23.04.1986
Efri deild: 88. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4505 í B-deild Alþingistíðinda. (4267)

248. mál, póstlög

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það var fyrst og fremst út af orðum hv. 3. þm. Suðurl. sem gerði mikið úr því að það væri vafasamt að samþykkja þetta mál vegna þess að leiðir væru óklárar. Í fyrsta lagi, eins og hv. 11. landsk. þm. benti á, þá er þetta fyrst og fremst um heimild og í öðru lagi þá er hér verið að samþykkja heimild fyrir Póstgíróstofuna sem þegar hefur verið reynd og er í gangi hér í nágrannalöndunum og þykir sjálfsagður hlutur. Þar er öflug starfsemi á þennan veg, t.d. mjög öflug í Svíþjóð. Það hefur nú ekki þótt mjög miklum erfiðleikum bundið fyrir okkur Íslendinga að sækja fyrirmyndir að ýmsum þeim framfaramálum, sem við höfum komið á, til frændþjóða okkar á Norðurlöndum. En það má vel vera að hugmyndir sumra þm. séu þær að þar sé komið of mikið frelsi og er sjálfsagt á þann veg að við Íslendingar þolum það ekki. Þessu var lengi vel haldið fram í sambandi við millifærslur alls konar í kaupfélögum og kaupmannaverslunum að ekki væri þorandi að borga mönnum út peninga, vegna þess að Íslendingar væru alls ekki hæfir til þess að hafa peninga milli handanna. Og að vilja ekki samþykkja núna þessa eðlilegu viðskiptaþróun er ósköp svipað og sú skoðun sem áður var að almenningur þyldi ekki sjálfur að hafa peninga milli handanna. Og svo það að verið sé að koma á nýju bákni og verið sé að auka kostnað í þessum þjónustuþætti, það er náttúrlega af og frá. Eins og fram hefur komið eru símstöðvar fyrir hendi vítt um landið. Þær hafa verið byggðar upp á undanförnum árum til dálítið annarrar þjónustu en þar á sér stað núna, til almennrar þjónustu við viðskiptamenn sem núna eru flestir komnir til síns heima vegna þess að nú er komin sjálfvirk þjónusta um allt land. Það er sem sagt verið að bjóða upp á það að nýta þá aðstöðu sem er fyrir hendi og það starfslið sem er fyrir hendi til að sinna svolítið aukinni þjónustu á þessu sviði. En einhvern veginn stendur á því að þessari þjónustu megi ekki sinna. Ég held að það sé fyrst og fremst út frá því sjónarmiði, sem hér hefur komið fram, að það eru bankarnir, það eru fulltrúar bankaráðanna hér á hv. Alþingi sem hafa komið í veg fyrir það að þessi eðlilega samþykkt gengi í gegn og lögin yrðu á þann veg sem þau voru samþykkt hér í hv. deild.