23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4540 í B-deild Alþingistíðinda. (4323)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er engin ástæða til þess fyrir okkur stjórnarandstæðinga að fara að tilmælum hæstv. forseta að tala stutt þegar stjórnarsinnar sjálfir sumir hverjir vaða vítt um völl utan dagskrár og tefja tímann. Það er ekki að sjá á þeirra liði að þeir ætli að standa við þá tímasetningu, sem um var talað, að slíta þingi í dag, ef framhald verður á því sem hér hefur gerst í morgun, og við því má auðvitað búast. Það er ekki betra taumhaldið á liðinu en þetta.

Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér. Ég hef örfá orð um þau að segja. Auðvitað er öllum ljóst varðandi Aflatryggingasjóðinn eða tryggingar almennt að afla þarf tekna. Ég hygg að sú nefnd sem fjallaði um málið þann tíma sem hún var, sem var allnokkur, hafi gert sér grein fyrir því með hvaða hætti slíkra tekna ætti að afla. Það er vissulega erfitt fyrir okkur, sem sjáum þetta nánast 1-2 dögum áður en ljúka á máli í þinginu, að gramsa í því. En það er öllum ljóst að tekjur þarf til þessa. Auðvitað væri gott ef það væri farið eftir því, sem hæstv. sjútvrh. sagði, að menn umgengjust auðlindir hafsins á þann veg að ekki þyrfti á neinu slíku að halda. Hvað er átt við með því? Ráðum við því? Ráða sjómenn því? Ráða skipstjórar því, útgerðarmenn, að umgangast auðlindir hafsins þannig að aldrei þurfi á neinum tryggingum að halda í þeim efnum? Ráða menn því undir kvóta betur en utan hans? Ég hygg að það muni vera erfitt að stýra þeim gæðum á þann veg að það sé alltaf gnægð í hafinu til að þjóna öllum í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. sagði að hagsmunaaðilar sjómanna og útvegsmanna hefðu samið um þetta allt fyrir hönd sinna umbjóðenda. Ég vek athygli á því að það er aðeins eitt sjómannafélag á Vestfjörðum innan Sjómannasambands Íslands þannig að Sjómannasamband Íslands hefur á engan hátt farið með umboð fyrir önnur félög en það eitt. Ég er á engan hátt að hnýta í Sjómannasambandið vegna þessa. Ég veit heldur ekki betur en ýmis önnur sjómannafélög innan Sjómannasambandsins hafi haft uppi andmæli gegn þessu samkomulagi. Ég man ekki betur en hæstv. samgrh. nefndi sjö sjómannafélög við fyrri umræðu þessa máls sem hefðu andmælt ýmsu í þessu samkomulagi. Hér er því ekkert heilagt mál á ferðinni af hálfu þessara aðila nema síður sé.

Það er rétt hjá hæstv. sjútvrh. að ekki þarf að senda peninga hingað og þangað eða á milli, en það þarf að standa skil á þeim greiðslum sem á að inna af hendi á réttum tíma. Það á ekki að safna þessum peningum upp hér. Þeir eiga að fara til sjóðanna víðs vegar um landið á réttum tíma. Það er aðalmálið. Ég fagna því að hæstv. ráðh. er mér sammála í þessu og ég vænti þess að hann sjái svo til að Lífeyrissjóður sjómanna skili þessu fé á réttum og eðlilegum tíma til annarra lífeyrissjóða.

Varðandi trillubátamennina. Já, þeir eru flestir hverjir útgerðarmenn, segir hæstv. sjútvrh. Kannske er það svo á Austfjörðum. Það er ekki svo á Vestfjörðum. Þar eru menn með aðra. Þeir eru með háseta, hæstv. sjútvrh., sem þeir þurfa að borga laun og ekkert eiga í útgerðinni. Það þarf líka að tala um þá, ekki bara útgerðarmennina. Það eru þessir menn sem eru skildir eftir í þessu samkomulagi og fá ekki fæðispeningagreiðslur eins og þeir fengu áður.

Það er rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði. Sjómannasambandið og LÍÚ sá um sína í þeim efnum, en skildu trillukarlana eftir. Það er af þeim tekið sem þeir áður höfðu. Og mín spurning er enn: Hvers vegna? Hver var ástæðan fyrir því að þessir aðilar einir innan sjómannastéttarinnar voru teknir út úr og þeirra hlutur skertur? Hvaða ástæður hafa menn fyrir því? Ég hef ekki fengið svar við því enn nema þá þá ástæðu eina að það hafa ekki verið gerðir samningar fyrir þá. En það eru léttvæg rök í mínum huga.

En ef einhver sem að þessu stendur hefur á því skýringu af hverju þetta var gert vildi ég gjarnan fá að heyra slíkt því að ég er andvígur því að þessum einu aðilum sé kippt út úr og af þeim tekið það sem þeir áður höfðu og þeir skildir eftir.