horfs sem nú er.

Ég tel að þarna hafi ekki ráðið önnur sjónarmið en sjónarmið ákveðinna bankastofnana. Það er dálítið sérstakt að heyra að í umræðum um seðlabankafrv. fyrir stundu í deildinni er því lýst yfir að bankastjórar Seðlabankans hafi talið eðlilegt að það væri aukið frelsi í bankaviðskiptum, en á sama tíma gerist það að m.a. sumir seðlabankastjórar lýsa því yfir að þetta frelsi sé óþarft. Að ætla að halda uppi viðskiptum og eðlilegri þjónustu í gegnum gírókerfið og leyfa því eingöngu að annast millifærsluviðskipti og taka á móti fjármagni er svipað og hæstv. iðnrh., meðan hann rak heildsöluviðskipti, hefði verið leyft að flytja inn en ekki leyft að selja. (Iðnrh.: Eða öfugt.) Eða öfugt, já. Frelsið er ekki meira en að þessari þjónustustofnun er aðeins leyft að sinna öðrum þættinum.

Og að tala um að það sé verið að búa til nýtt fargan eða nýja bankastofnun með því að leyfa gíróþjónustunni að annast þessi viðskipti er alveg út í hött. Þetta kerfi er fyrir vítt um landið, en það mun vitaskuld á ákveðnum stöðum ýta pínulítið við einkarétti Búnaðarbanka, Samvinnubanka og annarra banka sem sitja yfir viðskiptum á þessu sviði. Frelsið sem verið er að tala um er ekki meira en aðeins í orði hjá þessum höfðingjum, hvort sem það eru seðlabankastjórar eða bankaráðsmenn þessa eða hins bankans.

Það er erfitt að segja hvernig á að fara með málið núna í lokaafgreiðslu þingsins. Við erum hér með merkilegt lagafrv. sem þarf að samþykkja. Þess vegna er erfitt að segja að við eigum að fella þetta. En þarna hefur verið farið öfugum höndum um mál af hv. Nd.