23.04.1986
Efri deild: 90. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4521 í B-deild Alþingistíðinda. (4295)

423. mál, áfengislög

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Það er e.t.v. rétt að forseti reyni enn á ný að koma því á framfæri að hann leggur sig fram um að greiða fyrir málum eins og honum ber að gera, hvort sem um er að ræða málefni ríkisstj., þmfrv. stjórnarsinna eða stjórnarandstöðu. Forseti telur ekki að hann hafi farið þar í manngreinarálit og telur að það hafi gengið vel að koma hér málum áfram miðað við aðstæður, stuttan tíma og miklar annir sem allt starf þingsins þessa dagana ber sterkan keim af.

Forseti vill ítreka að það er ekki ástæða til að ætla að ekki sé hægt að koma málum áfram í gegnum þessa hv. deild nú í dag ef allir eru jafnsamtaka og samvinnan er jafngóð og hún hefur verið fram að þessu um að slíkt skuli gerast. Hins vegar ef menn hugsa sér að taka upp málþóf, þá er auðvitað alltaf hægt að stöðva mál. En því trúir forseti ekki á þessa hv. þingdeildarmenn að óreyndu, það þykir honum mjög ólíklegt og lái forseta hver sem vill.

Þetta mál, sem hér er verið að gera athugasemdir við, hefur á engan hátt verið rekið áfram með offorsi. Það hefur verið hér á dagskrá fund eftir fund og málinu verið frestað vegna þess að beðið hefur verið um þá frestun. Það hefur ekki legið fyrir og því hefur aldrei verið lýst yfir af forseta að þetta mál ætti ekki að fara hér í gegn vegna þess að forseti hefur óskað eftir að fá skýr fyrirmæli um það ef svo skyldi vera og það hefur ekki verið gert. Þess vegna er málið á dagskrá og nú ættar hæstv. dómsmrh. að skýra sína afstöðu í málinu eins og óskað hefur verið eftir.