23.04.1986
Neðri deild: 97. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4544 í B-deild Alþingistíðinda. (4331)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mál sem hér liggur fyrir hefur nokkuð verið rætt í fjölmiðlum að undanförnu og margt af þeim upplýsingum, sem fram hefur komið í fjölmiðlum og ég hef átt kost á að afla mér annars staðar, er satt að segja með býsna sérkennilegum hætti. Sumt af því er þannig að ég kann ekki við að flytja það héðan úr þessum ræðustól, a.m.k. ekki við 1. umr. málsins, og ætla ekki að gera.

Ég á kost á því að ræða þetta mál í fjh.- og viðskn. hv. Nd. sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar. Þar verða kallaðir til yfirheyrslu ýmsir aðilar, fulltrúar frá Arnarflugi, m.a. úr hópi hinna svokölluðu nýju hluthafa, Ríkisábyrgðasjóði og fleiri aðilum sem tengjast þessu máli. Ég læt þess vegna að þessu sinni nægja að gera örfáar athugasemdir. Það er þetta:

Ég hefði talið skynsamlegra af ríkisstj. að bíða með ákvörðun um ríkisábyrgð þar til það lægi fyrir að skilyrði nr. 1 og 2 í 2. gr. frv. verði uppfyllt, þ.e. það liggi fyrir skilyrðislaus loforð um 95 millj. kr. í nýju hlutafé og að það sé hægt fyrir ríkið að taka veð í kaupleigusamningi, en það er ætlun ríkisstj. Það er í fyrsta sinn í sögunni sem hugmyndir eru uppi um að Ríkisábyrgðasjóður tryggi sig með kaupleigusamningi. Það liggur ekkert fyrir um að kaupleigusalinn samþykki að ríkið gangi inn í þennan samning með þeim hætti sem ríkisstj. er hér að gera tillögur um. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það hefði verið eðlilegra, herra forseti, að ríkisstj. hefði ósköp einfaldlega skýrt frá því að hún vildi fyrst kanna hvort hlutaféð fæst og hvort kaupleigusalinn er tilbúinn að samþykkja að ríkið gangi inn í þetta dæmi og síðan að taka ákvörðun um veitingu ríkisábyrgðar en ekki öfugt eins og hér er verið að gera tillögu um.

Ríkisstj. hefur hins vegar tekið ákvörðun um að veita ríkisábyrgð. Það gerði hún í gærmorgun samkvæmt fréttum sjónvarps og útvarps. Það var svo seinni partinn í gær eða fimm eða sex tímum seinna að ríkisstj. ræddi þessi mál við stjórnarandstöðuna. Það var eftir að ákvörðun hafði verið tekin í ríkisstj. um að veita þessa ríkisábyrgð hvað sem tautar og raular. Og auðvitað ræður stjórnin þessari ferð. Auðvitað hefur ríkisstj. meiri hluta á hv. Alþingi og getur beitt honum til að knýja fram stefnu sína varðandi ríkisábyrgð til handa Arnarflugi. Hér er ríkisstj. að gera tillögu um að ríkisstyrkja hina frjálsu samkeppni, kapítalismann í landinu. Og það er ekki nýtt. Það má heita að það hafi verið viðtekin regla hér á undanförnum árum að þegar Arnarflug var ekki á borðum þm. voru það Flugleiðir. Yfirleitt hefur það verið svona um langt árabil, kannske áratug eða meira. Það þarf út af fyrir sig engum að koma á óvart vegna þess að þessi markaður er þröngur og einu rökin sem ríkisstj. flytur eru þau að það þurfi að halda uppi samkeppni, jafnvel þó að það kosti það að tekin sé veruleg áhætta fyrir ríkið eins og fjmrh. viðurkennir í máli sínu.

Það sem er einnig alvarlegt í þessu efni, herra forseti, er að það er engan veginn ljóst að þessi fyrirgreiðsla leysi vanda Arnarflugs eða þessarar nauðsynlegu samkeppni í flugi til frambúðar. Engar upplýsingar liggja fyrir um það. Meðan svo er er auðvitað ákaflega erfitt að taka afstöðu til máls af þessu fagi.

Ég vil ekki á þessu stigi málsins segja fleira um frv. þetta, herra forseti, en áskil mér allan rétt við frekari málsmeðferð eftir að upplýsingar hafa komið fram við meðferð málsins í fjh.- og viðskn.