23.04.1986
Efri deild: 88. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4503 í B-deild Alþingistíðinda. (4264)

248. mál, póstlög

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það er erfitt að viðurkenna það að hv. Nd. hefur tekið rétta afstöðu í þessu máli að mínu mati. Þetta mál er mjög í lausu lofti. Þó að málið út af fyrir sig sé áhugavert þá er það ekki hnýtt upp eins og þarf að vera. Það kom fram í máli hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar að hann væri mjög andvígur þessari breytingu sem hefði verið gerð í Nd. En sú breyting lokar í rauninni fyrir þann möguleika að hann sé gerður að bankastjóra í sínu starfi. Það eru líklega nær 100 útibú Pósts og síma á landinu sem kynnu að afgreiða á þennan hátt. Það eru ekki nein mörk um það hvaða tölur er um að ræða í mögulegum útlánum. Öll þessi útibú kynnu á næstu árum, næstu misserum, að krefjast aukins rekstrarkostnaðar vegna aukinna starfa vegna þessarar þjónustu þannig að það eru ótal liðir sem eru algjörlega óklárir. Þess vegna finnst mér ekki nokkur rök fyrir því að styðja málið á þann hátt að verið sé að opna þarna nýja leið í aukinni yfirbyggingu þjóðarinnar þó að þarna sé vissulega ákveðinn spennandi möguleiki í þjónustu. En það er þó betra að vita fyrir fram hvað það þýðir og hvað menn vilja gera í þeim efnum og hvað það kostar.