23.04.1986
Efri deild: 90. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4526 í B-deild Alþingistíðinda. (4309)

332. mál, áfengislög

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki haft tækifæri til að taka fyrr til máls í þessu máli og sjálfsagt hefur það verið á einhverjum misskilningi byggt hjá mér að þetta mál kæmi ekki til atkvæðagreiðslu nú. Mér eru því settir hér slæmir skilmálar því að ekki eru nokkur tök á því að ég geti að nokkru ráði gert grein fyrir afstöðu minni hér við nafnakallið. Ég vil aðeins vísa til þess að mér þykir eðlilegt að hinkra við eftir áliti þeirrar stóru áfengismálanefndar sem hefur verið að vinna að undanförnu í þessum málum, áður en Alþingi tekur lokaákvörðun í þessu máli. Enn fremur vil ég láta þess getið hér að ég er eindregið á móti því að vísa þessu máli til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að Alþingi eigi að hafa dug til að taka á þessu máli sjálft, ella vísa þá þeim fjölmörgu margfalt mikilvægari málum, sem hér eru dagsdaglega til umræðu, líka til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég segi nei.

Frv. þar með fallið.