23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4542 í B-deild Alþingistíðinda. (4328)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að biðja um nafnakall út af þessari brtt. hv. þm. Halldórs Blöndals og vil því fá að greina frá með hvaða hætti mál þetta er.

Hér er um að ræða stjfrv. sem var flutt í Ed. og var ákveðið að fella inn í þetta mál og var gengið frá í ríkisstj. á sínum tíma og þingflokkum eftir fundi með hagsmunanefnd skreiðarframleiðenda. Þar með hafa málefni skreiðarframleiðenda ekki verið leyst. Þar eru ýmis mál óleyst. Það sem hér var fjallað um áðan var eingöngu um 10 millj. Hér er um hundruð milljóna kr. vandamál að ræða sem ekki hefur verið endanlega gengið frá. Þetta vildi ég upplýsa vegna þeirrar atkvæðagreiðslu sem hér fór fram áðan.