23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4538 í B-deild Alþingistíðinda. (4320)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég get orðið við beiðni hæstv. forseta um að stytta mál mitt, en aðeins ætla ég að svara einum lið. Það viðkemur 13. gr. og hefur verið spurt hér um og lítillega rætt um, bæði af hv. þm. Svavari Gestssyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni, í sambandi við greiðslur inn á reikning LÍÚ vegna vátryggingar skipa.

Ég vil að það komi alveg skýrt fram að þetta fjármagn greiða viðkomandi útgerðarfyrirtæki inn á reikning LÍÚ í viðskiptabanka sínum. Þeim er heimilt að greiða þetta inn á reikning sem LÍÚ á í viðskiptabanka þess útgerðarfyrirtækis sem greiðir. Hins vegar má kannske deila um hvort þetta fjármagn liggur þar nægjanlega lengi inni. Það er annað mál. Um það geta útvegsmenn sjálfir tekið ákvörðun og það eiga þeir að gera á sínum aðalfundi. Ef þeir vilja láta þetta fjármagn liggja inni í hálfan mánuð eða þrjá mánuði eiga þeir að gera samþykkt um það á sínum aðalfundi og þá á stjórn LÍÚ að fara eftir því og ég veit að það munu þeir og gera. Ég er því ekki hræddur við þetta atriði út af fyrir sig. Þarna er aðeins verið að fjalla um hvernig útvegsmenn sjálfir, sem standa að LÍÚ, vilja fara með rekstrarfé Landssambands ísl. útvegsmanna og hvernig með hagnað og tap af þeirri stofnun er annars farið.

Ólafur Þ. Þórðarson, vinur minn. Þetta er ekki að kenna trassaskap LÍÚ. Ef einhver trassaskapur er hjá LÍÚ eiga útvegsmenn sjálfir að taka á þeim trassaskap og hreinsa til. Þeir hafa alla burði til þess og það á að gerast eftir eðlilegum leikreglum á aðalfundi þeirra samtaka.

Ég ætla ekki að fara að fjölyrða um rekstur LÍÚ. Ég þekki hann þó allnokkuð og kannske betur en margir hér. Ég held að það sé býsna gott hjá þeim. Ég held að útvegsmenn sjálfir eigi að fjalla um þennan þáttinn, hvernig með það fé er farið sem fer í tryggingasjóðinn.