23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4529 í B-deild Alþingistíðinda. (4314)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 1058 flyt ég tvær litlar brtt. við þetta frv. sem kosta ekki mikið fé en ég lít fyrst og fremst á sem réttlætismál. Önnur brtt. snýst um það að ekki skuli innheimt útflutningsgjald af þeirri skreið sem ógreidd var 1. jan. 1986 og framleidd var fyrir 31. des. 1984. Í frv. er þetta ákvæði þannig, með leyfi hæstv. forseta, við 17. gr.:

„Enn fremur skal ekki innheimta útflutningsgjald af þeirri skreið sem flutt er út eftir 1. jan. 1986 en framleidd var fyrir 31. des. 1984.“

Ég held hinni sömu viðmiðun og gert er í frv., 31. des. 1984.

Nú væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, ef til eru, hvenær menn vænta þess að sú skreið sem flutt hefur verið út verði greidd og hvort einhver trygging er fyrir því. Á sínum tíma þegar lögin voru sett um gengismun af sjávarafla var ég andvígur því að sá gengismunur yrði tekinn af skreiðarbirgðum þar sem ég taldi að þær væru illseljanlegar og raunar alveg óvíst um hvort þær mundu nokkurn tíma seljast. Hæstv. sjútvrh. minnti mig á það í gær að ég hefði á þeim tíma gjarnan viljað rétta hlut saltfisksins og það er rétt. Ég vildi það gjarnan. En ég fór á hinn bóginn aldrei fram á að eytt væri meiru fé en aflað var. Úr því að menn voru áfjáðir í að skattleggja skreiðina vildi ég þó að þeir peningar færu til baka til fiskframleiðenda. Nú er það komið í ljós, eins og marga uggði á þeim tíma, að þessir peningar hafa ekki skilað sér.

Ég get út af fyrir sig fallist á það með hæstv. sjútvrh. og öðrum sem um þetta mál hafa fjallað að engin leið er að halda því fram að einhver einn tímapunktur sé réttari en annar. Þegar um það er talað að fella niður útflutningsgjald eða gengismun sem allir sjá að er ósanngjarn er erfitt að segja að frekar skuli kannske miða við 1. jan. 1986 en 31. júlí 1985 eða finna sér einhvern annan dag, en úr því að hér er búið að finnan þennan dag vil ég ganga hreint til verks.

Ég ætla ekki að rifja upp það mikla tap sem skreiðarframleiðendur hafa orðið fyrir, bæði vaxtatap og líka tap vegna þess að skreiðin hefur rýrnað á þessum árum og enn er ekki meira að segja útséð um að menn losni við hana. Ég tók það fremur í gamni en alvöru, en reynt hefur verið að réttlæta þessa skattheimtu á skreiðina frá 1981, 1982 og 1983 með því að á þeim tíma hafi flotinn fengið ódýra olíu og þess vegna sé rétt að greiða þær niðurgreiðslur núna með hagnaðinum af skreiðinni. Þetta er eins og að halda því fram að ýmis kaupfélög úti á landi, sem eru með ónýta lagera, hagnist á því af því að þau hafi fengið lagerana keypta svo ódýrt af því að þeir voru úreltir þegar þeir voru keyptir. Þetta er útúrsnúningur af versta tagi sem ég ætla ekki að rekja frekar. En ég ítreka að fyrri brtt. er mjög smá í sniðum. Hún er réttlætismál. Það eru litlar 10 millj. kr. sem verið er að tala um og þó er verið að tala um peninga sem ekki liggur ljóst fyrir hvort nokkurn tíma muni skila sér.

Varðandi 2. brtt. má segja að hún sé kannske stór. Hún fjallar um 20-25 millj. Hún er sú að ekki skuli greiða gengismun skv. lögum nr. 71/1984 af skreið sem ógreidd var 1. jan. 1986. Og nú spyr ég: Hver var hugsunin á bak við gengismuninn? Þegar fyrst voru sett lög um það hér á landi að nauðsynlegt væri að gera gengismun upptækan var hugsunin sú að vegna þess að á þeim tíma voru afurðalánin til sjávarútvegsins óverðtryggð mundu einstakir framleiðendur hagnast óhæfilega, ef þeir fengju að stinga gengismun af birgðum í sjávarútvegi í sinn vasa, vegna þess að það væri nánast tilviljun hvernig birgðastaðan væri hjá hverju einu fyrirtæki á hverjum tíma. Á hinn bóginn minnir mig að það hafi jafnan verið svo að gengismunur af hvalafurðum hafi verið látinn renna til Hvals hf. til baka vegna þess að það fyrirtæki var eitt í sinni atvinnugrein. A.m.k. minnist ég þess ekki að sá gengismunur hafi nokkru sinni allur verið af þeim tekinn í sameiginlegar þarfir. Þó má það vera ef ráðstafanir hafa verið gerðar t.d. varðandi niðurgreiðslu á olíu því að hvalbátarnir eyða mikilli olíu og er réttlætanlegt út frá því sjónarmiði.

En kjarni málsins er sem sagt þessi: Gengismunur er gerður upptækur vegna þess að menn telja að í honum felist óeðlilegur hagnaður, óeðlilegur gróði. Er einhver þm. hér inni sem heldur því fram að skreið framleidd á árunum 1981-1983 og enn er ógreidd hafi safnað á sig óeðlilegum gengishagnaði? Er einhver maður hér sem heldur því fram? Þá væri fróðlegt að fá að vita það.

Þau rök hafa verið færð gegn síðari brtt. minni að eftirstöðvar skuldbindinga gengismunarsjóðs séu eftirfarandi: a. Olíusjóður fiskiskipa 25-30 millj. kr., b. saltfiskdeild Verðjöfnunarsjóðs 25,4 millj. og e. öryggismál sjómanna 0,5 millj. Þetta eru milli 50 og 60 millj. Á móti þessu eru sem sagt þessar tekjur, 20-25 millj. af skreiðinni, og mér hefur heyrst að menn séu nú mjög að velta því fyrir sér að það sé rétt að láta skreiðarframleiðendur greiða hallann af Olíusjóði sem ekki var fyrir séð þegar löggjöf var sett um hann á sínum tíma. Það hefur mér skilist. Saltfiskurinn megi vera eftir, en það þurfi að greiða Olíusjóðinn í Seðlabankanum. Nú er það í mínum huga ekki aðalatriði hvort það verði greiddur saltfiskurinn eða olían. Staða saltfisksins er mjög góð í dag, miklu betri en skreiðarinnar, þannig að þau rök eru fallin að það eigi að skattleggja skreiðina til að rétta hag saltfiskframleiðslunnar. Þau rök tek ég ekki til greina. Í öðru lagi: Þeir menn sem báru ábyrgð á Olíusjóðnum á sínum tíma geta ekki sent reikninginn til skreiðarframleiðslunnar eins og staðan er.

Ég þykist með þessum orðum mínum í fyrsta lagi að hafa sýnt fram á að þessar brtt. mínar eru ekki stórvægilegar í peningum talið. Að vísu eru 35 millj. fé, en hitt held ég að sé þyngra á vogarskálunum að ég er hér að tala um sanngirnismál, réttlætismál. Ég er að tala um það að skattleggja ekki framleiðslu sem við vitum að er á syngjandi hausnum og við vitum að þeir einstaklingar sem stóðu fyrir henni hafa orðið fyrir verulegum töpum. Ég veit ekki hvernig menn hefðu tekið því í gær, þegar hæstv. iðnrh. var að gera grein fyrir afkomu ullariðnaðarins í landinu, ef einhver hefði stungið upp á því í þeim sömu svifum að skattleggja ullariðnaðinn sérstaklega til að standa undir öðrum atvinnurekstri sem betur gengur.

Ég vil drepa á annað efnisatriði frv., þ.e. í 16. gr., sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta: "Sjútvrh. setur nánari reglur um framkvæmd þessara laga, þar með um innheimtu skv. II. kafla, yfirlit yfir greiðslumiðlun og um endurskoðun og eftirlit með greiðslum sem Fiskveiðasjóður Íslands skal annast fyrir hönd Stofnfjársjóðs fiskiskipa og samtaka sjómanna og útvegsmanna.“

Það var raunar ekki þetta sem ég var að hugsa um. Það var við 12. gr. þar sem talað er um að sé innstæða í Stofnfjársjóði lengur en hálfan mánuð skuli Fiskveiðasjóður færa á reikninginn til tekna vexti sem séu jafnháir hæstu lögleyfðu fasteignaveðlánavöxtum.

Nú eru skuldir útgerðarmanna í Fiskveiðasjóði yfirleitt í SDR eða það er a.m.k. að færast mjög í vöxt og ég tel ekki ósanngjarnt að sú regla komist á að skuldurum Fiskveiðasjóðs sé heimilt að biðja um að það fé sem af þeim er tekið í Stofnfjársjóð sé geymt í sömu mynt og þau lán sem viðkomandi hefur fengið hjá sjóðnum. Ef lán útgerðarfélagsins eru bundin SDR eigi útgerðin kost á því að geyma fé sitt í Stofnfjársjóði í þeirri sömu mynt, ef lánin eru í dollurum, þá sömuleiðis í dollurum og þar fram eftir götunum. Þetta tel ég eðlilega og sanngjarna breytingu. Ég féllst á það í nefndinni að þetta mál yrði tekið til endurskoðunar og sé ekki ástæðu til að flytja um það sérstaka brtt., enda vænti ég þess að útgerðarmenn nái þessu fram fljótt, enda er þetta að verða reglan í viðskiptum.

Í þriðja lagi, þó það komi ekki beint þessu máli við, en vegna þess hversu áliðið er þingsins og ekki vinnst tími til að taka það mál upp með þinglegum hætti, ætlaði ég í þrjár til fjórar mínútur að níðast á deildinni með því að minnast á lítið mál. Þannig stendur á varðandi dragnótaveiðar í Bakkaflóa að heimild var gefin til að stunda þær frá 1. janúar til 15. júní á þessu ári. Svo brá hins vegar við að hafnarnefnd Bakkfirðinga kærði dragnótabát fyrir að hafa fiskað á almennri veiðislóð, ég hygg það hafi verið í Finnafirði sem er víðsfjarri höfninni í Bakkafirði, út af því að þessi bátur væri inni á nýju hafnarsvæði sem hæstv. samgrh. hafði verið svo rausnarlegur að úthluta þeim austur þar. Nú gerðu menn ekki ráð fyrir því að þessi kæra stæðist réttarlagareglur og þá brá hæstv. sjútvrh. skjótt við og sendi svohljóðandi skeyti norður til að standa nú við bakið á þeim Bakkfirðingum:

„Allar dragnótaveiðar bannaðar á Bakkaflóa frá og með 10. apríl 1986 innan línu sem dregin er úr Fossá, Fossárdal, í Saurbæjartanga, þaðan í Skarfatanga og loks í Svartanes.“

Það sem hæstv. sjútvrh. í raun og veru gerði var það að hann lokaði innfjörðunum, en leyfði dragnótaveiðar á miðsvæði hins nýja hafnarsvæðis þar sem er grýttur botn og menn geta hvort sem er ekki athafnað sig með dragnót og var það náttúrlega mikil rausn.

Hins vegar er Finnafjörður á mörkum Norður-Múlasýslu og Norður-Þingeyjarsýslu. Ég veit ekki hvort það er almennur vilji þeirra Bakkfirðinga að fylgja sínum sérhagsmunum svo hart eftir að ekki megi deila þessum litla firði með nágrannasveitarfélögum, en það vita menn að veiðar í Finnafirði voru mjög góðar. Meðalþungi þorsks í veiðiferð fór upp undir 7 kg og var yfirleitt frá 3 og upp í 5 kg. Mér er ekki kunnugt um að neitt álit né erindi hafi borist frá Hafrannsókn varðandi þetta atriði né hafi verið um það beðið.

Nú er spurning mín til hæstv. sjútvrh. út af þessu:

Í fyrsta lagi: Er það hugmyndin framvegis að loka þessum fjörðum, við skulum taka Finnafjörðinn sérstaklega?

Í öðru lagi: Er kannske hugmynd hæstv. sjútvrh. að taka mið í friðunaraðgerðum sínum af nýjum hafnarsvæðum hæstv. samgrh. og láta hann þar með með óbeinum hætti móta fiskveiðistefnuna?

Í þriðja lagi spyr ég hvort hugmyndin sé framvegis að leita álits Hafrannsóknastofnunar áður en ráðist er í að loka eða opna veiðisvæði.