23.04.1986
Neðri deild: 97. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4543 í B-deild Alþingistíðinda. (4330)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um málefni Arnarflugs sem er 448. mál á þskj. 1090. Það mál sem hér er til umfjöllunar er um ríkisábyrgð fyrir Arnarflug og er hér flutt samkvæmt ákvörðun ríkisstj. sem tekin var í gær að tillögu samgrh., en hann hefur um nokkurt skeið fjallað um málefni fyrirtækisins.

Meginefni frv. felst í því að fjmrh. er skv. frv. heimilt að veita Arnarflugi sjálfskuldarábyrgð fyrir láni sem tekið verður til að bæta greiðslustöðu fyrirtækisins. Lán þetta má nema allt að 2,5 millj. bandaríkjadala eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum og jafnframt er ríkissjóði heimilt að taka þátt í greiðslu vaxta af láninu.

Arnarflug hf. hefur verið rekið með miklu tapi undanfarin ár þannig að bókfært eigið fé fyrirtækisins um síðustu áramót var neikvætt sem nemur umtalsverðum upphæðum. Í því sambandi vísa ég til bráðabirgðauppgjörs endurskoðenda fyrirtækisins sem nú liggur fyrir og verður að sjálfsögðu afhent þeim nefndum þingsins sem um þetta mál munu fjalla. Fullnaðaruppgjör liggur hins vegar ekki fyrir, en stöðu fyrirtækisins má með nokkuð óyggjandi hætti ráða af því bráðabirgðauppgjöri sem fyrir liggur og ég hef hér greint frá.

Það er óvenjulegt í þessu máli að Arnarflug getur ekki lagt fram venjubundnar tryggingar fyrir ríkisábyrgð af lánum utan réttindi sín samkvæmt kaupleigusamningi um Boeing-737 flugvél félagsins. Það er erfitt á þessari stundu að áætla verðmæti þessara réttinda, en þau felast einkum í því að fyrirtækið á samkvæmt samningi rétt til þess að kaupa flugvélina fyrir um það bil 4,5 millj. bandaríkjadala eftir um það bil þrjú ár. Markaðsverð flugvéla af þessari gerð að sögn forráðamanna Arnarflugs er talið vera milli 8 og 9 millj. bandaríkjadala. Á móti kemur að standa verður undir leigugreiðslum fram að þeim tíma að kaupréttur verður virkur, en miðað við núverandi aðstæður stendur þó eftir að ætla má að nokkur verðmæti séu fólgin í því geta nýtt sér þennan kauprétt er þar að kemur.

Rétt er þó að taka fram að það verður ekki einfalt mál að ganga frá viðunandi tryggingu fyrir ríkisábyrgð á réttindum samkvæmt slíkum samningi. Besta trygging sem ætla má að út úr þessu geti fengist er sú að fengið verði samþykki leigusala og annarra hlutaðeigandi samþykktaraðila fyrir því að Ríkisábyrgðasjóður geti gengið inn í réttindi og skyldur samkvæmt samningnum hvenær sem er á leigutímanum sé þess talin þörf og verður unnið að því að ganga frá tryggingu með þeim hætti verði frv. þetta að lögum.

Af hálfu ríkisstj . er þessi ríkisábyrgð hugsuð sem einn þáttur í aðgerðum til að koma fjárhag fyrirtækisins á réttan kjöl svo að það geti starfað áfram með eðlilegum hætti. Fyrir því eru rök að nauðsynlegt hlýtur að teljast að samkeppni innlendra fyrirtækja sé fyrir hendi í millilandaflugi þó að þau fljúgi á mismunandi flugleiðum. Það er meginástæða fyrir því að rétt þótti að afla þessarar heimildar að tryggja að sú samkeppni sem verið hefur á milli flugfélaga haldist og hér verði áfram tvö flugfélög í utanlandsflugi.

Þau skilyrði sem eru sett í frv. fyrir því að ríkisábyrgð megi veita eru nokkur.

Í fyrsta lagi verður það skilyrði sett skv. frv. að nýtt hlutafé í fyrirtækinu verði a.m.k. 95 millj. kr. Það er alveg ljóst að það er nauðsyn á miklu nýju hlutafé. Forráðamenn félagsins hafa í viðræðum við stjórnvöld lýst því að tilteknir aðilar séu reiðubúnir að leggja fram nýtt hlutafé. Að mati ríkisstj. þykir eðlilegt að setja þá lágmarkskröfu að 95 millj. kr. komi inn í nýju hlutafé. Þar sem ljóst er að hlutafjárloforð verða ekki greidd strax að fullu þykir nauðsynlegt að setja það skilyrði að sá hluti hlutafjárloforðanna sem ekki greiðist þegar í stað verði verðtryggður.

Í annan stað er gert ráð fyrir því að fjmrh. geti ákveðið nánar um framkvæmd þess ákvæðis að kaupleigusamningur sem Arnarflug hefur gert um flugvélina TF-VLT skuli vera til tryggingar á áhættu ríkissjóðs. Í því sambandi kann m.a. að þykja nauðsynlegt að leitað verði samþykkis eigenda flugvélarinnar fyrir því að Ríkisábyrgðasjóður geti gengið inn í réttindi og skyldur samkvæmt kaupleigusamningnum um flugvélina hvenær sem er á leigutímanum verði þess talin þörf og eins og ég hef áður greint frá verður unnið að framkvæmd málsins á þeim grundvelli.

Í þriðja lagi er það skilyrði sett að öll opinber gjöld við ríkissjóð sem í vanskilum eru verði greidd upp ásamt með viðurlögum af andvirði þess láns sem tekið verður með ríkisábyrgðinni.

Að öðru leyti vísa ég til athugasemda sem fylgja með frv. Það er nauðsynlegt að frv. nái fram að ganga hér á hinu háa Alþingi í dag. Ég vænti þess að um það verði samkomulag að greiða fyrir framgangi málsins og legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.