23.04.1986
Efri deild: 88. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4503 í B-deild Alþingistíðinda. (4265)

248. mál, póstlög

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Mér finnst að það beri að harma að þessi breyting skyldi hafa verið gerð í Nd., ekki síst vegna þess að það var allan tímann fullur vilji á því hér í þessari deild og í samgn. að afgreiða þetta mál, enda er málið þess eðlis. M.a. af þeirri ástæðu kom þessi breyting, sem hér var gerð í deildinni, ekki fram í nál. Það var mjög mikill meiri hluti fyrir því í samgn. Ed. Alþingis að gera þá breytingu sem gerð hefur verið. En það var hins vegar samkomulag um það í nefndinni, til þess að hraða störfum og til þess að það leiddi ekki af sér neina pólitíska erfiðleika, að afgreiða málið með þeim hætti sem gert var, þ.e. samkomulagi um að mæla með frv. óbreyttu en aftur á móti að menn hefðu fullan rétt á að flytja og fylgja brtt. Það lá náttúrlega alveg ljóst fyrir miðað við þann áhuga sem var í nefndinni um þetta mál að slíkar tillögur mundu koma fram. En málið var ekki tafið og það var ekkert samkomulag rofið með þessari afgreiðslu.

Mér finnst ástæða til þess að minna á ræðu samgrh., framsöguræðu fyrir þessu máli, sem er áreiðanlega ýmsum minnisstæð, og skýrir það m.a. hvað póstþjónustan sem slík á miklar rætur í viðhorfum fólksins vítt um landið, ekki síst í einangraðri byggðum, þar sem pósturinn var sá eini sem flutti nýjar fréttir og færði ný boð hér fyrr á árum. Þessi litla breyting felst einungis í því að út á þessi viðskipti með launin á gíróreikningunum sé hægt að veita smávægilega fyrirgreiðslu á móti. Og það er að sjálfsögðu það sem bankarnir með allt frelsið sitt eru á móti. Að þeir, sem láta peningana sína ganga yfir á póstgíróreikninga, geti notið sambærilegrar þjónustu eins og gerist yfirleitt varðandi bankareikninga, að þar hafa menn svolítinn yfirdrátt eða fá ofurlitla hjálp undir vissum kringumstæðum. Það gerist a.m.k. þar sem bankarnir eru tveir. Það gerist hins vegar ekki alls staðar þótt menn hafi slíka reikninga og bankinn er einn. Þannig að ég tek undir það, sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði hér áðan, að þetta er sannarlega ekki í takt við það sem menn eru að tala um í sambandi við frelsið. Þetta er heldur ekki í takt við það sem menn eru að tala um í sambandi við jöfnuð á þjónustu í landinu. Þetta er ekki í takt við það. Þetta gengur í berhögg við það.

Ég held að það sé alveg ljóst - og er ég þar ekki sammála Karli Steinari - að ef þetta mál tapast núna, þá vinnst það aldrei aftur. Það er gjörsamlega vonlaust að taka það upp öðru sinni ef það tapast núna.

Ég vek svo að lokum athygli á því að hér er aðeins um heimild að ræða. Það liggur alveg ljóst fyrir að um þetta yrðu settar mjög strangar reglur og hér yrði ekki um nokkra einustu útlánastarfsemi í þeirri mynd að ræða. Það er ekki verið að fara fram á annað en að þeir sem nota póstgíróreikninga geti haft nákvæmlega sömu réttindi og hinir sem nota bankareikninga í sambandi við launaviðskipti. Það eru nú öll ósköpin sem verið er að tala hér um.

Hins vegar veit ég vel að það er ekki vilji fyrir því hjá samgn. Ed. að trufla þessa afgreiðslu, það treysti ég mér til að fullyrða. En hjá því verður ekki komist að nefndin taki málið aftur til athugunar og þar verði reynt að finna bestu leiðina.