23.04.1986
Neðri deild: 97. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4546 í B-deild Alþingistíðinda. (4333)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Á sínum tíma var ég hlynnt því að starfsleyfi væri veitt Arnarflugi og ég tel ekki óeðlilegt að hér fái að starfa tvö flugfélög. Það er ljóst að þannig hefur verið haldið niðri verði fyrir það fólk sem þjónustu þessara fyrirtækja nýtur.

Hitt er svo annað mál að það er útilokað í svo litlu landi að tvö svo stór flugfélög hafi ekki samvinnu um ákveðna markaði og fráleitt að þessi tvö félög séu að berjast um leiguflug suður í löndum eins og um gjörsamlega óskylda aðila, eins og það hefur stundum verið kallað, sé að ræða. Ég vildi því benda hæstv. fjmrh. á að ég tel alveg nauðsynlegt að eitt af skilyrðum fyrir því að þessi sjálfskuldarábyrgð verði veitt sé að þessum tveimur félögum verði gert að hafa samvinnu um ákveðna markaði. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að öðru eins gríni sé haldið úti eins og samkeppni þessara tveggja félaga um leiguflug suður í Alsírborg nú fyrir skömmu. Jafnframt tel ég eðlilegt, ef um slíka sjálfskuldarábyrgð yrði að ræða, að ríkið hefði aðstöðu til þess að fylgjast náið með fjárhagsafkomu félagsins í smáatriðum þar til ljóst er að skattborgarar þurfa ekki að standa uppi með þessa stóru upphæð.

Ég vil jafnframt benda á að það er afleitt að svona mál skuli koma hér inn á síðasta þingdegi á meðan við hv. þm. höfum verið að berjast fyrir örfáum milljónum til þjóðþrifamála, og ekki gengið allt of vel, en síðan er sú krafa sett á okkur að við snörum út úr ríkiskassanum að öllum líkindum yfir 200 millj. kr.

Ég vil taka undir með hv. 3. þm. Reykv. að ég hef alls ekki tekið ákvörðun um hvaða afstöðu ég hef í þessu máli. Ég hallast þó helst að því að best sé, eins og málum er komið, að það verði verkefni ríkisstj. sjálfrar og einnar að taka þá miklu ákvörðun hvort þessi sjálfskuldarábyrgð verði veitt. Ég held að flestir þm. séu orðnir ærið þreyttir á málum af þessu tagi aftur og aftur.